Birtir hafa verið gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidór Nathanssyni í hinu svokallaða hryðjuverkamáli, en þeir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu um miðjan september. Úrskurðirnir varpa ljósi á grundvöll þess að þeir eru grunaðir um að hafa áformað að fremja hryðjuverk hér á landi. Vísir greindi fyrst frá úrskurðunum.
Þeir Sindri og Ísidór eru ekki nafngreindir í úrskurðunum svo ekki er ljóst hvor úrskurðurinn á við hvern. En ljóst er að annar þeirra er yfirlýstur nasisti en í úrskurði segir:
„Hann lýsti sjálfum sér sem einangrunarsinna en aðrir kölluðu hann nasista. Hann kvaðst oft stuða fólk og tala opinskátt t.d. um að skjóta aðila ef hann segði eitthvað sem féll ekki við hans skoðanir. hann sagðist vera meðvitaður um að tala svona og sagði að fólki líki oft á tíðum ekki við það, því einangri hann sig. Aðspurður um samtökin „Right wing“ sagðist hann telja sig sem hluta af þeim samtökum. Hann sagði að hommar fengju of mikið pláss í samfélaginu og honum fyndist þeir vera áróður og það ætti að banna þá frá börnum. Hann sagðist vera ósáttur við hvernig útlendingar streymdu inn í landið, vinni ekkert og lifi á kerfinu. Hann sagðist vera mikill vopna- og sprengjuáhugamaður. Hann sagðist ekki hafa búið til skotvopn eða sprengju en kvaðst hafa þrívíddarprentað allskonar hluti.“
Fram kom á þessi aðili hafi ritað sitt eigið „manifesto“ í anda við slík skjöl sem hryðjuverkamenn hafi skilið eftir sig.
„Aðspurður um hans eigin manifesto sem lögregla fann í tölvu hans kvað hann það sínar hugleiðingar og það væri ekki bara hryðjuverkamenn sem skrifi slíkt. Hann kannaðist við að hafa vistað og kynnt sér manifesto nafngreindra manna, sem framið hafa hryðjuverk, einungis í þeim tilgangi að kanna hvað væri að gerast í höfðinu á þeim.“
Hann lýsti yfir ánægju sinni á Anders Behring Breivik sem framdi fjöldamorðin á eyjunni Útey í Noregi árið 2011, en með því hafi Breivik komið í veg fyrir að meðlimir í ungliðahreyfingu norska Verakmannafólksins yrðu í framtíðinni að þingmönnum sem myndi hleypa útlendingum inn í landið.
Í úrskurði segir:
„Það væri of mikið af útlendingum […] og aðal vandamálið væri þá öfgamúslimar, sem væri meðal annars að framkvæma handsprengjuárásir. A[Breivik] kom í raun í veg fyrir það að ungir aðilar myndu alast upp og verða þingmenn sem myndu opna landið fyrir útlendingum. X sagði að Y hafi sent sér skilaboð varðandi það að keyra niður fólk á Gaypride en kvaðst sjálfur ekki hafa verið mikið með í þeim samræðum heldur bara játað. Hann kvaðst senda allskonar til Y bara til að stuða og stríða, en sjálfur sagðist hann ekki vilja framkvæma verknaðinn.“
Hinn sakborningurinn sagðist þó ekki vera nasisti heldur mannvinur sem þætti vænt um samkynhneigða og litað fólk. Þær samræður sem hann hafi átti við hinn sakborninginn hafi verið í gríni og dæmi um svartan húmor.
Í úrskurði segir um samtölin þeirra á milli:
„Þeir ræða fjöldamorðingja og hylla þá. X skrifar „Mein Fuhrer“ við mynd af A. Mein Fuhrer þýðir foringinn minn á íslensku og kalla B hetjuna sína. X talar um að stela bifreið sem líkist lögreglubifreið sérsveitarinnar. X talar einnig um að kaupa búning sem líkist lögreglubúning til að blekkja fólk þar sem „99% myndi trúa að hann væri lögga ef hann segði það upphátt“. Bætir því svo við að þau þurfi bara að trúa því í 10 sek. X segir „það er enginn að fara að stoppa mig“.
Í tengslum við þetta segir Y að A og C [þekktir hryðjuverkamenn] hafi verið nokkur ár að plana þetta en þá bætir X við að hann þurfi ekki nema þrjá mánuði. X og Y tala meðal annars um að drepa alla á Gay Pride og Y segir að einng daginn verða þeir saman í „Right Wing Death Squad“.
Í tengslum við þetta tala þeir um hvað þeir sjá fyrir sér að keyra yfir 100 manns á Gay Pride og bakka svo, fram og aftur – spreyja svo 500 skotum og beila á næsta location. Í kjölfarið að X fær synjun um þátttöku um meðferð skotvopna (A flokkur) sendir hann á Y að nú muni þeir fá á trýnið og bætir við að hann sjái ekki hvenær árshátíð lögreglunnar verði haldin. Í farsíma X sést að hann hefur leitað í leitarvélum á netinu hvenær árshátíðin á að fara fram.“
Annar sakborninganna gat engar skýringar gefið á því hvers vegna hann hafi á netinu leitað að dagsetningu árshátíðar lögreglunnar. Hann sagðist vera bitur og sár en vildi þó ekki útskýra þá fullyrðingu nánar.
Í tölvum beggja fannst vistað myndefni og myndskeið af hryðjuverkaárásum.
Í úrskurði segir að þeir sem hótanir þeirra Sindra og Ísidórs beindust að hafi ekki verið hlátur í huga þegar þau lásu ummælin. En fram hefur komið að meðal þeirra séu til dæmis Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson.
„Lögregla hefur nú rætt við þá aðila sem kærði og meðkærði nefndu sem skotmörk og var því fólki ekki hlátur í huga heldur greip um sig mikill ótti og vanlíðan hjá þeim, sem tók fyrirætlunum sakborninganna mjög alvarlega og nærri sér.“
Um rök fyrir gæsluvarðhaldi sagði að þeir Ísidór og Sindri hefðu sín á milli mikið í höndunum sem gerði þeim kleyft að fremja hryðjuverk.
„Kærði og samverkamaður hans hafa framleitt og komist yfir skotvopn, skotfæri og önnur vopn sem unnt er að nota til að fremja fjöldadráp. Þeir hafa undir höndum skotheld vesti og hafa rætt sín á milli árásir á ákveðna hópa samfélagsins, stofnanir einstaklinga og fleira. Rannsókn málsins er eins og áður hefur komið fram á viðkvæmu stigi. Sakborningar hafa báðir neitað að hafa ætlað að fremja fjöldadráp og reynt að gera minna úr þeim samskiptum sem lögregla hefur undir höndum.“
Sá sakborninganna tveggja sem skilgreinir sig sem nasista sagði í yfirheyrslum að vinur hans og meðákærði væri bitur og hefnigjarn og hefði honum blöskrað hvað áform hans um voðaverk væru langt komnar.
„Aðspurður út í ummæli sín um að drepa nafngreinda þingmenn kvaðst hann ekki hafa ætlað að gera það bókstaflega. Aðspurður um samtal hans og meðkærða Y um drónaárásir kvaðst hann ekki hafa haft vilja til þess en sagði að Y hefði mikinn áhuga á drónaárásum sem blöskraði hvað Y væri kominn langt í þeim pælingum. Hann kvað Y vera að skoða hvernig ætti að smíða dróna og sprengju, hann hafi verið kominn með gpsstaðsetningar og ætla sér að smíða dróna. Hann kvaðst trúa því að Y kynni að framkvæma þessar hugmyndir sínar, þetta hafi ekki verið grín heldur stigi ofar.“
Nasistinn, en hann ítrekað skilgreindi sig sem slíkan í yfirheyrslum, sagði að hinn hafi farið í „vettvangsskoðun fyrir Gaypride gönguna og þar meðal annars mælt stærð á hliði til að meta hvort hægt væri að keyra vörubíl í gegnum það.
Aðspurður um áhuga hans á lögreglufatnaði og öðrum búnaði tengdum lögreglu sagði nasistinn að hann langaði til að eiga slíkt.
Úrskurðina má lesa hér og hér. Svo má lesa um ákæruna í málinu hér.