Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í samtali við Fréttablaðið sagði hún að þegar starfsumhverfið sé svona erfitt sé varla hægt að tryggja öryggi og góða þjónustu. Þar vísaði hún til ýmissa kerfislægra þátta á borð við undirmönnun.
Guðbjörg benti einnig á að Ísland sé að verða síðasta Norðurlandaþjóðin til að gera breytingar á refsiábyrgð í heilbrigðiskerfinu og að þó málið sé í vinnslu sé orðið tímabært að frumvarpið líti dagsins ljós. „Það verður að tryggja að ekki sé farið gegn einstaklingum heldur kerfinu þegar alvarleg atvik eiga sér stað,“ sagði hún.
Hún sagði að heilbrigðisstarfsfólk sé orðið vart um sig vegna slæmrar mönnunar og starfsumhverfisins sem það býr við. „Maður mætir á sína vakt og gerir sitt besta, en ef það gerist eitthvað á vaktinni, vegna einhvers eins og undirmönnunar, getur maður verið sóttur til saka. Þetta er daglegur raunveruleiki heilbrigðisstarfsfólks,“ sagði hún.