Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Ásmundi að heimild ríkissáttasemjara til að gera þetta sé óumdeild og hún ráðist eingöngu af mati sáttasemjara á stöðu viðræðna.
Hann sagði einnig að heimildin sé skýr og mörg fordæmi séu fyrir að henni sé beitt.
Á síðustu fjörutíu árum hafa þrjátíu miðlunartillögur verið lagðar fram og af þeim var um þriðjungur felldur.
Hann sagði ljóst að deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hafi verið komin stál í stál og miðlunartillaga sé verkfæri ríkissáttasemjara til að brjóta þá stöðu upp. „Ég hef ekki nokkra ástæðu til annars en að treysta því að hans dómgreind sé þokkaleg. Allavega er það hreinlega skylda hans að leggja fram miðlunartillögu ef hann metur sem svo. Deilan er greinilega að stigmagnast núna. Það stendur yfir atkvæðagreiðsla um afmarkað verkfall á hótelum, þar sem reyndar er mjög lítill hópur á ferðinni og mjög fáir sem geta tekið ákvörðun um afdrifaríka deilu,“ sagði Ásmundur.