fbpx
Föstudagur 16.maí 2025
Fréttir

Kristján Hreinsson skrifar: Tóm lygi Tómasar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 13. ágúst 2023 19:30

Kristján Hreinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í DV-umfjöllun fimmtudaginn 10. ágúst segir:

Stofnandi Bláa hersins ósáttur við Veraldarvini – „Reynt allt til þess að knésetja mig undanfarin ár“

Tómas segir við DV að Kristján Hreinsson og Veraldarvinir gorti sig af verkefni sem þeir hafi vélað til sín frá Bláa hernum með manneskju sem einu sinni vann hjá Bláa hernum. „Svona mætti lengi telja,“ segir Tómas og sakar Veraldarvini um að vinna gegn sér með óheiðarlegum hætti:

„Ég er bara búinn að fá mig fullsaddan á því hvernig þessi samtök og þau sem þar stjórna hafa seilst í siðleysi fram með falsi og prettum gagnvart mér og mínum verkefnum og reynt allt til þess að knésetja mig undanfarin ár.“

Í fyrsta lagi lýgur Tómas Knútsson þegar hann segir Veraldarvini hafa tekið verkefni frá Bláa hernum. Veraldarvinir eru stór samtök sem menn treysta. Veraldarvinir véluðu aldrei til sín samstarf við norsk samtök. Norsku samtökin, Hold Norge Rent, fóru þess á leit við Veraldarvini að hefja samvinnu, þar eð sá sem samtökin höfðu verið í samstarfi við, hér á landi, sinnti ekki verkefninu. Engin sem áður starfaði fyrir bláa hermanninn kom þar að sem áhrifavaldur. Á þessu ári hafa Veraldarvinir u.þ.b. 1200 sjálfboðaliða að störfum m.a. við strandhreinsun. Blái herinn er að jafnaði einn sjálfumglaður hermaður sem stundum sankar að sér nokkrum einstaklingum.

Í öðru lagi lýgur Tómas fálkaorðuhafi þegar hann sakar Veraldarvini um siðleysi, falsi og pretti. Hann mun hvergi geta sannað að Veraldarvinir hafi reynt að knésetja hann. Hið sanna er að Tómas Knútsson er sá sem notar siðleysi, fals og pretti. Hann er kominn á þann stað í lygi sinni að hann einn trúir öllu sem hann segir.

Í þriðja lagi lýgur Tómas Knútsson þegar hann lætur í það skína að ég sé að skrifa fyrir Veraldarvini. Hér með staðfesti ég að það sem ég hef skrifað um bláa hermanninn hefur aldrei verið gert í nafni Veraldarvina eða annarra samtaka – einungis í mínu nafni. Ég hef starfað með sjálfboðaliðasamtökum í meira en áratug og komið að margs konar verkefnum. Ég rakst snemma á það að einn blár hermaður montaði í sífellu af verkum sem aldrei hafa verið unnin. Í fyrstu spurði ég spurninga en fékk ekki svör. Eitt af því sem ég hnaut um var að Blái herinn fékk verulega fjármuni til þess að hreinsa strendur Íslands. Í febrúar 2020 fékk herinn 2 milljónir króna frá umhverfisráðuneytinu vegna verkefnis sem ber heitið Plasthreinasta landhelgi í heimi. Hvergi er hægt að finna neitt um að verkefnið hafi verið unnið.

Þegar ég fór að rannsaka Bláa herinn, þá var mér tilkynnt í tölvupósti að ég væri að ráðast að frjálsum félagasamtökum og mér sagt að ársreikningar félagsins fyndust ekki, þar eð þeir hefðu eyðst í húsbruna. Þetta var reyndar enn ein lygin. Eitthvað fékk ég að sjá af örfáum ársreikningum félagsins. Ég skoðaði slóð Bláa hersins. Auðvitað var sannleikurinn svakalegur og hann er svakalegur enn í dag. Þar kemur skýrt fram að útgjöld eru einkum húsaleiga yfir eigur Tómasar Knútssonar. Það er sama hvernig ég reyni að trúa á verk þessa manns, allt virðist hann setja í einn og sama lygavefinn. Nýlegt og einkar skýrt dæmi kemur akkúrat fram í téðri DV-grein, þar sem vísað er í grein í Víkurfréttum. En þar segir: „Tómas J. Knútsson vann verðlaun Sameinuðu þjóðanna“. Hið sanna er að Tómas tengist samtökum sem fengu viðurkenningu. Hann lætur það aftur á móti líta út eins og hann – prívat og persónulega – hafi tekið á móti verðlaunum. Það er sama hvernig leitað er að þessum persónulegu verðlaunum Tómasar, fálkaorðuhafa, þau finnast hvergi á netinu. Í Róm kannast enginn við manninn. Það er vegna þess að sem persóna fékk Tómas engin verðlaun. Fyrirsögnin í Víkurfréttum er skreytni af verstu sort. Hann lítur svo á að það sem afhent er Bláa hernum sé í reynd eign Tómasar Knútssonar. Sjálfsupphafningin á sér engin takmörk.

