Android-notendur Sportabler, smáforritsins sem aðstoðar íþróttafélög og foreldra að halda utan um íþróttaiðkun barna sinna, fengu óþægilega skilaboð í morgun. Í þeim kom fram að brotist hefði verið inn í kerfi fyrirtækisins og persónulegum upplýsingum notenda stolið. Nýlega var opnað á þann möguleika að greiða iðkendagjöld í gegnum forritið og því hrukku margir eflaust við í morgun.
Í svari frá Abler, sprotafyrirtækinu sem þróaði lausnina, við fyrirspurn DV kemur fram að brotist hafi verið inn í tilkynningarþjónustu fyrirtækisins í morgun og skilaboð send á Android-notendur smáforritsins. Greiðslu- og kortaupplýsingar notenda séu ekki í hættu enda eru þær ekki geymdar hjá fyrirtækinu.
„Við erum að ná utan um málið, en eins og sakir standa þá virðist þetta bara vera eitt „push notification“ sem þrjótarnir gátu sent í gegnum birginn okkar og bara á notendur sem nota Android. Við sjáum engin merki þess að brotist hafi verið inn í Sportabler kerfið sjálft og að upplýsingum þaðan hafi verið stolið,“ segir í svarinu við fyrirspurninni.