Sagði Vilborg að notkun megrunarlyfja á borð við Ozempic og Sazenda væri heldur ekki studd slíkum rökum.
„Offitu fylgir gífurlega aukin hætta á hjartabilun, lifrarskemmdum, sykursýki fullorðinna, kæfisvefni, slitgigt hjá ungu fólki og alls konar krabbameinum. Það sem meira er, að það er bókstaflega línulegt samband milli offitunnar og þeirra mælikvarða sem eru notaðir á offitu og hættunnar af þessum sjúkdómum. Þannig að það fylgir þessu gífurleg áhætta,“ sagði Kári í samtali við Fréttablaðið.
Hann benti á að fyrrnefnd lyf létti fólk á marktækan hátt og það sé línulegt samband á milli þyngdartapsins og minnkunar á hættunni á öllum þessum sjúkdómum. „Lyfin sem hún er að henda skít í eru íhaldssamari leiðin til þess að takast á við þetta,“ sagði hann.
Hann benti einnig á að búið sé að sýna fram á að hjáveituaðgerðir auki lífslíkur: „Það er bókstaflega búið að sýna fram á að það fólk sem hefur komist burt úr þessari offitu með róttækum aðgerðum, að það lengir líf umtalsvert. Þannig að þessar staðhæfingar hjá stjórnarmeðlimnum, hún segist hafa fylgst vel með en ég veit ekki hvað hún hefur lesið, því hún er alveg gjörsamlega úti í mýri þegar að þessu kemur.“
Hann tók sem dæmi að of feitur einstaklingur á aldrinum 35 til 40 ára sé í svipaðri hættu og hann sjálfur á að fá ýmsa sjúkdóma: „Eins og ég, gamli maðurinn, því það er með ellina eins og offituna að henni fylgir aukin áhætta á alls konar sjúkdómum, meðal annars hjartabilun, kransæðastíflu, alls konar krabbameinum, sykursýki og svo framvegis. Það er enginn að segja að ég eigi minni virðingu skilið vegna þess að ég er í meiri hættu á hinum og þessum sjúkdómum, mér finnst fólk vera farið að ruglast dálítið í hovedet.“
Hann sagðist telja vitlaust að telja að einhver vanvirðing felist í því að viðurkenna að það sé ekki gott fyrir heilsuna að vera feitur: „Það eru engin ný vísindi, þetta hafa menn alltaf vitað.“