Í fjórða lagi er það bláköld lygi þegar blái hermaðurinn reynir að láta líta út eins og Veraldarvinir séu í herferð gegn Bláa hernum. Hér er um hreina lygi að ræða. Veraldarvinir hafa aldrei reynt að knésetja Tómas Knútsson eða kasta rýrð á hann og verk hans – hvorki unnin né óunnin. Tómas Knútsson hefur í raun og veru séð um það einn og óstuddur að knésetja sig með lygum, falsi, sjálfsupphafningu og með því að vera stöðugt að þykjast. Ég endurtek: Veraldarvinir hafa hvergi reynt að knésetja Tómas Knútsson. Ef mér hefur tekist að opna augu manna fyrir lygavef Tómasar þá er það lóð á vogarskál sannleikans.

Í fimmta lagi lýgur fálkaorðuhafinn Tómas þegar hann sakar mig um níð. Það er því rétt að setja eftirfarandi klausu í rétt samhengi. En í téðri DV-frétt segir blái hermaðurinn: „Blái herinn er ekki lengur styrktur af Brim, þökk sé Veraldarvininum Kristjáni Hreinssyni sem hrakti þá frá því að vera einn að aðalstyrktaraðilum okkar með níðskrifum sínum.“ Eins og áður hefur komið fram þá lýgur Tómas því að Veraldarvinir eigi hér hlut að máli. Veraldarvinur er ég en Veraldarvinir koma hvergi nærri skrifum mínum. Veraldarvinir hafa verið í samstarfi við samtökin Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, sem ég starfaði fyrir í áratug eða svo. Önnur sjálfboðaliðasamtök, SEEDS, hafa einnig starfað með GFF. Það sem ég hef skrifað um Bláa herinn hef ég gert í mínu nafni og þar hafa sjálfboðaliðasamtök ekki lagt hönd á plóg. Ég stend við öll þau orð sem ég hef sett á blað um Bláa herinn.

Nú er það svo að Tómas gerist svo djarfur að kalla orð mín níðskrif. Þetta er enn ein lygin. Hið sanna er að ég hef hvergi notað níð gegn honum. Ég hef einvörðungu birt staðreyndir um Bláa herinn. Reyndar er þetta allt níði líkast og þar er ég nær undantekningalaust að fjalla um lygavef Tómasar Knútssonar. Á einum stað skrifaði ég: „Það vekur líka athygli að félagið (Blái herinn) á engar eignir – ekki eina krónu á bankareikningi. Verulegur hallarekstur er á starfseminni árin 2017 og 2018 en hagnaður árið 2019. Eitt árið greiðir herinn himinháa húsaleigu (þ.e.a.s. 2019, alls u.þ.b. fjórar milljónir vegna húsnæðis, jafnvel þótt eignir séu engar. Engar eignir – en yfir 300.000 í leigu á mánuði.“ Ég komst að því að þetta örfélag þiggur styrki til að greiða húsaleigu yfir eignir Tómasar Knútssonar. Eins koma fram í ársreikningi óskilgreindar greiðslur.

Sannleikurinn er sá að orð mín hafa hér ekkert að segja. Mér sýnist þetta líta svona úr: Um leið og menn hjá Brimi áttuðu sig á því hvað þeir voru í raun og veru að styrkja þá hættu þeir að gefa Tómasi peninga. Tómas Knútsson er aftur á móti svo lítill bógur að hann ræðst á mig og sakar mig um níðskrif – þegar ég hef  einungis birt sannleikann og dregið ályktanir af fyrirliggjandi staðreyndum varðandi hinn svokallaða Bláa her. Þetta eru staðreyndir sem hann hefur sjálfur sett á prent. Blái herinn er fyrirbæri sem enginn ætti að styrkja.

Sannleikurinn um stolnu fjaðrirnar kemur víst alltaf í ljós – fyrr eða síðar. Ef sannleikurinn knésetur Tómas Knútsson þá er það ekki mér að kenna. Tómas Knútsson má kalla orð mín níðskrif. Hið merkilega er þó að hann hefur hvergi reynt að sýna fram á að ég fari með rangt mál. Hann hefur að vísu hótað mér málsókn fyrir að opinbera sannleikann. Hann reynir ítrekað að nota upphrópanir  eins og froðufellandi frekjuhaus, svo er sjálfsupphafningin áberandi liður í einkaherferð hans. Hvergi hefur hann reynt að afsanna þær fullyrðingar mínar að stór hluti styrkja til Bláa hersins fara í að greiða húsaleigu fyrir Tómas Knútsson. Nöturlegt en satt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Kona réðst á pizzasendil og stal af honum símanum

Kona réðst á pizzasendil og stal af honum símanum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fanga-gambítur Pútíns kemur í bakið á honum

Fanga-gambítur Pútíns kemur í bakið á honum
Fréttir
Í gær

Hópslagsmál á Suðurnesjum – Kýldi konu í andlitið sem æfði með honum box

Hópslagsmál á Suðurnesjum – Kýldi konu í andlitið sem æfði með honum box
Fréttir
Í gær

Svíar sjá merki um hernaðaruppbyggingu Rússa nærri Finnlandi og Noregi

Svíar sjá merki um hernaðaruppbyggingu Rússa nærri Finnlandi og Noregi
Fréttir
Í gær

Sérfræðingur varar við – „Pútín vill ekki frið“

Sérfræðingur varar við – „Pútín vill ekki frið“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar