Erlend kona var í dag, þann 24. júlí, sakfelld í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfellt fíkniefnabrot.
Konan var ákærð fyrir að hafa flutt hingað til lands, þann 18. júní síðastliðinn, rétt tæplega hálft kíló af kókaíni með 79% styrkleika. Efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi. Konan flutti fíkniefnin innvortis til landsins með flugi frá París í Frakklandi. Bar hún 42 pakkningar af efninu innvortis.
Konan játaði brot sitt skýlaust og var það metið henni til refsilækkunar. Ennfremur þetta: „Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að ákærða hafi verið eigandi nefndra fíkniefna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.“
Var hún dæmd í sjö mánaða fangelsi en til frádráttar því kemur gæsluvarðhald frá 19. júní. Konan þarf auk þess að greiða verjanda sínum rétt rúmlega 1,2 milljónir króna í málsvarnarlaun.
Dóminn má lesa hér.