Atli Rafn Björnsson, sem stýrt hefur fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka frá árinu 2019, er hættur störfum hjá bankanum. Vísir greindi frá.
Atli Rafn er þriðji stjórnandi bankans sem hættir störfum eftir að Íslandsbanki birti á mánudaginn fyrir viku sátt við fjármálaeftirlit Seðlabankans um að greiða tæplega 1,2 milljarða sektargreiðslu vegna brota á lögum og innri reglum sínum við sölu á hlutum í sjálfum sér í útboði bankans í fyrra.
Á miðvikudag var tilkynnt um starfslok Birnu Einarsdóttur bankastjóra og var Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka frá árinu 2011, ráðinn í hennar stað. Á föstudag var tilkynnt að Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta síðustu ár, væri hættur og Kristín Hrönn Guðmundsdóttir tekur við hans starfi.
Ellert Hlöðversson, sem hefur verið yfir verðbréfamiðlun Íslandsbanka frá því síðasta haust, mun tímabundið taka við starfi Atla Rafns.
Hluthafafundur Íslandsbanka verður 28. júlí og á dagskránni er stjórnarkjör.