Faðir sem réðst á mann sem hafði ítrekað áreitt dóttur hans var ákærður og sakfelldur fyrir minniháttar líkamsárás. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 12. janúar.
Atvikið átti sér stað inni á skrifstofu þar sem mennirnir höfðu hist til að vinna að sáttum í málinu. Faðirinn missti hins vegar stjórn á sér á fundinum, greip í höfuð hins meinta áreitara dóttur sinnar og sló hann ítrekað í höfuðið þar til fólk sem var viðstatt fundinn greip inn í og náði að ganga í milli. Árásarþolinn fékk bólgu og hrufl neðan við vinstri augnkrók auk eymsla á nokkrum stöðum á höfði og hálsi.
Athæfi árásarþolans gegn dóttur mannsins er hreinsað úr texta dómsins og stendur þar:
„Af hálfu ákærða kom fram fyrir dómi að nefndur A hafi verið búinn að áreita ólögráða dóttur ákærða ítrekað og kynferðislega, t.d. með því að […]. Það hafi svo verið
á sáttafundi 17. mars 2021 sem ákærði hafi misst stjórn á skapi sínu í örskamma stund og framið þann verknað sem lýst er í ákæru.“
Þess má geta að faðirinn hefur áður verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir meiriháttar líkamsárás og heimilisofbeldi.
Honum er hins vegar ekki gerð refsing í þessu máli en þarf að greiða um 275 þúsund krónur í sakarkostnað.