Sumarið 2022 verður ferðasumarið mikla miðað við bókunarstöðuna hjá helstu hótelkeðjum landsins. Morgunblaðið fjallar í dag um hversu mikið er búið að bóka af hótelherbergjum hér á landi fyrir sumarið og sömuleiðis sé skortur á bílaleigubílum yfir háannatímann. Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem var þegar kórónuveiran geisaði.
„Það lítur allt mjög vel út fyrir sumarið. Það er víðast hvar orðið meira og minna uppselt hjá okkur yfir háönnina,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, í samtali við Morgunblaðið en Íslandshótel reka 17 hótel um allt land. Hann segir ennfremur að 90% bókana séu frá erlendum ferðamönnum og nú sé ekki lengur svigrúm fyrir tilboðspakka fyrir Íslendinga eins og síðustu tvö sumur.
Unnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar GoNorth, sem sérhæfir sig í pakkaferðum fyrir útlendinga, segir að sumarið verði það stærsta í sögu fyrirtækisins sem stofnað var árið 2010. „Það er allt að verða fullbókað. Gisting á mörgum svæðum er alveg búin í júní, júlí og ágúst og það er verulegur skortur á bílaleigubílum frá því í maí og fram til ágústloka,“ segir Unnur.
Þá segir forstjóri bílaleigunnar Herz við Morgunblaðið að það sé búið að bóka Meira en árið 2019, sumsé fyrir kórónuveirufaraldurinn.