fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Árni Heimir vísar því á bug að hafa áreitt Bjarna Frímann – „Óvenjulega rætin blanda af rangfærslum og ósannindum“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 27. júní 2023 14:46

Árni Heimir Ingólfsson hefur sent frá sér yfirlýsingu varðandi ásakanir um kynferðislegt áreiti á hendur Bjarna Frímanni Bjarnasyni sem litu dagsins ljós á síðasta ári

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Heimir Ingólfsson, tónskáld, hefur sent frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem hann vísar á bug ásökunum um að hann hafi brotið kynferðislega á þáverandi nemanda sínum, Bjarna Frímanni Bjarnasyni. Segir hann ásakanir Bjarna Frímanns í hans garð, sem birtust á Facebook-síðu hans og fjallað var um í september í fyrra, hafi verið „óvenjulega rætin blanda af rangfærslum og ósannindum.“

Sjá einnig: „Árni Heimir Ingólfsson braut á mér kynferðislega á heimili sínu þegar ég var nemandi hans í Listaháskóla Íslands. Ég var 17 ára, hann var 35 ára.“

Baðst afsökunar en vísar nú ásökunum á bug

Árni Heimir var rekinn úr starfi sem listrænn ráðgjafi hjá Sinfóníuhljómsveitar Íslands meðal annars vegna ásakana um áreitni. Í kjölfar umfjöllunar um mál Bjarna Frímanns baðst hann afsökunar á gjörðum sínum í Facebook-færslu. Sagðist hann hafa farið yfir mörk annarra án þess að gera sér grein fyrir því og bað hann þá sem hann hefði hagað sér ósæmilega gegn innilega afsökunar. Segja má að yfirlýsing Árna Heimis komi nú sem þruma úr heiðskíru lofti því nú vísar hann ásökunum að mestu leyti á bug þó hann viðurkenni að „hafa misskilið viðmót“ Bjarna og kysst hann stuttum kossi en beðist svo afsökunar á því. Hann fullyrðir þó að hann hafi hitt Bjarna á fundi og þeir náð sáttum. Færslunni með áðurnefndri afsökunarbeiðni h,efur verið eytt.

Sjá einnig: Árni Heimir biðst afsökunar – Sakaður um kynferðisbrot

Tilefnið skipun á umdeildum stjórnanda

Tilefni yfirlýsingar Árna Heimis er að í gær var greint frá því að Arna Kristín Einarsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hafi verið skipuð í embætti skrifstofustjóra menningar og fjölmiðla í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Í umfjöllun Vísis kom fram að Arna Kristín væri ekki óumdeildur stjórnandi og vísað í meðhöndlun hennar á fyrrgreint máli sem kom upp í hennar tíð en Bjarni Frímann sakaði hana um að hafa sópað ásökunum hans undir teppið og ekki tekið á því með nokkrum hætti. Í yfirlýsingu Árna Heimis kemur fram að hann sé sömuleiðis ósáttur við meðhöndlun Örnu Kristínar á málinu.

„Mér þykir sannarlega leitt að framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi ekki tekið á þessu máli af festu strax í byrjun, sem hefði forðað því að ásakanir sem byggðu á fölskum forsendum hefðu þróast í rætnar og fordæmalausar árásir með þeim hætti sem raunin varð,“ segir í yfirlýsingu Árna Heimis.

Ekki núverandi nemandi heldur fyrrverandi

Það sem meðal annars kemur fram í yfirlýsingu Árna Heimis er að hann fullyrðir að Bjarni Frímann hafi ekki verið þáverandi nemandi hans heldur fyrrverandi og að hann hafi verið „fullorðinn einstaklingur“ þegar hið meinta áreiti átti sér stað árið 2008.

Segir Atli Heimir að í kjölfar ráðningar hans til Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi Bjarni Frímann ólmur viljað hitta hann og sent sér vinaleg skilaboð á samfélagsmiðlum.

