Rithöfundurinn Hermann Stefánsson er ekki jafnhrifinn af skrifum Auðar Jónsdóttur í gær og margir aðrir. Sakar hann Auði um forréttindablindu og að kynda undir umræðu sem leiði af sér endalausa dellu um ekki neitt.
Það má ganga svo langt að segja að pistill Auðar í gær hafi vakið landsathygli. Þar lýsti hún þyrnum stráðri leið sinni að frama í bókmenntum og sagðist vera búin að fá nóg af því að vera sífellt bendluð við afa sinn, nóbelsskáldið Halldór Laxness.
Forsagan að þessu er gagnrýni ungs höfundar, Berglindar Óskar, á bókablað Stundarinnar. Þessu veglega bókablaði ritstýrir Auður og fann Berglind að ættartengslum og klíkuskap sem henni fannst gegnsýra efnisvalið. Pistilinn kallaði hún „Kúltúrbörnin“ og hún sagði meðal annars:
„Það er mjög erfitt að komast að þegar maður þekkir engan, og ég held að kúltúrbörnin geri sér ekki grein fyrir forréttindunum sem þau fæðast inni í: að fá leiðsögn frá einhverjum sem þekkir geirann, vera umkringdur „réttu” bókmenntunum (og skoðunum á þeim), tengslin og reddingarnar. Í ritlistinni kynntist ég fullt af frábæru fólki og það opnar kannski einhver tækifæri seinna meir, en eins og er, stend ég fyrir utan klíkuna.“
Í fyrsta lagi benti Berglind á að Auður ritstýrði blaðinu, en hún væri barnabarn Halldórs Laxness. Einnig benti hún á að Kamilla Einarsdóttir, dóttir Einars Kárasonar, gæfi föður sínum pláss í sinni grein í blaðinu „og hrósar aðalfyrirmynd sinni í lífinu, henni Auði, í pistlinum sínum.“ Hún nefndi fleiri kunningja- og ættartengsl sem lituðu blaðið.
„Það þarf varla að minnast á að Auður og Kamilla eru mjög áberandi í bókmenntum og virðast auðveldlega fá tilnefningar og tækifæri,“ sagði Berglind ennfremur en lét þess getið að bók hennar, smásagnasafnið Breytt ástand, hefði ekki fengið neina umfjöllun í blaðinu. „Ég hef allavega ekki fengið umfjöllun í þremur bókablöðum Stundarinnar, hverju svo sem það sætir.“
„Ég hef upplifað allskonar umræður og gagnrýni á 25 ára ferli. En þetta, með afa minn, það er komið nóg af því. Og það að hafa lesið í fjórum fjölmiðlum fyrir jól að ég hafi haft umsjón með forréttindablaði út af ætterni mínu jaðrar við að vera ærumeiðingar.“ sagði Auður í pistli sínum í gær.
Hún gagnrýndi einnig harðlega framgöngu Eiríks Arnar Norðdahl í útvarpsþættinum Lestin á Rás 1, en þar ræddu hún og Eiríkur um kúltúrbörn, menningarauðmagn og bókaútgáfu. Umræður urðu nokkuð heitar og það fauk í Auði vegna ummæla Eiríks.
Fjölmargir dáðust að pistli Auðar um þetta í gær, lýstu yfir stuðningi við hana og lofuðu hana fyrir hugrekki og tilfinninganæmni. Pistilinn má lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.
„Hver fær eiginlega lungann úr heilum útvarpsþætti til að verja sig fyrir gagnrýni á fáförnu bloggi um það hverra manna maður sé?“ segir Hermann Stefánsson í pistli sínum. Hann hæðist að hjartnæmum viðbrögðum við pistli Auðar:
„Nú tekur Auður þetta aftur upp á fésbók og eftir að innihaldi þess sem hún hefur að segja hefur verið drekkt í samúðarkveðjum og fórnarlambsstuðningi, deilingum, hjörtum og lækum (það mætti halda að einhver hefði misst hundinn sinn eða handleggsbrotnað illa) stendur ekkert eftir nema þrálátur þanki um að þarna fari nákvæmlega sama fólkið og er alltaf að tala um forréttindablindu.
Ekki sína eigin forréttindablindu heldur annarra.“
„Auður Jóns getur stundum verið óttalegur asni,“ segir Hermann ennfremur og telur nákvæmlega ekkert rangt við það að rætt sé um ætterni fólks og möguleg áhrif þess á framgang þess í bókmenntaheiminum. Hann telur að Auður hefði átt að þegja af sér gagnrýni Berglindar í stað þess að taka hana fyrir í útvarpsþætti og taka málið upp að nýju á víðlesinni Facebook-síðu sinni:
„Er það goðgá að ætlast til þess að jafn vinsæll og vel kynntur og virtur höfundur geti verið nógu stór í sér til að þegja af sér ofurlitla gagnrýni frá nýbökuðu ljóðskáldi?“
Hermann segir ennfremur:
„Ég verð að viðurkenna að ég vorkenni Auði Jónsdóttur ekki baun fyrir að eiga Halldór Laxness að afa. Það er heldur ekki út í hött að það hafi stundum komið sér vel, og stundum síður.“
Pistilinn má lesa í heild með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan: