Hjón á fimmtugsaldri sem búa í Fellahverfinu í Breiðholti voru árið 2019 ákærð fyrir stórfellt peningaþvætti. Var þeim gefið að sök að hafa á fjögurra ára tímabili „tekið við, nýtt, umbreytt eða aflað sér ávinnings af refsiverðum brotum allt að fjárhæð 60.251.867 krónur,“ eins og segir í ákæru.
Rannsókn lögreglu á fjármunum hjónanna sýndi fram á rekjanlegar tekjur þeirra á tímabilinu upp á tæplega 38 milljónir króna en rekjanleg útgjöld, innistæður og haldlagt reiðufé nema hátt í 100 milljónum króna.
Neikvæður lífeyrir hjónanna er reiknaður yfir 60 milljónir króna og tókst þeim ekki að gera grein fyrir því hvernig þau hafa getað aflað þess fjár sem út af stendur í þessum útreikningum. Maðurinn sagðist hafa aflað fjárins í spilakössum. Hann var handtekinn árið 2017 fyrir hlutdeild í stóru fíkniefnamáli. Við húsleit fundust umtalsverðir fjármunir í peningaseðlum, bæði íslenskum krónum og evrum – svo nemur milljónum.
Sumarið 2020 voru hjónin sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir peningaþvætti. Maðurinn var dæmdur í 8 mánaða fangelsi og konan í 3ja mánaða.
Síðastliðinn föstudag sneri Landsréttur við þessum dómi og sýknaði hjónin. Var það mat Landsréttar að ákæra héraðssaksónara sé gölluð og valdi því að vísa þurfi málinu frá dómi.
Í dómi héraðsdóms voru ekki færðar sönnur á hvernig hjónin öfluðu milljónanna 60 sem standa út af borðinu. Þau héldu sig við spilakassasöguna en rannsókn á meintum fíkniefnabrotum mannsins, þar sem héraðssaksóknari telur fjármunanna hafa verið aflað, er ólokið og óvíst hvort það mál verið nokkurn tíma leyst.
Dóm Héraðsdóms og Landsréttar má lesa hér