Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Þetta er örugglega met á þessari öld. Mengunin hefur verið í meira en 40 klukkustundir yfir leyfilegum mörkum á fyrstu fimmtán dögum ársins,“ sagði Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.
Hann sagði að froststillurnar í ársbyrjun valda þessari miklu mengun í Reykjavík og nágrannabyggðum. Það vanti rok og rigningu.
Hann sagði það einnig spila inn í að óvíða í Evrópu séu jafn margir bílar á hvern íbúa og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig séu dísilbílar, sem menga mest allra bíla, enn mjög algengir á götunum.
Ekkert eftirlit er haft með mengunarvarnabúnaði í bílum sem nota jarðefnaeldsneyti en sá búnaður er undanþeginn árlegri skylduskoðun og því er ekki vitað hversu mikið gagn er af þessum búnaði að sögn Þorsteins.