„Ekkert í þessum skilaboðum eða framkomu Bjarna gaf til kynna að samband okkar væri enn mótað af tengslum nemanda og kennara, enda alls ekki um slíkt að ræða þegar hér var komið sögu. Umrædd skilaboð eru enn til og því er auðvelt að staðfesta bæði dagsetningu þeirra og innihald. Sömuleiðis er auðvelt að fá það staðfest hjá Listaháskóla Íslands að Bjarni hafi ekki verið nemandi minn í janúar 2008 eða nokkurn tíma eftir,“ skrifar Árni Heimir.

Að því kom að Árni Heimir og Bjarni Frímann hittust en fullyrðir tónskáldið að það hafi verið löngu eftir að fyrrum nemandi hans færði hann í tal.

Segist hafa misskilið viðmót Bjarna

„Þegar að því kom var hann einkar vingjarnlegur, við deildum ánægjulegri kvöldstund, lékum saman tónlist og ég misskildi viðmót hans, sem sjálfur hafði óskað eftir því að við hittumst, með þeim hætti að ég kyssti hann stuttlega – í örfáar sekúndur. Um leið og ljóst varð að hann hefði slíkt ekki í hyggju þá baðst ég afsökunar og ekkert í viðmóti hans benti til annars en að sú afsökunarbeiðni væri tekin gild. Af þessu tilefni finn ég mig líka knúinn til að taka fram að enginn nemandi minn eða samstarfsmaður hefur nokkru sinni kvartað undan framkomu minni á nokkurn hátt, við nokkra þá stofnun sem ég hef nokkru sinni starfað við, hvorki hér á landi né erlendis – enda hefur aldrei verið minnsta tilefni til,“ skrifar Árni Heimir og vísar því einnig á bug að hann hafi látið Bjarna Frímann gjalda fyrir samskipti þeirra.

„Við höfum flest lært margt af metoo-bylgjunni og ég er þar engin undantekning. En við hljótum líka að geta sammælst um að jafnvel ný viðmið í samskiptum kynjanna gefi ekki leyfi til að ráðast að orðspori fólks eða gera atlögu að friðhelgi einkalífs með dylgjum, rangfærslum og beinum ósannindum,“ skrifar Árni Heimir að lokum.

 Hér má lesa yfirlýsingu Árna Heimis í heild sinni

Í tilefni af fréttaflutningi á visir.is vegna ráðningar Örnu Kristínar Einarsdóttur til menntamálaráðuneytisins sé ég mig knúinn til að taka eftirfarandi fram:

Ásakanir Bjarna Frímanns Bjarnasonar í minn garð í fyrrahaust voru óvenjulega rætin blanda af rangfærslum og ósannindum. Við Bjarni funduðum um málið í síðasta mánuði og náðum sátt, eins og lögfræðingur minn, Sævar Þór Jónsson, getur staðfest.

Ég vil nefna hér nokkrar staðreyndir málsins og leiðrétta rangfærslur sem oft hefur verið hamrað á.

Atvikið sem Bjarni sakar mig um í sinn garð átti sér stað árið 2008. Þá var Bjarni ekki 17 ára nemandi minn, eins og hann fullyrðir sjálfur, heldur fullorðinn einstaklingur og fyrrverandi nemandi minn við háskóla. Vorið 2007 sagði ég lausu starfi mínu við Listaháskóla Íslands, en kenndi fáeina áfanga næsta vetur jafnhliða nýju starfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) til að gefa skólanum svigrúm til að fylla í mína stöðu. Um það leyti sem ég hvarf til annarra starfa tók Bjarni að senda mér ýmis skilaboð á Facebook, öll í afar vinalegum tóni, til dæmis með ávarpinu „Eðla vin“, og tjáði mér að hann vildi „ólmur“ hitta mig. Ekkert í þessum skilaboðum eða framkomu Bjarna gaf til kynna að samband okkar væri enn mótað af tengslum nemanda og kennara, enda alls ekki um slíkt að ræða þegar hér var komið sögu. Umrædd skilaboð eru enn til og því er auðvelt að staðfesta bæði dagsetningu þeirra og innihald. Sömuleiðis er auðvelt að fá það staðfest hjá Listaháskóla Íslands að Bjarni hafi ekki verið nemandi minn í janúar 2008 eða nokkurn tíma eftir það. Um orsakir þess að Bjarni lagði slíka áherslu á að verða „vinur“ minn einmitt eftir að ég tók við starfi hjá SÍ vil ég ekkert fullyrða. Mér lærðist þó fljótt í því starfi, sem ég gegndi á árunum 2007–2011, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir.

Af umræddum hittingi varð ekki fyrr en löngu eftir að Bjarni færði hann fyrst í tal. Þegar að því kom var hann einkar vingjarnlegur, við deildum ánægjulegri kvöldstund, lékum saman tónlist og ég misskildi viðmót hans, sem sjálfur hafði óskað eftir því að við hittumst, með þeim hætti að ég kyssti hann stuttlega – í örfáar sekúndur. Um leið og ljóst varð að hann hefði slíkt ekki í hyggju þá baðst ég afsökunar og ekkert í viðmóti hans benti til annars en að sú afsökunarbeiðni væri tekin gild. Af þessu tilefni finn ég mig líka knúinn til að taka fram að enginn nemandi minn eða samstarfsmaður hefur nokkru sinni kvartað undan framkomu minni á nokkurn hátt, við nokkra þá stofnun sem ég hef nokkru sinni starfað við, hvorki hér á landi né erlendis – enda hefur aldrei verið minnsta tilefni til.

Ásakanir um að ég hafi staðið í vegi fyrir starfi Bjarna og framgangi hans við SÍ eiga heldur ekki við minnstu rök að styðjast. Til að gera starf mitt mun valdameira en það í raun og veru var notaði Bjarni starfsheitið „tónlistarstjóri“ en hið sanna er að ég gegndi þar starfi ráðgjafa, með endurnýjanlegan tímabundinn samning til eins árs, frá árinu 2015 og tók þar við af Bengt Årstad, sænskum manni sem hafði gegnt sömu stöðu í hlutastarfi um nokkurra ára skeið. Starf mitt fólst í samskiptum við erlenda umboðsmenn auk þess sem ég hélt utan um viðburðadagatal hljómsveitarinnar í samráði við listrænan stjórnanda, framkvæmdastjóra, fræðslustjóra og aðra fastráðna starfsmenn í framvæmdateymi hljómsveitarinnar. Viðvera mín í Hörpu var að meðaltali einn dagur í viku, oft minna, auk þess sem ég var í rannsóknaleyfi allt haustið 2019. Það er fráleitt að ég hafi sem ráðgjafi í hlutastarfi á árssamningi haft sambærileg völd um listræna ákvarðanatöku og listrænn stjórnandi eða framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, þ.e. Eva Ollikainen, Arna Kristín Einarsdóttir og síðar Lára Sóley Jóhannsdóttir. Því miður vill það enn loða við skilning fólks á valdahlutföllum kynjanna að þegar konur fara með æðstu stjórn séu það lægra settir karlmenn sem taki allar mikilvægustu ákvarðanir. Í þessu tilviki er það fjarri sannleikanum.

Hér má einnig geta þess að frá árinu 2013 hafa framkvæmdastjórar SÍ haft atvinnumenntun í tónlist og menningarstjórnun, nokkuð sem ekki hafði verið raunin áður um langt skeið. Því höfðu þær augljóslega meira að segja um listræn efni og ákvarðanatöku en fyrr. Auk þess má nefna að ég átti aldrei sæti í Listráði SÍ, sem er æðsti vettvangur hljóðfæraleikara og stjórnenda um listræn málefni.

Enn fráleitara er að ég hafi á nokkurn hátt misbeitt því hlutverki sem mér var falið eða verið á nokkurn hátt óviðeigandi í samskiptum eða beitt mér gegn Bjarna á nokkurn hátt. Um það geta allir þeir vitnað sem nokkru sinni urðu vitni að samskiptum okkar á fundum eða undir öðrum kringumstæðum, eða áttu samtöl þar sem störf hans bar á góma. Hér ber að geta þess að enginn stjórnaði fleiri tónleikum SÍ á tímabilinu 2018-2020 nema Bjarni Frímann ef frá eru taldir Yan Pascal Tortelier (þáverandi aðalstjórnandi) og Daníel Bjarnason (gestalistamaður). Þeir voru líka af öllum toga eins og búast mátti við: stórir áskriftartónleikar, barnatónleikar, nýárstónleikar, kvikmyndatónleikar og þar fram eftir götunum. Þar má meðal annars telja sinfóníur og önnur stórvirki eftir Brahms, Haydn, Mozart og Stravinskíj. Á sama tíma var Bjarna gert hátt undir höfði í kynningarefni hljómsveitarinnar, meðal annars á risastóru spjaldi sem hékk á ytri vegg Eldborgar haustið 2018 og þótti aðalstjórnanda hljómsveitarinnar nóg um að aðstoðarstjórnandi skyldi hljóta slíka vegsemd.

Á hitt má svo benda að áhersla framkvæmdastjóra SÍ á það að gefa kvenkyns hljómsveitarstjórum aukið rými í dagskrá hljómsveitarinnarminnkaði eðlilega hlut karlkyns stjórnenda allt frá árinu 2015. Þá setti heimsfaraldur kórónuveiru öll áform hljómsveitarinnar í uppnám um langt skeið og þar með þurfti að aflýsa ýmsum tónleikum sem Bjarna hafði verið boðið að stjórna. Því má fullyrða að jafnvel þótt Bjarna hafi boðist mörg og verðskulduð tækifæri með SÍ hefðu þau líklega orðið enn fleiri hefði ekki verið fyrir ofangreind atriði.

Um ásakanir Bjarna í minn garð innan SÍ vissi ég ekkert fyrr en haustið 2021. Þó er mér ljóst að þá hafði hann um langa hríð haft þær uppi án þess að vilja gefa mér færi á að svara fyrir mig eða að málið yrði á nokkurn hátt rætt við mig. Þar með gafst mér aldrei tækifæri til að svara ásökunum hans og leiðrétta rangfærslur í frásögn hans, sem hlaut þó að vera sjálfsagður réttur minn.

Þegar ég lít til baka get ég með sanni sagt að ég hafi alltaf stutt Bjarna Frímann Bjarnason af heilum hug til starfa hans með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann er miklum gáfum gæddur en ávann sér óvild nokkurra hljóðfæraleikara innan hljómsveitarinnar auk þess sem ásakanir á hendur honum sjálfum gerðu honum erfitt fyrir undir lok ráðningartímabils hans. Fullyrðingum um að ég hafi á nokkurn hátt unnið gegn framgangi hans hjá SÍ vísa ég alfarið á bug. Aðrar aðdróttanir hans, til dæmis um framkomu mína og misnotkun á „valdi“ gagnvart ungu tónlistarfólki, eiga sér heldur enga stoð í raunveruleikanum. Þær eru þvert á móti einstaklega rætnar og illkvitnislegar og ég treysti því að allir þeir sem ég hef starfað með geti borið um það vitni. Ég hef ávallt leitast við að sinna þeim verkefnum sem mér hafa verið falin af fagmennsku og vandvirkni og um leið reynt að koma fram við samferðafólk mitt, hvar sem það er statt í lífinu, af velvild og kurteisi.

Við höfum flest lært margt af metoo-bylgjunni og ég er þar engin undantekning. En við hljótum líka að geta sammælst um að jafnvel ný viðmið í samskiptum kynjanna gefi ekki leyfi til að ráðast að orðspori fólks eða gera atlögu að friðhelgi einkalífs með dylgjum, rangfærslum og beinum ósannindum. Mér þykir sannarlega leitt að framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi ekki tekið á þessu máli af festu strax í byrjun, sem hefði forðað því að ásakanir sem byggðu á fölskum forsendum hefðu þróast í rætnar og fordæmalausar árásir með þeim hætti sem raunin varð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“