fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Segist hafa fengið símtal frá heimilislækni sem bauð henni umdeilt „töfralyf“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 7. febrúar 2023 15:29

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir. Mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi formaður samtaka um líkamsvirðingu, segir frá því þegar þáverandi heimilislæknirinn hennar hafi boðað hana á fund til að bjóðast til að ávísa á hana „töfralyfið“ Ozempic, sem er sykursýkislyf en hefur einnig fengið umdeilt orðspor sem megrunarlyf. Hún segir að þegar hún hafi afþakkað boðið hafi læknirinn gefið í skyn að hann bæri ábyrgð á endurhæfingarlífeyri hennar – sem hún þurfti sárlega á að halda – og að hún ætti alvarlega að íhuga ákvörðun sína.

Aukin umræða hefur verið um Ozempic undanfarið, þá sérstaklega varðandi notkun stjarnanna á lyfinu og hafa sumar gengist við því að hafa notað það í þeim tilgangi til að grennast. Eins og sjónvarpskonan Chelsea Handler.

Grínistinn Rosie O‘Donnell hélt því fram á dögunum að fjöldi stjarna nota lyfið og sakaði meðal annars raunveruleikastjörnurnar Kim Kardashian og Kyle Richards um að hafa notað lyfið til að léttast.

Sjá einnig: Segir stjörnurnar sprauta sig með sykursýkislyfjum til að minnka matarlyst – „Það eru allir á þessu”

Bauð henni lyfið undir borðið

Tara Margrét greinir frá þessu í pistli á Vísi og segir að umrætt atvik hafi átti sér stað haustið 2021. Á þessum tíma hafði hún verið í stopulum samskiptum við lækninn hennar vegna umsóknar hennar um endurhæfingarlífeyri.

„En ég var þá og er enn í endurhæfingu vegna kulnunar og áfallastreituröskunar,“ segir hún en bætir við að hún hafi ekki átt von á símtali og því hafi þetta óvænta erindi skotið henni skelk í bringu, enda hringir venjulega fólk í lækni þegar eitthvað amar að en ekki öfugt. Hún samþykkti hún fundarboðið og mætti með kvíðahnút í maganum.

„Í ljós kom að hann hafði boðað mig til að segja mér frá nýju undralyfi sem hann hafði haft veður af; Ozempic. Hann taldi það geta gagnast mér í endurhæfingunni og við að styrkjast líkamlega. Hann tók fram að um væri að ræða kostnaðarsamt lyf, í kringum 50.000 kr á mánuði, og að í sumum tilfellum væri meðferðin til lífstíðar. Ástæðan fyrir þessum kostnaði væri sú að lyfið væri ætluð sykursýkissjúklingum en þar sem að ég tilheyrði ekki þeim hóp væri lyfið í raun ekki enn orðið leyfilegt fyrir mig. Hann bætti þó orðrétt við að læknar væru farnir að ávísa því „on the side“ og að hann gæti gert það fyrir mig,“ segir Tara Margrét.

Þekkti til lyfsins og aukaverkananna

Það sem læknir Töru Margrétar vissi ekki var að hún hafði verið að fylgjast náið með umræðunni og vissi hverjar aukaverkanirnar væru.

„Það sem hann vissi ekki var að ég hafði verið að fylgjast náið með umræðunni um þetta nýja „töfralyf“ sem lyfjarisinn Novo Nordisk framleiðir. Ég hafði kynnt mér þær rannsóknir sem lágu til grundvallar leyfisveitingar þess og vissi til dæmis að engin þeirra næði til lengri tíma en 2ja ára og því væri ekkert hægt að segja til um öryggi þeirra hvað varðaði lífstíðarmeðferð. Ég vissi líka að aukaverkanir væru tíðar. Í kringum 90% þeirra sem fara á lyfið finna fyrir aukaverkunum á borð við ógleði, uppköst, niðurgang, hægðatregðu og magaverki. Þessu fylgir oft mikil þreyta og svimi. Alvarlegri fylgikvillar eru brisbólga (sem eykur líkurnar á krabbameini í brisi), gallsteinar, hækkun á hvíldarpúlsi, nýrnabilun og þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Lyfið virðist jafnframt hafa möguleg orsakatengsl við skjaldkirtilskrabbamein sem leiddi til þess að bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) setti fram kröfu um að lyfinu fylgdi svokölluð „boxed warning“, sem er strangasta aðvörun sem stofnunin getur farið fram á,“ segir hún.

Tara Margrét segir að ítrekaðar tilraunir Novo Nordisk til að fá sjúkratryggingarkerfi víðs vegar um heim til að dekka kostnað lyfjanna fyrir meðferð offitu hafa ekki gengið eftir. „Þar sem að ekki hefur tekist að sýna fram á heilsufarslega bætingu af lyfjunum til langs tíma,“ segir hún.

„Allur ávinningur af lyfinu virðist hverfa ef og þegar fólk hættir á lyfinu, sem er lenskan með allar tilraunir til að hafa áhrif á líkamsþyngd. Með öðrum orðum að þá býr lyfið til þyngdarsveiflur sem eru sjálfstæður áhættuþáttur fyrir háþrýstingi, sykursýki 2, hjarta- og kransæðasjúkdómum, frekari þyngdaraukningu, ákveðnum tegundum krabbameina og snemmbærum dauða, svo fátt eitt sé nefnt.“

Gaf í skyn að hann bæri ábyrgð á endurhæfingarlífeyri hennar

Tara Margrét ákvað að afþakka lyfið þar sem hún taldi kostnaðinn við lyfið og aukaverkanirnar væru ekki þess virði fyrir hana og hennar andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu heilsu.

