Tælensk kona á sextugsaldri varð fyrir þeirri hræðilegu reynslu að missa annan fótinn eftir að hafa fest sig í göngubraut á flugvellinum í Bangkok. News.com greinir frá en í frétt miðilsins kemur fram að konan hafi verið á leið í flug á Don Mueang-flugvellinum í gær þegar hún varð fyrir því óláni að detta um ferðatösku sína á göngubrautinni með þeim afleiðingum að fótur hennar festist.
Aðrir farþegar reyndu í ofboði að finna neyðarrofa til að slökkva á göngubrautinni en það tókst ekki fyrr en fótleggurinn hafði orðið miklum áverkum.
Viðbragðsaðilar mættu síðan á vettvang og komust þá að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að skera fót farþegans af við hné og var það gert. Í frétt News.com kemur fram að nú sé verið að meta hvort hægt sé að græða fótinn aftur á konuna en skiptar skoðanir séu um það meðal lækna.
Í yfirlýsingu frá flugvellinum kemur fram að stjórnendur hans séu miður sín vegna atviksins og allt verði gert til þess að tryggja að ekkert þessu líkt geti átt sér stað aftur.
Göngubrautin er frá árinu 1996 og er framleiðandi hennar japanski tæknirisinn Hitachi.