Leikstjóri Áramótaskaupsins, Dóra Jóhannsdóttir, og handritshöfundar kvörtuðu til RÚV vegna framleiðslufyrirtækis sjónvarpsþáttarins S800 ehf. sem er meðal annars í eigu Sigurjóns Kjartanssonar og útgerðarmannsins og stofnanda Samherja, Kristjáns Vilhelmssonar. Kristján á hlut í framleiðslufyrirtækinu í gegnum fasteignaþróunarfélagið Sigtún sem er á bak við uppbyggingu nýjar miðbæjarins á Selfossi.
Heimildin greinir frá þessu en í umfjöllun miðilsins er fullyrt að „þrýstingur um að taka Skaupið upp í nýja miðbænum á Selfossi, duldar auglýsingar og falin fjárhagsáætlun hafi orðið til þess að upp úr sauð.“
Segja má að upphafið að deilunni hafi verið frétt Stundarinnar í lok nóvember þar sem greint var frá aðkomu Kristjáns að verkefninu. Sú frétt varð til þess að leikstjórinn, Dóra Jóhannsdóttir, fór að átta sig á „Selfoss-pressunni“ og spyrja erfiðra spurninga. Það var til þess að framleiðandi og aðstoðarleikstjóri, [sem ekki eru nafngreindir í umfjölluninni] lokuðu á samskipti við hana þrátt fyrir að tökur á lokalagi og pikkup tökur væru eftir.
Sigurjón, sem var titlaður sem yfirframleiðandi Skaupsins, segir í umfjölluninni ekki ætla að svara fyrir viðkomandi aðila. Ég ætla ekki að svara fyrir þá. „Þetta voru bara erfið samskipti sem þau áttu,“ er haft eftir Sigurjóni í umfjölluninni.
Heimildir Heimildarinnar byggja á skýrslu sem Dóra sendi RÚV um framleiðslu Áramótaskaupsins sem miðillinn hefur undir höndum. Dóra fullyrðir í umfjöllun Heimildarinnar að deilur hafi kviknað vegna þrýstings framleiðenda um að koma að duldum auglýsingum í Skaupinu en því neitar Sigurjón Kjartansson staðfastlega fyrir hönd framleiðslufyrirtækisins. Einhverjir samstarfsamningar við fyrirtæki gegn afslætti hafi verið gerðir, eins og alltaf við framleiðslu Skaupsins, og þessum fyrirtækjum hefði verið þakkað í kreditlista þáttarins.