fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Brynjar vill að landsmenn hætti að djöflast í Ásgeiri – „Ástæða til nokkurs hroka af minni hálfu“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 28. febrúar 2023 19:00

Brynjar Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er maður sem er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum. Í dag taldi hann ástæðu til að vera með nokkurn hroka í orðum sínum eins og hann segir sjálfur í færslu á Facebook.

Brynjar tekur þar verðbólguna fyrir, sem hann segir aukast þegar laun hækka meira en til er fyrir. Segir Brynjar launahækkanir síðustu ára ekki þekkjast annars staðar í heiminum:

„Verðbólga eykst fyrr eða síðar þegar laun hækka meira en innistæða er fyrir. Laun hafa hækkað yfir tuttugu prósent frá því að kovíd lét á sér kræla og um sjötíu prósent á síðustu níu árum. Þessar launahækkanir eru óþekktar annars staðar í veröldinni,“ segir Brynjar.

„Að auki fylgdu kröfur um aukin útgjöld ríkissjóðs fyrir utan umtalsverðar launahækkanir til opinberra starfsmanna, einkum á sveitarstjórnarstiginu. Hvort tveggja hefur áhrif á verðbólgu sem öllum ætti að vera ljóst. Viðskiptahalli vegna eyðslu okkur hefur áhrif á verðbólguna og svo bætist við innflutt verðbólga sem var óhjákvæmileg vegna kovíd. Má því ætla að verðbólga ætti að vera enn meiri en raun er.“

Segir Brynjar þingmenn stjórnarandstöðunnar búa yfir algjörri vanþekkingu á efnahagsmálum og hækkun verðbólgunnar sé alltaf öðrum að kenna og þá helst vísað fingri á Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra og Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Verðbólgan er nú komin í tveggja stafa tölu. Eins og alltaf er það öðrum að kenna en okkur sjálfum, helst seðlabankastjóra og fjármálaráðherra. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar með seðlabankastjóra birtist okkur fullkomin vanþekking þingmanna stjórnarandstöðunnar á efnahagsmálum. Því er ástæða til nokkurs hroka af minni hálfu.“

Brynjar segir verðbólguna skaðlega, rifjar upp að hún um hundrað prósent þegar hann stofnaði til fjölskyldu. Í dag komi verðbólgan mest niður á þeim lægst launuðu og ungu fólki sem keypt hefur sína fyrstu eign.

„Verðbólga er mjög skaðleg. Þegar ég var að stofna fjölskyldu var verðbólga um og yfir hundrað prósent og þannig var ástandið í tuttugu ár. Verðbólgan nú  kemur mest niður á lægst launuðum og ungu fólki sem hefur keypt sína fyrstu eign. Þá lamar það frekari uppbyggingu atvinnulífsins,“ segir Brynjar.

„Við náum engum tökum á verðbólgunni með óraunhæfum kröfum um launahækkun og auknum kröfum á frekari útgjöld ríkisins.“

Brynjar hvetur fólk að lokum til að líta í eigin barm, læra af reynslunni og  „hættum að djöflast í seðlabankastjóra sem eingöngu sinnir skyldum sínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt