Kompásþáttur Stöðvar 2 um fangann Sigurð Almar hefur vakið mikla athygli. Hann afplánar nú fimm ára dóm á Litla-Hrauni fyrir kynferðis- og ofbeldisbrot. Í þættinum kemur fram að Sigurður Almar, sem er með þroskaröskun, eigi mjög erfitt með samneyti við aðra fanga. Það auk agabrota veldur því að hann er sífellt í eingangrun í fangelsinu, ýmist einn í klefa, eða með aðgang að mannlausum gangi og örlitlu mannlausu útisvæði.
Í þættinum er rætt við móður Sigurðar Almars sem lýsir þrautagöngu hans í gegnum kerfið en eftir 18 ára aldur missti hann nauðsynlega félagslega aðstoð. Hún segir hann ekki heldur fá sálfræðiaðstoð í fangelsinu. „Aðstæðurnar núna hjá honum eru þannig að hann er alveg aleinn. Ef hann tekur æðiskast, öskrar og hótar, eins og hann hefur alveg gert, þá er hann alveg lokaður inni í marga daga. Hann fær ekkert, það er ekkert unnið í honum, hann fær enga andlega hjálp. Hann fær ekkert að gera,“ segir móður Sigurðar Almars í viðtali við Kompás.
Þátturinn hefur vakið umræðu um aðbúnað fanga með þroskaraskanir og það umdeilda úrræði senm einangrun í fangelsum er. En þátturinn hefur líka vakið gagnrýni. Sigurður Almar hefur gerst sekur um mörg alvarleg afbrot, þar á meðal ofbeldisbrot og kynferðisbrot. Svava Líf Jónsdóttir er einn þolenda hans og henni misbýður einhliða umfjöllun um Sigðurð Almar þar sem honum er stillt upp sem fórnarlambi.
Svava segir i viðtali við DV að hún finni vissulega til með Sigurði Almari og aðstæður hans í fangelsi séu óboðlegar, en vandinn sé líka sá að hann taki aldrei ábyrgð á hegðun sinni. Það hafi vantað inn í umfjöllun Kompáss sem hafi verið mjög einhliða.
„Þessi maður drap mig næstum því. Hann reyndi að henda mér fram að svölum á 3. hæð, hann frelsissvipti mig, barði mig, beit mig alla og nauðgaði mér síðan. Þessi maður á heima inni á stofnun það sem eftir er ævinnar,“ segir Svava sem fékk áfall við að horfa á þáttinn og upplifa þá útbreiddu og gagnrýnislausu samúð sem Sigurður Almar fékk í kommentakerfum internetsins eftir sýningu þáttarins í fyrradag.
Svava Líf og Sigurður Almar voru vinir og deildu sögu sinni hvort með öðru því þau áttu mjög líkan bakgrunn. „Við eigum svipaða sögu. Ég lenti í pabba mínum þegar ég var ung stelpa, hann braut á mér kynferðislega, og það er eitthvað svipað dæmi með Sigga. Alltaf fundum við til hvort með öðru og vorum mjög góðir vinir. Síðan byrjaði hann að reyna að stjórna mér, ég flutti inn til hans og bjó í stofunni hjá honum. Ég hef alltaf fundið til með honum og fundist réttarkerfið hafa brugðist honum,“ segir Svava Líf en bætir við að Sigurður Almar hafi aldrei gert neitt til hjálpa sjálfum sér í hans erfiðu aðstæðum. Hann komi aftur og aftur illa fram við konur. „Ég hafði ekki gert honum neitt, ég var mjög góð vinkona hans. Samt lúber hann mig og bítur mig. Henti mér næstum fram af svölunum og nauðgaði mér Og ég var vinkona hans og stóð alltaf með honum! Ef hann gat gert þetta við mig þá getur hann gert þetta við hvern sem er. Hann þekkti mína sögu og þekkti meira að segja pabba minn, þeir sátu saman á Hrauninu.“
Svava Líf segir að maður verði að taka ábyrgð á gjörðum sínum og það hafi Sigurður Almar aldrei gert. Ekki sé alltaf hægt að skýla sér á bak við gjörðir annarra eða áföll í æsku. „Maður þarf að þroskast og læra. Hvað ætlar maður að gera með það sem maður varð fyrir. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði að aldrei að verða eins og pabbi minn. Ég ætlaði aldrei að verða myrkrið í lífi einhvers annars. Á endanum verður maður að taka ábyrgð. Ef þú brýtur af þér trekk í trekk í trekk þá ert þú bara að sýna hver þú ert.“
Sjálf segir Svava Líf hafa beðist afsökunar á sínum mistökum og misgjörðum. „Ég hef beðið fólk afsökunar sem fékk að kenna á reiðinni minni. En það var ekkert í líkingu við það sem hann hefur gert, trekk í trekk í trekk.“
Segist hún hafa fundið mikið til með Sigurði Almari þar til hann braut illilega á henni.
