fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Auður komin með nóg – „Jaðrar við að vera ærumeiðingar“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. desember 2022 16:25

Auður Jónsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Berglind Ósk - Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir hefur fengið sig fullsadda af því að vera bendluð við afa sinn, rithöfundinn og nóbelsverðlaunahafann Halldór Kiljan Laxness. Þetta segir hún í ítarlegum pistli sem hún birtir á Facebook-síðu sinni í dag. Pistillinn er skrifaður í kjölfar máls sem vakti mikla athygli fyrir jól en það hófst þegar rithöfundurinn Berglind Ósk birti bloggfærslu þar sem hún gagnrýndi bókablað Stundarinnar.

Berglind sagði blaðið varpa skýru ljósi á þá forréttindastöðu sem sumir rithöfundar njóti hér á landi, það er svokallaðra kúltúrbarna, eins og Berglind kallar þau, sem eru alin upp í bransanum.

„Það var einhvern veginn ekki einu sinni verið að reyna að fela þetta. Í fyrsta lagi er mjög skrýtið að rithöfundur ritstýri bókablaðinu (hagsmunaárekstur, einhver?) en svo sem mjög íslenskt.“ 

Nefndi Berglind sem dæmi að Auður Jónsdóttir ritstýri blaðinu. Þá gagnrýnir Berglind einnig að Kamilla Einarsdóttir hafi hjálpað Auði við gerð blaðsins þar sem hún er einnig rithöfundur og dóttir rithöfundarins Einars Kárasonar. Ásamt því var að finna viðtöl í blaðinu við syni bókaútgefanda. „Fallegt viðtal við fólk sem er fætt inn í geirann,“ sagði Berglind í bloggfærslunni.

„Það þarf varla að minnast á að Auður og Kamilla eru mjög áberandi í bókmenntum og virðast auðveldlega fá tilnefningar og tækifæri. “

„Ég fékk auðvitað strax að heyra að það væri út af látnum afa mínum“

Í pistlinum sem Auður birtir í dag útskýrir hún hvernig hún varð rithöfundur, vegferðina sem hún fór og að hún hafi ekki verið skreytt rósum alla leið. Hún segir flesta hafa verið búna að gefa sig upp á bátinn, þó svo að hún ætti stóra fjölskyldu.

„Ég var svartur sauður og búinn að vera það árum saman en enginn tengdi það að ég hafði flosnað upp úr skóla og týnt sjálfri mér við það að ég hafði upplifað áföll sem ég hafði ekki fengið neina aðstoð með. Og ég hafði orðið vitni að atburðum sem er engri ungri manneskju hollt að sjá. Og af því ég hafði ekki fengið neina svörun við því vatt það upp á sig og ég kom mér sífellt í fleiri flókna og erfiða hluti,“ segir hún í upphafi pistilsins.

Auður segir að það að skrifa hafi verið hennar leið út úr sársauka. Árið 1998 gaf hún út sína fyrstu bók en hún hafði þá unnið að henni í að minnsta kosti tvö ár.

„Ég var ennþá gift sífulla eiginmanninum þegar ég fann í mér nægilegan lífskjark til að hengslast í fiskilopapeysunni upp í Mál og menningu og biðja um yfirlestur en ég sagði hvorki mömmu minni né systur hennar það strax því þær hefðu skammast sín fyrir framhleypni mína.“

Hún segir Halldór Guðmundsson hafa tekið á móti sér en að hann hafi ekki veitt sér neina sérmeðferð. „Hann beindi handritinu áfram til ritstjóra, eins og öllum handritum.“

Ritstjórinn lofaði Auði ekki útgáfu en hann hvatti hana til að halda áfram að skrifa, hann væri svo tilbúinn að lesa yfir fyrir hana aftur. Þetta reyndist vera Auði næg hvatning svo hún hélt áfram að skrifa. Að lokum kom bókin svo út og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

„Ég fékk auðvitað strax að heyra að það væri út af látnum afa mínum. Ég hafði oft heyrt það á meðan ég var að skrifa bókina. Að ég væri að reyna að vera eins og afi minn. Hver ég héldi eiginlega að ég væri! Ólíklegasta fólk hló að mér.“

„Þetta, með afa minn, það er komið nóg af því“

Einnig var fjallað um málið í útvarpsþættinum Lestinni á Rás 1. Þar mætti Auður kollega sínum, Eiríki Erni Norðdahl, og ræddi við hann um þetta allt saman. Auður segir Eirík hafa útmálað sig og Kamillu sem „einhvers konar Bjarna Ben bókamenningarinnar“ í þættinum.

