Ólafur Stefánsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta undraðist á ummælum Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins í handbolta í viðtali á RÚV eftir tap Íslands gegn Þýskalandi í æfingarleik í dag. Guðmundur lýsti yfir furðu sinni á væntingum í garð liðsins hér heima þar sem talað væri líkt og Ísland hefði átt að vinna skyldusigra á Þjóðverjum um helgina.
Íslenska landsliðið í handbolta tapaði í dag fyrir Þjóðverjum í lokaleik liðanna fyrir komandi heimsmeistaramót. Þetta var annar leikur liðanna á tveimur dögum og lauk honum með tveggja marka sigri Þjóðverja, 33-31 en Ísland vann leik liðanna í gær.
Eftir leik dagsins var Guðmundur, spurður að því í viðtali á RÚV hvort honum fyndist íslenska landsliðið standa á svipuðum stað og hann vonaðist til á þessum tímapunkti, fjórum dögum fyrir fyrsta leik á HM.
,,Já ég myndi segja það,“ svaraði Guðmundur og beindi síðan orðum sínum heim til Íslands. ,,Fólk er farið að tala um það heima, eins og við höfum orðið varir við, að við séum að spila hérna í Þýskalandi og hér eigi að vinna skyldusigra.“
Íslendingar hafi verið að spila við eina stærstu handboltaþjóð í heimi, á útivelli, fyrir framan þúsund áhorfendur.
,,Þetta er ekkert einfalt verkefni að klára fyrir liðið. Í raun finnst mér liðið eiga mikið hrós skilið fyrir það hvernig við höfum farið inn í þessa leiki. Höfum átt hér tvo jafna leiki, unnum í gær og töpum naumt í dag. Það finnst mér sína ákveðinn styrk hjá liðinu.“
Þessi ummæli Guðmundar voru tekin fyrir í setti hjá RÚV eftir leik þar sem fyrrum atvinnu- og landsliðsmennirnir Ólafur Stefánsson og Logi Geirsson sátu í sæti sérfræðinga en Logi hafði áður lýst skoðun sinni á þýska liðinu sem hann sagði ekki gott lið.
Ólafur var ekki hrifinn af því að íslenska landsliðið væri að fylgjast með umfjölluninni um liðið hér heima og væntingunum sem gerðar eru til liðsins.
,,Gummi á ekkert að vera pæla í því hvað við erum að pæla. Það í raun kemur honum bara ekkert við. Hann á bara að halda sinni línu, hann veit hvað hann getur og hvað liðið getur, væntingar á Íslandi eiga ekki að fara inn í gott lið.
Gott lið á ekkert að vera fylgjast með hvað er á MBL, það bara kemur þeim ekkert við. Þeir eiga bara að halda sínu, Gummi á að halda sínu og við megum bara segja það sem við viljum og munum gera það.“
Ísland hefur leik á HM í handbolta á fimmtudaginn næstkomandi þegar að liðið mætir Portúgal. Auk Portúgal er Ísland í riðli með Ungverjalandi og Suður-Kóreu.
Væntingarnar í garð íslenska liðsins eru miklar enda vel mannað lið og breiddin í leikmannahópnum sjaldan verið eins góð. Veðbankar hafa verið að spá liðinu 5. sæti á mótinu og vonast Íslendingar til þess að geta fagnað verðlaunasæti á nýjan leik er kemur að árangri landsliðsins í handbolta.