Hárgreiðslufólk, snyrtifræðingar og endurskoðendur er í aukinni áhættu á að fá krabbamein í eggjastokkum samkvæmt rannsókn sem birt er í BMJ Journal Occupational & Environmental Medicine.
Bendir rannsóknin, sem háskólinn í Montreal í Kanada ásamt fleiri stofnunum fór fyrir, til þess að það að vinna í tíu ár eða lengur í tilteknum störfum geti leitt til aukinnar hættu á að fá sjúkdóminn. Þeir sem starfa í sölu-, verslunar-, fata- og byggingariðnaði geta einnig verið í áhættuhópi. Vísindamenn telja að sú staðreynd að einstaklingar í þessum störfum séu útsettari en aðrir fyrir sérstökum efnafræðilegum efnum, eins og þeim sem finnast í talkúmi og klór, geti verið ástæðan.
„Konur sem vinna í hárgreiðslutengdum störfum eru útsettar fyrir hundruðum efna í háum styrk, þar á meðal háralitum, sjampó, hárnæringu, stíl- og snyrtivörum.“
Fjallað er um rannsóknina í dag í mörgum miðlum, þar á meðal The Economic Times og Daily Mail.
Rannsóknin náði til kanadískra kvenna á aldrinum 18 til 79 ára. Bornir voru saman tveir hópar, annars vegur hópur tæplega 500 kvenna sem höfðu greinst með krabbamein í eggjastokkum og hins vegar hópur tæplega 900 kvenna sem ekki höfðu fengið sjúkdóminn. Margvíslegum upplýsingum var safnað frá öllum þátttakendum, þar á meðal atvinnusögu þeirra.
Gögnin bentu einnig til þess að konurnar með sögu um krabbamein í eggjastokkum voru líklegri til að vera minna menntaðar, hafa notað minna af getnarðarvarnarpillum og átt færri börn en konurnar sem ekki höfðu greinst með sambærilegt krabbamein.
Starfsaldur eykur áhættuna
Niðurstöður leiddu í ljós að vinna í tíu eða fleiri ár sem hársnyrtir, rakari, snyrtifræðingur eða í skyldum störfum leiddi til þreföldunar í áhættu á að fá sjúkdóminn, sama á við um vinnu í byggingariðnaði, á meðan starf í áratug eða lengur í bókhaldi var tengt tvöfaldri áhættu.
Rannsóknarteymið sagði að hárgreiðslumenn, snyrtifræðingar og tengdir starfsmenn ynnu þau störf sem oftast væru útsett fyrir 13 efnafræðilegum efnum, þar á meðal ammoníaki, vetnisperoxíði, lífrænum litarefnum og litarefnum og klór. Rannsóknin leiddi þó ekki í ljós hvort það væri eitt af þessum efnum, samsetning þeirra eða aðrir þættir á vinnustað sem fólu í sér þessa aukna áhættu.
Áhætta eykst einnig við mörg störf þar sem starfsmenn eru í kyrrsetu mest allan daginn. Á sama tíma virðast hjúkrunarfræðingar í lægsta áhættuhópnum.
Höfundar rannsóknarinnar tóku þó skýrt fram að varast beri að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðunum þar sem frekari rannsóknir þurfi til að kanna tengsl milli eggjastokkakrabbameins og tilteknum starfssviðum.
„Frekari rannsóknir á grundvelli mannfjölda þurfa að fara fram til að meta mögulega hættu kvenna sem starfa innan stétta sem skilgreindar eru sem kvennastéttir,“ segir í rannsókninni. Tekið er fram að hallað hafi á hlut kvenna í rannsóknum sem kanni tengsl milli krabbameins og starfa. Þetta sé viðvarandi vandi sem þurfi að bregðast við. Með því að undanskilja konur frá slíkum rannsóknum tapist færin á að greina áhættuþætti fyrir þeim krabbameinum sem fólk sem fæðist í kvenlíkama greinast með, og eins tapist færin á að meta hvort að kynbundin munur sé til staðar hvað áhættu varðar, sem og á að rannsaka fyrir hverju konur í kvennastéttum eru útsettar fyrir í störfum sínum.