Þá segir hún Eirík hafa málað Berglindi Ósk upp sem „fíkniefnaneytanda á leigumarkaði sem ætti erfitt uppdráttar“ til að styrkja málflutning sinn.

„Í ljós kom að konan er öflugur forritari með rekstur við að aðstoða fyrirtæki með textagerð, búin að vera edrú lengi og kærasta eins kröftugasta rithöfundar þjóðarinnar. Auk þess var hún þá búin að fá eins marga dóma og Ólafur Jóhann og búin að vera í Kiljunni, og útskrifuð úr ritlist við Háskóla Íslands. Í viðtalinu kom þetta hins vegar út eins og ég, spillti nóbelserfinginn væri að hamast á brotinni konu sem kæmist ekki að út af fólki eins og mér.“

Auður segir að það sé hægt að tala um kúltúrbörn og menningarauðmagn en ef það eigi að tala í félagslegum greiningum þá megi ekki útiloka að veruleikin einskorðast ekki við greiningu. „Ef ég nota greiningartæki á líf mitt þá jú, auðvitað, ég bjó ung að menningarauðmagni sem var um margt sérstakt, og það nýttist mér helst þannig að mér fannst sjálfsagt að lesa og skrifa og síðar meir banka upp á í forlagi, en ég átti líka mjög truflaða og flókna æsku,“ segir hún.

„Ef ég skoða þessa löngu liðnu mig með gleraugum tilfinningalegrar stéttaskiptingar, þá var ég bara grey sem átti ekki þá innistæðu í mér sem þarf til hvíla í sér. Þetta grey skrifaði til að finna að það ætti sér tilverurétt, svo urðu skrifin eins konar veruleiki.“

Að lokum segir Auður svo að hún sé búin að fá nóg af því að vera bendluð á þennan hátt við afa sinn:

„Ég hef upplifað allskonar umræður og gagnrýni á 25 ára ferli. En þetta, með afa minn, það er komið nóg af því. Og það að hafa lesið í fjórum fjölmiðlum fyrir jól að ég hafi haft umsjón með forréttindablaði út af ætterni mínu jaðrar við að vera ærumeiðingar.“

Hægt er að lesa pistil Auðar í heild sinni hér fyrir neðan:

„Þegar ég var 24 ára var ég grey. Ég var nýskilin við mann sem var um 20 árum eldri en ég, búinn að missa einhverjar tennur og á góðri leið með að drekka sig í hel. Hann lést einhverjum árum síðar. Mér fannst ég ekki eiga neitt betra skilið. Ég vann í frystihúsi og á öldrunarheimili fyrir vestan meðan við vorum saman, nema síðasta misserið fyrir sunnan, þá vann ég sem þjónustufulltrúi á Stöð 2, vann fyrir okkur báðum, og var byrjuð að skrifa sögu á fermingarritvélina mína, búin að hnoða saman einhverjum síðum.

Flestir voru búnir að gefa mig upp á bátinn, þannig séð, þó að ég ætti stóra fjölskyldu, en ég var svartur sauður og búinn að vera það árum saman en enginn tengdi það að ég hafði flosnað upp úr skóla og týnt sjálfri mér við það að ég hafði upplifað áföll sem ég hafði ekki fengið neina aðstoð með. Og ég hafði orðið vitni að atburðum sem er engri ungri manneskju hollt að sjá. Og af því ég hafði ekki fengið neina svörun við því vatt það upp á sig og ég kom mér sífellt í fleiri flókna og erfiða hluti. Ég var tilfinningalegt flak sem spólaði í eitraðri meðvirkni. Í dag er upplýsingin þannig að slík tengsl eru fljótséð. Þá voru þau tabú.

Mín leið út úr sársauka var að skrifa. En ég gat ekki skrifað um það sem ég hafði lifað, þá fólst í því svo mikil skömm. En ég skrifaði um alkóhólisma og brotin heimili í skáldsögum og bara það að skrifa með formerkjum skáldskapar um slíkt gerði það að verkum að ólíklegasta fólk setti í við mann. Tímarnir voru ennþá þannig. Raunar er ekki langt síðan, einhver ár, síðan Eiríkur Örn gerði grín að mér fyrir að skrifa stöðugt um meðvirkni. Það hljómar ekki mjög bókmenntalega, að skrifa um meðvirkni. En ég á allavega þrjár skáldsögur um snúast um meðvirkni og þöggun; Stjórnlausa lukku, Fólkið í kjallaranum og Stóra skjálfta.

Ég gaf út fyrstu bókina árið 1998 og hafði þá unnið að henni í allavega tvö ár. Ég var ennþá gift sífulla eiginmanninum þegar ég fann í mér nægilegan lífskjark til að hengslast í fiskilopapeysunni upp í Mál og menningu og biðja um yfirlestur en ég sagði hvorki mömmu minni né systur hennar það strax því þær hefðu skammast sín fyrir framhleypni mína. Halldór Guðmundsson tók á móti mér en ég fékk enga sérmeðferð. Hann beindi handritinu áfram til ritstjóra, eins og öllum handritum.

Það var mér til happs að ritstjórinn sem ég lenti á var fyrrum menntaskólakennari. Páll Valsson. Hann lofaði mér ekki útgáfu, en kennarinn í honum hafði vit á að hvetja þessa tætingslegu stelpu að halda áfram að skrifa með þeim rökum að ég ætti auðvelt með að búa til lifandi karaktera. Hann sagðist vera tilbúinn að lesa yfir aftur fyrir mig. Það var eina vilyrðið en næg hvatning fyrir mig. Þá var ég byrjuð að skrifa kjallaragreinar fyrir DV, sem fiskverkakona á Flateyri, og það að hafa fengið þær birtar var nægilegt eldsneyti til þess að ég héldi áfram að skrifa þetta handrit, aftur og aftur og aftur. Ég skildi við manninn, flutti til ömmu minnar sem var að farast úr áhyggjum af mér og kláraði bókina á tveimur árum, meðfram því að vinna í bókabúð Máls og menningar – sem eru kannski einu forréttindin í þessari sögu, en hver hefur ekki á ungum árum fengið íhlaupavinnu í gegnum ættingja?

Þessi bók bjó til líf fyrir mig. Þegar hún kom út var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og ég fékk auðvitað strax að heyra að það væri út af látnum afa mínum. Ég hafði oft heyrt það á meðan ég var að skrifa bókina. Að ég væri að reyna að vera eins og afi minn. Hver ég héldi eiginlega að ég væri! Ólíklegasta fólk hló að mér.

Ég man að Guðni Elíasson var í verðlaunanefndinni og hann hringdi í mig og bað mig um að taka það ekki nærri mér þó að margir væru að tala illa um mig, bókin hefði átt skilið að fá tilnefningu. Og ég sagði bara já já, ég var kornung og orðin þaulvön því að fólk talað um mig á háðskum nótum og gerði grín að mér vegna ætternis.

Ég fór síðan að vinna við blaðamennsku en næst skrifaði ég skáldsögu sem var léleg og fékk litla athygli og hefði betur ekki komið út. Þá dauðskammaðist ég mín og ætlaði að hætta að skrifa skáldsögur, gerði það ekki í næstum fjögur ár, en prófaði að skrifa barnabók með nýjum kærasta og árið eftir var ég beðin um að skrifa bók um afa minn handa börnum því hann hefði átt 100 ára afmæli. Mig langaði nákvæmlega ekkert til þess en mig vantaði peninga. Svo ég gerði það og ákvað í leiðinni að taka bolann á hornunum og bara þora að hafa hann í farangrinum án þess að detta í skömm. Einhverju áður hafði ég verið beðin um að gera tvö viðtöl í bók um hann, enda vann ég sem frílansblaðamaður og ég gerði það líka. Ég ákvað, og stóð við það, að tala bara um hann af hispursleysi og húmor og leyfa þessu ekki að slá mig aftur út af laginu. Sú bók var líka tilnefnd og aftur fékk ég yfir mig gusuna að það væri út af afa mínum og að ég ætti ekkert erindi í flokk fræðibóka.

Tveimur árum síðar var ég flutt til útlanda og fann andrými og kjark til að skrifa aftur skáldsögu. Þá kom Fólkið í kjallaranum sem vann Íslensku bókmenntaverðlaunin og um leið var ég fegin að búa í Kaupmannahöfn því auðvitað fór allt í gang aftur; í bloggum, hvísli og pískri, jafnvel blaðagreinum, að ég væri að fá tilnefningar og verðlaun sem réttilega tilheyrðu karlkyns ólíkt bókmenntalegri kollegum mínum. Og þetta, stöðugt verið að ýja að því, leynt eða ljóst, með einhverjum hætti að ég væri að skrifa og hefði fengið útgefið og tilnefingar út af gömlum karli sem var dáinn, afa mínum.

Ég var loddari, svo innilega að einu sinni hringdi ég í kollega minn til að biðja hann afsökunar á að ég hefði fengið tilnefningu en ekki hann. Á þeim tímapunkti vildi ég bara búa í útlöndum og fannst ég hlægileg, um leið og ég var stolt en líka í rosalegri vörn. Þá byrjaði það að maður gat gúgglað sig og ég kvaldi mig ítrekað við að lesa smættandi athugasemdir um sjálfa mig. Eins og að ég hefði verið í svo fínum stígvélum í einhverju viðtalinu af því að þetta Laxness-pakk ætti svo mikið af peningum. Ég hafði þá lifað á einum kebab í dag í einhverja mánuði í Köben með seinni manninum mínum til að hafa efni á að skrifa þessa bók.
Ég hef aldrei erft neitt. Ég hef bara skrifað.

Og eftir bókmenntaverðlaunin byrjaði ég að fá ritlaun í lengri tíma og við tók skrifhjólið, að gefa út skáldsögu annað hvert ár. En til að geta lifað þannig hef ég alltaf skrifað blaðaefni meðfram, enda með svipaða ástríðu í að skrifa fyrir blöð eins og að skrifa bækur. Í hjónabandi með seinni manni bjuggum við í níu ár í útlöndum, meðal annars til að hafa efni á að lifa á skrifum, en fyrrverandi maðurinn minn var líka rithöfundur. Stundum gekk vel, stundum ekki, og við vorum oft skítblönk.

Þessi desembermánuður hefur verið skrýtinn. Í byrjun mánaðarins var mér tilkynnt að World literature today hefði valið Stóra skjálfta eina af athyglisverðustu skáldsögunum sem komu út á ensku í ár. Fólkið þar veit ekkert um afa minn. Í sömu viku missti ég leiguíbúðina mína og þurfti að finna nýtt heimili fyrir mig og son minn á nokkrum dögum og lífið minnti mig á að það að lifa á skrifum er hark. Næstu fréttir voru að Stóri skjálfti væri að koma út í viðhafnarútgáfu hjá einu stærsta forlagi heims í Þýskalandi, Austurríki og Sviss, þriðja bókin sem kemur út af þýsku og hefur heldur ekkert að gera með afa minn sem dó árið 1998.

Á sama tíma var ég að ganga frá bókablaðinu hjá Stundinni, fjórum bókablöðum sem ég tók að mér að gera því mig langaði að sýna fram á að það væri ennþá hægt að gera bókablað, smá í anda blaða í Skandinavíu eða Þýskalandi, þar sem er aðeins brugðið á leik, en ég hef í nokkur ár talað fyrir að slíkan vettvang skorti hér.

Ég reyndi að hafa öll forsíðuviðtölin í blaðinu einhver konar konsept. Eitt átti að vera um skáldsöguna, eitt um ljóð, eitt um myndræna bók, eitt um glæpaformið. Greinarnar í blaðinu áttu allar að lýsa upp breytingar í útgáfu, nú sem þá, bókmenntaheiminum jafnt sem útgáfuheiminum og vekja áhuga almennings á þessum heimi, gefa innsýn í hann. Frekar en að hafa persónuleg kynningarviðtöl við höfunda, eins og venjan er.

Ég fékk Kamillu Einarsdóttur til að skrifa pistla af tveimur ástæðum. Af því hún er óvenju fyndin og því hún er höfundur sem er ekki að gefa út í ár en hefur, sem bókavörður og rithöfundur, innsýn í útgáfu og bækur, en tilgangurinn með pistlinum var að hún gæti nefnt sem flesta höfunda og bækur, út af því að aðeins brot útgáfunnar kemst í gagnrýni í svona blaði. Blaðið var gert eldhratt, án undirbúnings af ráði og bara talan 682 bækur gera mann pínu ringlaðan, það er ekki séns að öðlast fullkomna yfirsýn yfir útgáfuna á örfáum vikum.

Ég hafði engin afskipti af ritdómum, það er prinsipp, enda er ég sjálf rithöfundur. Ég bara reyndi að fá fagfólk til að dæma og lagði mig fram um að hafa þær raddir margar og misjafnar, enda fer líka eftir áhuga ritdómara hvað er dæmt. En ég tók þessi fjögur konsept viðtöl, sem áttu að vera artí verk í sjálfu sér, og skrifaði eina grein um menningarauðmagn, og tvær um breytingar í útgáfu; eina í viðtalsformi við bræður sem eru aldir upp í útgáfu og hafa starfað við útgáfu, en hin snerist um endurgreiðslurnar verusus hljóðbókavæðingu og hvernig hvoru tveggja er að hafa áhrif á tekjur rithöfunda. En það finnst mér sérlega mikilvægt að sá fjallað um.

Nýr höfundur, sem hafði þá ekki ennþá fengið dóm, sem þó var þá þegar í vinnslu, gagnrýndi mig þá fyrir að ritstýra forréttindablaði, þar sem ég væri barnabarn afa míns. Auk þess væri Kamilla, dóttir Einars Kárasonar, væri að skrifa í það, en við værum kúltúrbörn, forréttindabörn. Með Kamillu veit ég að hún er þriggja barna sjálfstæð móðir og starfandi bókavörður sem byrjaði að skrifa um fertugt þegar bókaforlag fór þess á leit við hana, en ástæðan var aldrei pabbi hennar, heldur það að hún hafði vakið mikla athygli fyrir að vera óvenju fyndinn penni á twitter. En það hefur lengi tíðkast að skapandi útgefendur pikki í fólk sem þeim finnst sniðugt að hvetja til að skrifa bók. Útgefandi hennar hafði reyndar gert það í þó nokkur skipti, pikkað í ólíklegasta fólk.

En í þessu bloggi, og í útvarpsviðtali í Lestinni, þar sem ég mætti Eiríki Erni, útmálaði hann okkur Kamillu sem einhvers konar Bjarna Ben bókamenningarinnar, eins og eina ástæðan fyrir skrifum okkar væri ætterni okkar. Skyndilega sat ég, kona sem verður fimmtug á næsta ár, að svara andmóð fyrir hvernig ég fékk fyrsta útgáfusamninginn minn fyrir fjórðungi úr öld síðan.

Til að styrkja málflutning sinn málaði hann unga höfundinn sem hafði bloggað um okkur upp sem fíkniefnaneytanda á leigumarkaði sem ætti erfitt uppdráttar. Í ljós kom að konan er öflugur forritari með rekstur við að aðstoða fyrirtæki með textagerð, búin að vera edrú lengi og kærasta eins kröftugasta rithöfundar þjóðarinnar. Auk þess var hún þá búin að fá eins marga dóma og Ólafur Jóhann og búin að vera í Kiljunni, og útskrifuð úr ritlist við Háskóla Íslands. Í viðtalinu kom þetta hins vegar út eins og ég, spillti nóbelserfinginn væri að hamast á brotinni konu sem kæmist ekki að út af fólki eins og mér.

Þess ber að geta að Eiríkur Örn gaf út bók 26 ára, auk þess að hafa ungur tekið sér pláss með bloggi, þrungnu gildishlöðnu áliti á bókmenntum og kollegum sínum, og raunar síðar með því að ritstýra sjálfur menningarmiðli, Starafugli, og hafa lengi tilheyrt fyrirferðarmikilli hreyfingu í bókalífinu sem kallaðist Nýhil. Hann var þarna því að konan sem hafði gagnrýnt mig treysti sér ekki til að mæta mér, svo hann var mættur, gamall vinur kærasta hennar, Steinars Braga. Hann yfirheyrði mig í viðtalinu eins og spilltan viðskiptajöfur, já, eins og ég væri loddarinn og svindlarinn sem ég hef alla ævi verið stöðugt að reyna að telja mér trú um að ég sé ekki, þó að ég skrifi og gefi út. Og jú, hafi gefið út bækur á níu tungumálum og leikrit og bíómyndir verið byggðar á þeim.

Nefnilega: Konan sem fær útgefið af því að afi hennar hét Halldór Laxness. Ekki af því að hún getur skrifað. Konan sem fær útgefið út á karlmanninn, afa sinn. Menningarauðmagn hans. Feita Salka Valka með áskrift á tilnefningar, eins og einn jafnaldra karlkyns kollegi minn uppnefndi mig í bók þegar ég var töluvert yngri. Og speglaði þannig upplifun mína af sjálfri mér, eftir að hafa hlustað á þessa sömu plötu aftur og aftur og aftur, síðan ég var 24 ára. Að þykjast vera af sinn! Að skrifa af því hún er svo upptekin af honum. Að nýta sér ætternið til að svindla á öðrum.

Ég hef stundum tekið þátt í panelum hér heima og í útlöndum og rætt um Halldór Laxness, afsprengi síðustu aldar, eins og hver annar fræðingur. En ég geri það eins og smá rispuð plata og oft með smá óþoli, tala um það sem fólk hefur áhuga á að vita en held því algjörlega frá mínum verkum. Um daginn var ég á bókmenntahátíð í Kanada og allir höfundar voru fengnir til að tala um aðra bók en sína, og auðvitað var ég beðin um að tala um Sjálfstætt fólk. Eins á bókmenntahátíð í Tékklandi í sumar, þar barst hann í tal, en þar hef ég ekki gefið út bækur og bókmenntahátíðin var í og með Íslandskynning. Annars slepp ég yfirleitt við að tala um hann í útlöndum, þar sem fólk veit oft ekki einu sinni hver hann er.

Við getum talað um kúltúrbörn. Og menningarauðmagn. En ef það á að tala í félagslegum greiningum, þá má ekki útiloka að veruleikinn einskorðast ekki við greiningu. Ef ég nota greiningartæki á líf mitt þá jú, auðvitað, ég bjó ung að menningarauðmagni sem var um margt sérstakt, og það nýttist mér helst þannig að mér fannst sjálfsagt að lesa og skrifa og síðar meir banka upp á í forlagi, en ég átti líka mjög truflaða og flókna æsku. Ef ég skoða þessa löngu liðnu mig með gleraugum tilfinningalegrar stéttaskiptingar, þá var ég bara grey sem átti ekki þá innistæðu í mér sem þarf til hvíla í sér. Þetta grey skrifaði til að finna að það ætti sér tilverurétt, svo urðu skrifin eins konar veruleiki.

Ég hef upplifað allskonar umræður og gagnrýni á 25 ára ferli. En þetta, með afa minn, það er komið nóg af því. Og það að hafa lesið í fjórum fjölmiðlum fyrir jól að ég hafi haft umsjón með forréttindablaði út af ætterni mínu jaðrar við að vera ærumeiðingar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu