Mál Agnesar M. Sigurðardóttur biskups hefur verið mikið í fréttum í dag og vakið undrun. Sú er túlkun margra á lögum og reglum að biskup sitji ekki lengur löglega í embætti.
Sú spurning er áleitin hvers vegna ekki hefur verið boðað til biskupskjörs. Samkvæmt reglum um kjör biskups og vígslubiskupa rann skipunartími Agnesar, sex ár, út þann 1. júlí síðastliðinn. Agnes var skipuð biskup árið 2012. Árið 2017 framlengdist skipunartími hennar sjálfkrafa samkvæmt þágildandi reglum um biskupskjör, en skipunartíminn var þá fimm ár. En samkvæmt núgildandi reglum er skipunartími biskups sex ár og framlengist ekki. Agnes situr núna í embætti, eftir að skipunartíma hennar lauk, í krafti ráðningarsamnings sem undirmaður hennar, framkvæmdastjóri Biskupsstofu, Ragnhildur Ásgeirsdóttir, gerði við hana 1. júlí 2022 og gildir í 28 mánuði, eða til 31. október 2024. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu. Agnes ætlar að sitja á biskupsstóli fram að þeim tíma en dregið er í efa að það sé löglegt.
Í minnisblaði sem Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður, ritaði um réttarstöðu og valdheimildir biskups Íslands segir að heppilegra hefði verið ef annar aðili en Biskupsstofa hefði gert samninginn við Agnesi. Hins vegar leiki enginn vafi á því að á grundvelli samningsins hafi biskup fullt umboð til að sinna þeim verkefnum sem honum eru falin. Einnig bendir Einar á að öðrum aðilum en Biskupsstofu hafi ekki verið til að dreifa til að semja við biskup.
Samningurinn er gerður á grundvelli breytinga á lögum um þjóðkirkju sem hafa í för með sér að biskup er ekki lengur opinber starfsmaður, heldur starfsmaður kirkjunnar. Regluverk um þetta þykir hins vegar vera óljóst.
Að mati Kristins Jens Sigurþórssonar, fyrrverandi sóknarprests í Saurbæjarprestakalli, leikur enginn vafi á því að boða skuli til biskupskjörs. Í grein sem hann birti í Morgumblaðinu í mars síðastliðnum segir hann og vísar til yfirlýsingar Agnesar sem hún gaf í nýársávarpi sínu, um að hún ætli að ljúka störfum eftir 18 mánuði:
„Í ljósi þess er hér hefur verið rakið verður yfirlýsing Agnesar í ársbyrjun, um að hún ætli að ljúka störfum eftir 18 mánuði eða um mitt ár 2024, afar einkennileg og er ekki að sjá að hún fái staðist skoðun. Gengur yfirlýsingin bæði í berhögg við það sem fram kemur í bréfi forseta kirkjuþings um sex ára skipunartíma hennar frá árinu 2017 til 2023 sem og starfsreglur kirkjuþings frá 2022 um biskupakjör en af þeim reglum verður ekki annað ráðið en að skipunartími biskupa framlengist ekki sjálfkrafa heldur sé kjörnefnd skylt að hverjum sex ára skipunartíma liðnum að efna til biskupskjörs.“
Kristinn segir í samtali við DV, er hann var inntur eftir viðbrögðum við fréttum dagsins: „Það að undirmaður biskups geri ráðningarsamning við biskup þýðir einfaldlega að biskup gerði samning við sjálfan sig. Spillingin getur ekki verið mikið augljósari.“
Pétur Markan biskupsritari segir hins vegar ekkert óeðlilegt við ráðningarsamninginn sem framkvæmdastjóri Biskupsstofu gerði við Agnesi. Í viðtali við Mannlíf segir hann:
„Þetta er eðlilegt verklag. Þarna er um að ræða almennan ráðningarsamning í þeim anda sem vinnulöggjöfin gerir ráð fyrir. Biskup hefur sagt að hún muni láta af embætti á næsta ári, þegar hún verður sjötug.“
Þessu virðist Drífa Hjartardóttir, forseti Kirkjuþings, ekki vera sammála. Hún segir í viðtali við RÚV að samningurinn hafi komið sér í opna skjöldu. Telur hún lagalega óvissu ríkja um stöðu biskups. Hún segir ennfremur að rétt hefði verið að efna til biskupskosninga. „Trúlega hefði átt að efna til kosninga, því það er svo mikill óskýrleiki í þessu, og það hefði náttúrulega verið betra ef dómsmálaráðuneytið hefði hjálpað okkur meira í þessu máli.“
DV hafði samband við Önnu Mjöll Karlsdóttur, formann kjörstjórnar Þjóðkirkjunnar, og spurði hvers vegna ekki hafi verið boðað til biskupskjörs. Anna vildi ekki svara þessu með öðrum hætti en þeim að vísa til bréfs kjörstjórnarinnar til forsætisnefndar frá því um miðjan marsmánuð. Sendi hún DV afrit af bréfinu með þeim orðum að það svaraði spurningunni að nokkru leyti. Í bréfinu er brugðist við fyrri samskiptum við forsætisnefnd og má af þessu ráða að forsætisnefnd hafi viljað hlutast til um að kjörstjórnin skipaði Agnesi tímabundið áfram í embætti, þó er ekki hægt að slá því föstu. Í bréfinu kemur fram að kjörstjórn hafi fjallað um málið á fundi þann 13. mars og síðan segir:
„Ekki verður talið að það sé í valdi kjörstjórnar að ákveða framlengingu á þjónustutíma biskups, eftir að framlenging sú sem ákveðin var í nefndu bréfi forseta til biskups rennur út 1. júlí n.k., en af bréfi forsætisnefndar dags. 28. febrúar sl. má ráða að nefndin fallist á með biskupi að umboð hans/þjónustutími framlengist um eitt ár, þ.e. til 1. júlí 2024.“
Segir síðan að kjörstjórn muni hefja undirbúning að kosningu biskups Íslands ekki síðar en í ársbyrjun 2024. Áður hefur komið fram að Agnes hyggst sitja í embætti til 1. nóvember 2024. Þeirri spurningu er ósvarað hvers vegna kjörstjórnin hefur ekki efnt til biskupskosninga nú þegar.