Yfirskattanefnd hefur fellt úr gildi ákvörðun ríkisskattstjóra um að fella niður barnabætur og barnabótaauka konu upp á tæpar 1,3 milljónir. Ríkisskattstjóri felldi bæturnar til konunnar úr gildi í desember í fyrra og kærði konan þá ákvörðun til yfirskattanefndar.
Í úrskurði Yfirskattanefndar kemur fram að konan fékk barnabæturnar og barnabótaaukann eftir að hafa tekið að sér framfærslu þriggja barna bróður síns og eiginkonu hans árið 2021. Í kæru sinni til yfirskattanefndar segir konan bróður sinn hafa búið erlendis og starfað þar en veikst af krabbameini haustið 2021 og viljað flytja til Íslands með fjölskyldu sína. Konan bauð þá fjölskyldunni að gista hjá sér á meðan hún fyndi sér húsnæði. Bróðirinn, eiginkona hans og þrjú börn þeirra fluttu til landsins í nóvember árið 2021. Bróðirinn lagðist inn á sjúkrahús við komuna til landsins og lést mánuði seinna. Konan bauð þá börnunum þremur að búa hjá sér og bjuggu þau hjá henni um nokkurn tíma.
Sá alfarið um framfærslu barnanna og móður þeirra
Konan segist hafa séð alfarið um börnin og eiginkonu bróður síns á þessum tíma, en ekkert þeirra hafi talað íslensku. Mágkona hennar hafi ekki haft neinar tekjur og ekki átt neina peninga. Segist konan hafa framfleytt og sinnt börnunum eins og þau væru hennar eigin, hún hafi keyrt börnin í skóla, tómstundir og læknisheimsóknir, gefið þeim jólagjafir og keypt inn til heimilisins. Hún hafi einnig farið fjölmargar ferðir til Útlendingastofnunar og sýslumanns til að fá skjöl stimpluð, fylla út umsóknir og fleira. Konan segist hafa tekið sér mánaðar frí úr vinnu til að aðstoða mágkonu sína við atvinnuleit og samskipti við sýslumann.
Konan segist ekki hafa sótt um barnabætur, hún hefði einfaldlega fengið þær greiddar þar sem börnin hefðu haft lögheimili hjá henni og engir aðrir hafi verið til staðar til að aðstoða ekkjuna og börnin. Máli sínu til stuðnings lagði konan fram átta yfirlýsingar frá fólki sem var nákomið henni og fjölskyldu bróður hennar.
Framfærandi barns á rétt á barnabótum
Ríkisskattstjóri taldi að móðir barnanna hefði ein farið með forsjá þeirra og ekki væri hægt að fallast á að konan hefði verið raunverulegur framfærandi barnanna þótt lögheimili þeirra hefði verið skráð hjá henni. Það hefði eingöngu verið bráðabirgðaráðstöfun á meðan beðið hefði verið eftir afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn móður þeirra um dvalarleyfi.
Yfirskattanefnd féllst ekki á þetta og sagði ákvörðun ríkisskattstjóra byggða á forsendum sem fái ekki staðist. Segir í úrskurði yfirskattanefndar að ef raunverulegur framfærandi væri annar en foreldri barns væri það framfærandinn sem ætti rétt til greiðslu barnabóta. Engu máli skipti þótt foreldri væri skylt að lögum að framfæra barn sitt. Nefndin taldi einnig að málskostnaður konunnar, 380 þúsund krónur, yrðu greiddar úr ríkissjóði.