Hjúkrunarfræðingur sem ákærð er fyrir manndráp vegna andláts sjúklings á geðdeild Landspítalans neitar sök. RÚV greinir frá þessu en málið var þingfest í dag.
Verjandi konunnar fer fram á að einkaréttarkröfu í málinu verði vísað frá en ættingjar sjúklingsins sem lést krefjast 15 milljóna króna í miskabætur. Fyrir utan miskabætur er krafist andvirði útfararkostnaðar og lögfræðikostnaðar.
DV hefur ákæru í málinu undir höndum. Þar kemur fram að tveimur flöskum af næringardrykk hafi verið pínt ofan í sjúklinginn, sem var haldið fastri, að fyrirskipan hjúkrunarfræðingsins sem ákærð er í málinu. Ákæran hljóðar upp á manndráp í opinberu starfi og brot gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Atvikið átti sér stað þann 16. ágúst 2021 inni á geðdeild Landspítalans.
Hjúkrunarfræðingurinn er ákærð fyrir að hafa svipt sjúklinginn lífi (sjúklingur nefndur A): „… með því að þröngva ofan í hana innihaldi úr tveimur flöskum af næringardrykk, en ákærða hellti drykknum upp í munn A, á meðan henni var haldið að fyrirskipan ákærðu, þrátt fyrir að A gæfi til kynna að hún vildi ekki drykkinn, allt með þeim afleiðingum að drykkurinn hafnaði í loftvegi hennar, sem hindraði loftflæði um lungun og olli öndunarbilun og hún kafnaði,“ segir í ákæru.