Bragi Austfjörð er að leita sér að íbúð til leigu en auglýsingin hans hefur vakið mikla athygli enda er hún heldur óhefðbundin.
Í Facebookhópnum Leiga auglýsir Bragi eftir 2ja til 4ra herbergja íbúð á Akureyri eða Reykjavík og tekur hann fram að greiðslugeta sé allt að 350 þúsund krónur.
En síðan kveður við nýjan tón í leiguauglýsingum, því Bragi setur fram ákveðnar kröfur sem hann ætlast til að leigusali uppfylli:
„Leigusali verður að koma með meðmæli frá fyrri leigjendum.
Leigusali verður að staðfesta það að íbúðin sé ekki að fara í þrot.
Fer fram á að leigusali sanni það hann/hún sé ekki á sakaskrá.
Ég reyki ekki sígarettur og nota ekki veip, ég drekk ekki áfengi né nota fíkniefni/læknadóp og ég ætlast til þess að leigusalinn noti hvorki áfengi né fíkniefni og helst sé líka reyklaus, sérstaklega ef leigusalinn býr í sama húsi,“ segir meðal annars í auglýsingunni.
Bragi segist geta veitt 3ja mánaða tryggingu hvort sem það er bankaábyrgð eða í peningum.
„Ef gæludýr eru ekki leyfð þá mun ég ekki samþykkja 3ja mánaða tryggingu né bankaábyrgð heldur mun ég samþykkja eins ( 1 ) mánaðar tryggingu í peningum og leigusali skal kvitta upp á skuldabréf og leigusali útvegar ábyrgðarmann enda vill ég tryggja það að ég fái peninginn minn til baka (skuldarbréf gildir fyrir bæði hvort sem það verður 3ja mánaða tryggingu eða eins mánaða tryggingu,“ skrifar Bragi.
Og hann er með fleiri kröfur: „Leigusali skal tryggja það að íbúðin sé tandurhrein og nýmáluð áður en ég leigi íbúðina, engar skemmdir né skal íbúðin vera með neinskonar myglu.
Vinsamlegast sendið mér PM með verð og myndir og ef mér líst vel á þá er ég til í setjast niður og ræða málin nánar,“ skrifar hann að lokum.
Þegar þessar línur eru ritaðar er auglýsingin komin með á sjötta hundrað „læk.“ Fjölmargir skrifa við auglýsinguna að hún sé „snilld“ og deila frásögnum af hræðilegum leigusölum en aðrir eru ósammála og segja eðilegt að leigusalar séu kröfuharðir því þeir séu að afhenda verðmætar eignir sínar til afnota. Bragi svarar því til að eðlilegt sé að gera kröfur á móti.
Sjá einnig: Leigusalar orðnir að klerkastétt – Hvetja til að taka rafmagnið af ef leigjandi stendur ekki í skilum
Málefni leigjenda hafa verið áberandi að undanförnu og hafa Samtök leigjenda á Íslandi haft sig mikið frammi varðandi réttindi leigjenda, bent á hvernig leigusalar eru í valdastöðu gagnvart fólki í leit að íbúð til leigu og setja oft fram mjög íþyngjandi kröfur til leigjenda sinna.
Spurður hvort hér sé á ferðinni einhvers konar leiguaktívismi eða hvort Bragi sé í raun að leita sér að íbúð segir hann hvoru tveggja eiga við.
„Þetta er ekkert grín. Ég er að leita mér að íbúð og þetta eru mínar kröfur. Ég er edrú til átta ára og vil fá leigusala sem er ekki í neinu rugli eða kemur illa fram við fólk. Mér finnst líka sanngjarnt að þegar leigusali biður um hreint sakavottorð þá fái ég að vita hvort íbúðin sé mögulega að fara í þrot,“ segir hann.
„Í gegn um tíðina hefur mér fundist fólk sem er að leigja vera svo undirgefið og þora ekki að biðja um meðmæli og slíkt. Ég hef sjálfur lent í slæmum leigusala þar sem ég hef ekki fengið trygginguna til baka án þess að nokkuð hafi verið að. Mér fannst tími til kominn að breyta þessu, að leigjendur geri kröfur til leigusala,“ segir hann.