Lögreglumenn höfðu tvisvar sinnum afskipti af 16 ára dreng með sama litarhaft og strokufanginn Gabríel Douane Boama á meðan leitað var að honum. Móðir drengins segir að um „racial profiling“ sé að ræða en það er þegar lögreglan beinir athygli sinni að fólki af ákveðnum kynþætti þegar hún er að rannsaka mál. „Þetta er ekkert annað en „racial profiling“ á 16 ára barn sem ég er að reyna að róa niður vegna atviks gærdagsins,“ sagði hún er lögreglumennirnir mættu í annað skipti að kanna hvort sonur hennar væri strokufanginn.
Mikið hefur verið talað um rasisma innan lögreglunnar vegna þessa en Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, vill meina að ekki sé um rasisma að ræða. Þetta kemur fram í athugasemd sem Brynjar skrifar undir spurningu um málið sem hann fékk á Facebook frá Heiðu nokkurri.
„Ef þú og dómsmálaráðherra eruð ekki of uppteknir við þyrluflug þá væri kannski sniðugt að þið mynduð sjóða saman smá texta um alvarleika þess að lögregluembættið skuli hafa mætt í fullum skrúða í tvígang til að handtaka 16 ára ungling sem hafði ekkert gert af sér annað en að vera brúnn (þessi svarti þarna?) og með „dreadlocks“. Þurfa allir ungir brúnir menn og strákar að vera heima hjá sér þangað til löggan hefur fundið manninn sem þeir töpuðu?“ segir Heiða.
Brynjar svarar spurningunni og segir meðal annars í henni að rauðhærðir og skeggjaðir lendi oft í því sama og 16 ára drengurinn lenti í. „Það er nú þannig, Heiða mín, að þegar lögregla er að leita að eftirlýstum mönnum fær hún ábendingar, sem hún auðvitað verður að kanna,“ segir Brynjar.
„Það er ekki nýtt að slíkar ábendingar reynist rangar og má segja að slíkt gerist í öllum svona málum. Rauðhærðir og skeggjaðir lenda oft í þessu veseni. Menn þurfa að vera sérkennilega innréttaðir til að sjá rasisma í þessu máli, og jafnvel plebbalegir.“