„Viðbrögð heimilislæknis míns við áhyggjum mínum af ofantöldum aukaverkunum var einfaldlega að hrista höfuðið og gefa frá sér langdregið: „Neeeiii.“ Þarnæst tjáði hann mér að ég þyrfti að treysta honum og teyminu í heilsumóttöku heilsugæslunnar í ljósi fagreynslu þeirra og bætti við að ég þyrfti að hafa hugfast að hann bæri ábyrgð á greiðslum endurhæfingarlífeyrisins sem ég þurfti svo sárlega á að halda nú þegar ég var dottin af vinnumarkaði. Svo ítrekaði hann aftur við mig að ég ætti að skoða þennan kost af alvöru. Sem betur fer vissi ég betur. Hann hafði enga aðkomu að greiðslum endurhæfingarlífeyris míns. Það er bara ekki þannig sem kerfið okkar virkar. Það veldur mér þó áhyggjum að aðrir skjólstæðingar þessa læknis, sem hann hefur eflaust líka kallað til sín óumbeðna til að segja frá þessu nýja undralyfi, séu mögulega ekki jafn meðvitaðir um réttindi sín,“  segir hún og bætir við:

„Þarna þrýsti hann á mig lyfjameðferð, hvers gagnsemi fyrir mig ég hafði réttmætar efasemdir um, og var ófús til að taka við mig samtalið um það þegar ég reyndi það. Þess í stað misbeitti hann uppdiktuðu valdi sínu yfir afkomu minni, á þessum viðkvæma tímapunkti í lífi mínu, til að ógna mér og þröngva lyfinu upp á mig og skammaði mig svo fyrir að treysta honum ekki betur. Þetta er grafalvarleg misbeiting á valdi og trúnaðarsambandi milli læknis og sjúklings. Þarna var lögbundinn sjálfsákvörðunarréttur minn um eigin líkama og heilsu fótum troðinn. Ég skipti um heilsugæslustöð samdægurs og sendi inn kvörtun til Landlæknis nokkrum vikum síðar sem ég hafði því miður ekki andlega heilsu til að fylgja eftir.“

„Við þurfum að geta tekið umræðuna“

Tara Margrét ákvað að stíga fram með sögu sína um atvikið í kjölfar umræðunnar undanfarið.

„Við þurfum að geta tekið umræðuna um þessa hluti. Hvernig feitt fólk er jaðarsettur hópur innan heilbrigðiskerfisins og er þar með viðkvæmari fyrir álíka misbeitingu og ég lýsti hér að ofan. Og um það hvernig lyfjafyrirtæki eru fyrst og fremst skuldbundin hluthöfum sínum frekar en viðskiptavinum. Öðruvísi hefði sú staða ekki komið upp fyrir áramót að skortur varð á lyfinu fyrir sykursjúka fyrir tilstilli ágengrar, að því er virðist óheiðarlegrar, markaðsetningar á lyfinu,“ segir hún.

Hún segist einnig hafa heyrt sögur um að stálhraust feitt fólk hafi verið sett á þessi lyf án þess að fá almennilega að vita af hverju eða að fólkið sé upplýst um aukaverkanirnar.

Tara Margrét tekur fram að hún sé meðvituð um að í sumum tilfellum hafi lyfið reynst vel.

„Þá sérstaklega fyrir einstaklinga með sykursýki og PCOS og það er mikilvægt að halda því til haga. En lyfin hafa líka skuggahliðar og sumar þeirra hafa mögulega ekki litið dagsins ljós þar sem að langtíma rannsóknir skortir fyrir ákveðna hópa. Ef að heilbrigðisstarfsfólk er svo ekki meðvitað um eða upplýsir skjólstæðinga sína ekki um aukaverkanir þeirra eins og þeim ber lögbundin skylda til að gera er voðinn vís,“ segir hún.

Skaðaminni nálganir

Að lokum bendir hún á aðrar nálganir.

„Til eru skaðaminni nálganir að heilsufari sem eru til þess fallnar að efla líkamlegt, andlegt og félagslegt heilsufar óháð holdafari (1, 2). Sífellt fleiri velja sér slíkar nálganir fyrir eigið heilsufar eftir að hafa upplifað skaðsemi þyngdarmiðaðra nálgana á eigin skinni og sjálfsákvörðunarétt þeirra ber að virða. Ég hvet öll til að kynna sér kosti og galla hverrar nálgunar fyrir sig og taka upplýsta ákvörðun um hvor þeirra henti betur. Ég vil líka endurtaka ákall mitt til heilbrigðisstarfsfólks að gera slíkt hið sama í því skyni að tryggja að það valdi ekki skaða á borð við þann sem fyrrum heimilislæknir minn olli mér þennan dag, jafnvel þó hann hafi talið sig vera vel meinandi.“

Lestu pistilinn í heild sinni hér.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar