fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Hurð skall nærri hælum er bílar urðu fyrir snjóflóðum í gær – 14 létust fyrir réttum 27 árum

Heimir Hannesson, Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 17. janúar 2022 08:00

Mynd/aðsend Jónþór Eiríksson, Þorsteinn Haukur Þorsteinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi, að því er virðist í nokkru snarhasti, eftir að fjöldi snjóflóða höfðu fallið úr hlíðinni. Nokkur þeirra náðu yfir veginn að sögn vegfarenda sem deilt hafa upplifun sinni á samfélagsmiðlum. Vegagerðin hafði áður gefið út að veginum yrði lokað klukkan tíu í gærkvöldi, en rétt eftir níu tilkynnti lögreglan að veginum hefði þegar verið lokað vegna flóðanna og hættu á frekari ofanflóðum.

„Rétt fyrir klukkan hálf sjö í kvöld keyrðum við í gegnum snjóflóð á Súðavíkurhlíðinni. Við sáum flóðið svo seint að það þýddi lítið að reyna að bremsa svo Raggi gaf í og við náðum með herkjum að komast í gegnum flóðið á stórum jeppa,“ skrifar Svanhildur Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur, söngkona og Vestfirðingur um upplifun hennar og Ragnars Inga Kristjánssonar eiginmanns hennar í gær. Færslan er birt með hennar leyfi. „Ég hringdi strax í Vegagerðina og sagði þeim frá flóðinu,“ skrifar Svanhildur áfram og gagnrýnir að ekki hafi verið brugðist við fyrr. Í samtali við DV segist hún vita til þess að fleiri hafi lent í vandræðum eftir að hún tilkynnti um flóðið.

Svanhildur segir núverandi vegstæði óviðunandi, og er ekki ein um það sjónarmið.

Jónþór Eiríksson lýsti því í færslu í gærkvöldi hvernig bíll sem festist í snjóflóðinu hafði setið fastur og halarófa myndast aftan við hann þar sem ökumenn biðu „í von um að annað flóð væri ekki á leiðinni.“ „Þetta er óviðunandi ástand,“ bætir Jónþór við í færslunni sem hafði verið deilt mörg hundruð sinnum þegar þetta er skrifað.

Íþróttahúsið varð að fjöldahjálparstöð

Töluverðar umræður sköpuðust þá meðal íbúa á norðanverðum Vestfjörðum um hugmyndir um svokölluð Álftafjarðargöng, úr Álftafirði yfir í Skutulsfjörð sem myndu þá leysa veginn um Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð af.

Þá hefur DV heimildir fyrir því að þó nokkrir hafi orðið strand í Súðavík og var íþróttahúsinu breytt í fjöldahjálparstöð. Neðangreinda mynd tók Þorsteinn Haukur Þorsteinsson og er hún birt með hans leyfi. Þegar DV náði tali af Þorsteini í gærkvöldi var hann í óða önn að „koma krökkunum í ró,“ eins og hann orðaði það, og vísaði þar til hóps barna sem urðu að láta sér gestrisni Þorsteins og félaga í Súðavík nægja vegna veðursins. Gestrisni Súðvíkinga er blessunarlega rómuð og opnuðu bæjarbúar meðal annars kjörbúð bæjarins fyrir fasta ferðalanga í gærkvöldi.

„27 árum seinna“

„27 ár upp á dag frá mannskæðu snjóflóði í Súðavík. 14 mannslíf horfin, börn, fullorðnir, nágrannar, frænkur, frændur, vinir, ör á sálinni fyrir þá sem eftir sitja. 27 árum seinna er þetta það sem eftirlifendur og aðrir Vestfirðingar þurfa að búa við, óttinn við fjallið, eins og blaut tuska í andlitið. Við getum gert svo miklu betur en þetta,“ skrifar ein sem deilir áðurnefndri færslu Jónþórs.

Fjórtán létust í snjóflóði í Súðavík sem féll þann 16. janúar 1995, fyrir réttum 27 árum í gær. Af þeim látnu voru átta börn. Átján íbúðarhús urðu flóðinu að bráð. Tólf björguðust úr snjónum, sá síðasti var 12 ára drengur sem hafði þá legið undir snjófarginu í 23 klukkustundir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Í gær

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv