Í Miðborginni voru tveir eftirlýstir aðilar handteknir. Annar þeirra reyndi fyrir sér í spretthlaupi við lögreglumenn en eins og segir í tilkynningu lögreglunnar þá varð hann að láta í minni pokann fyrir þrautþjálfuðum laganna vörðum.
Lögreglan hafði afskipti af fimm manns á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt vegna fíkniefnamála. Að auki var húsleit gerð í Kópavogi vegna gruns um að fíkniefni væru ræktuð í húsinu. Svo reyndist vera og var hald lagt á fíkniefni og búnað til ræktunar. Einn var handtekinn vegna málsins og vistaður í fangageymslu.
Innbrotsþjófur var staðinn að verki og handtekinn í fyrirtæki í austurborginni skömmu eftir miðnætti. Hann hafði spennt upp glugga og komist inn. Hann er nú í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.
Eldur kom upp í bifreið í Hafnarfirði í nótt. Annar bíll skemmdist einnig af völdum eldsins. Ekki er vitað hver eldsupptökin voru.
Einn nefbrotnaði í átökum í Kópavogi undir morgun. Hann var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið en nefbrjóturinn var handtekinn og er nú í fangageymslu og bíður þess að vera yfirheyrður.