Óheppinn fíkniefnasali í miðbænum þurfti að dúsa í fangageymslu lögreglunnar í nótt eftir að hafa reynt að selja öðrum aðila fíkniefni fyrir framan laganna verði. Lögreglumennirnir fylgdust með athæfi mannsins og handtóku hann svo þegar í stað. Reyndist hann hafa á sér söluskammta af fíkniefnum og var hann þegar handtekinn. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Að öðru leyti voru verkefni lögreglunnar hefðbundin og snerust aðallega um að stöðva ökumenn án ökuréttinda, fyrir of hraðan akstur sem og, því miður, grun um akstur undir áhrifum.
Þá var aðili sem var undir áhrifum áfengis og fíkniefna handtekinn vegna gruns um eignaspjöll í miðbænum og var hann vistaður í fangageymslu.
Þá var annar aðili handtekinn fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Tilkynnt hafði verið um manninn sem að var ölvaður og hélt vöku fyrir nágrönnum með hávaða á sameign. Lögregla hafði ítrekað rætt við viðkomandi og sagt honum að láta af hegðun sinni, sem að hann gerði ekki. Hann var .þá handtekinn og vistaður í fangageymslu.