Sem fyrr segir var Svövu Líf mjög brugðið yfir Kompásþættinum sem vakti þjóðarathygli eftir að hann var birtur á Vísir.is. „Það er mjög erfitt okkur þolendur hans að sjá netheima vorkenna honum endalaust. Hann kom sér sjálfur í þessar aðstæður og hann viðheldur þeim. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á mig síðustu daga, ég þurfti að taka mér frí í vinnu til að hlúa að sjálfri mér,“ segir Svava Líf sem hefur verið í mikilli áfallavinnu undanfarin ár til að glíma við ofbeldið sem faðir hennar beitti hana. „Samt er ég bara búin með toppinn á ísjakanum. Ég á t.d. eftir að vinna úr ofbeldi Sigga gegn mér en þetta reif upp öll þau sár.“
Svava Líf ítrekar skilaboð sín um stöðu Sigurðar Almars: „Það er ekki endalaust hægt að skýla sér á bak við það sem maður lenti í. Maður verður einhvern tíma að taka ábyrgð, það hefur hann ekki gert og hann virðist ekki ætla að fara að gera það.“
Sigurður Almar er 39 ára gamall og á mjög langan afbrotaferil að baki. Dóma yfir honum má finna allt aftur til ársins 2005 en hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir líkamsárásir og kynferðisbrot. Hefur hann verup dæmdur fyrir gróft ofbeldi gegn konum en einnig fyrir ofbeldi gegn lögreglumönnum. DV greindi frá því árið 2017 að Sigurður Almar var dæmdur fyrir að ráðast með grófu ofbeldi á starfsmann íbúðakjarna í Rangárseli en þar hafði Reykjavíkurborg byggt upp öryggisvistun. „Þetta eru fullkomin svik við íbúa. Það var búið að lofa okkur því að hættulegir einstaklingar yrðu ekki vistaðir þarna. Núna þurfa íbúar hverfisins að horfa upp á heimsóknir lögreglu og sérsveitar. Það voru ung börn sem urðu vitni að því þegar vistmaður var dreginn handjárnaður upp í sérsveitarbíl. Þessi starfsemi á ekki heima í rólegu íbúðarhverfi,“ sagði þá ósáttur nágranni.
Í annarri frétt DV var ofbeldi Sigurðar Almars gegn starfsmönnum Rangársels lýst svo:
„Fyrri árásin átti sér stað um miðjan dag, þriðjudaginn 14. júní, þegar Sigurður Almar var nýfluttur inn í öryggisvistunina. Starfsmennirnir, sem voru þrír saman, tilkynntu þá skjólstæðingi sínum að hann þyrfti að greiða húsaleigu og matarkostnað. Því tók Sigurður Almar illa og réðst hann að starfsmönnunum með grófu ofbeldi. Meðal annars skallaði hann einn þeirra og lét högg og spörk dynja á öllum þremur. Tveir starfsmenn náðu við illan leik að læsa Sigurð Almar inni. Það fór þó ekki betur en svo að þriðji starfsmaður varð eftir í rýminu með Sigurði Almari sem réðst að viðkomandi með höggum og hrákum. Loks tókst að bjarga þessum starfsmanni frá vistmanninum en allir þrír starfsmennirnir þurftu að leita sér læknisaðstoðar eftir árásina.
Tveimur dögum síðar varð önnur uppákoma þar sem Sigurður Almar sturlaðist í íbúð sinni vegna ósættis varðandi lyfjagjöf. Réðst hann með afli á stálhurð sem skildi vistarverur hans og aðstöðu starfsmanna að. Í dómnum kemur fram að hurðin hafi verið við það að gefa sig og dyrakarmurinn hafi verið nálægt því að losna. Starfsmennirnir hafi lagst á hurðina til þess að varna því að Sigurður Almar brytist í gegn. Meðan á þessu stóð á ofbeldismaðurinn að hafa kallað ókvæðisorð að starfsmönnum, meðal annars að hann hafi ætlað að „stúta“ þeim. Í báðum tilvikum var lögreglan kölluð á vettvang og horfðu íbúar í hverfinu á Sigurð Almar dreginn út í járnum.“