fbpx
Laugardagur 08.maí 2021
Fréttir

Einbýlishúsakaup á Akranesi breyttust í martröð – Saurmaurar, ónýtt skolp og mygla kostuðu milljónir

Heimir Hannesson
Laugardaginn 10. apríl 2021 13:00

mynd/GVA Samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Vesturlands kvað í gær upp úrskurð í máli seljanda fasteignar á Akranesi gegn kaupendum fasteignarinnar. Málið varðaði milljón sem kaupendurnir neituðu að greiða vegna galla sem þau urðu áskynja eftir að þau fluttu inn í eignina.

Í maí 2018 seldi konan parinu tæplega 200 fermetra einbýlishús á Akranesi. Húsið var nýlegt eða nýuppgert, bílskúrinn byggður 1998 og efri hæð hússins hafði öll verið standsett árið 2004. Þá voru ofnalagnir endurnýjaðar auk þaks. Í söluyfirliti með fasteigninni kom fram að gallar væru á gleri og ryðblettir komnir fram í þakjárni meðfram þakboltum.

Húsið seldist á 51 milljón króna og voru 50 milljónir greiddar þegar kaupendurnir urðu varir við gríðarlega ógeðfelldan galla á eigninni. Fólkið neitaði að afhenda konunni milljónina og höfðaði konan loks mál gegn kaupendunum að eign sinni.

Fljótlega eftir að fólkið flutti inn í eignina urðu þau þess vör að vatn úr sturtunni fyllti vaskinn í þvottahúsinu. Að auki hafi niðurfallið í eldhúsinu stíflast og ekki var hægt að sturta niður klósettinu á efri hæðinni.  Píparar sem áttu að koma og skoða ástand frárennslislagnanna komust ekki fyrr en að nokkrum vikum liðnum, en urðu þess þá strax áskynja, að ekki væri allt með felldu. „Skólplögnin hafi reynst vera fallin saman og myndavélin því ekki náð að mynda nema örfáa metra inn í lögnina. Það sem þó hafi náðst á mynd hafi litið mjög illa út.“

Fólkið hafði samband við fasteignasalann sem áframsendi erindið á seljandann. Seljandinn bauð þeim hálfa milljón í afslátt af kaupverðinu, en það reyndist ekki nóg. Fólkið vildi meira.

Er því lýst í dómnum að kaupendurnir hafi orðið þess vör að húsið fylltist reglulega af „einhvers konar skordýrum.“ Skordýr þessi reyndust vera saurmaurar og taðflugur sem komu inn í húsið í gegnum sprungur frá ónýtu skolplögninni í grunni hússins. Pípulagningameistarinn mat tjónið á margar fleiri milljónir.

Þar sem ekkert heyrðist frá seljandanum afréð parið að fá til sín húsasmíðameistara til þess að meta tjónið í heild sinni. Komu þá í ljós viðamiklir gallar á frágangi á þaki, sem eiginmaður seljandans hafði „lagfært,“ eins og það er orðað í dómnum. Þá var mikill raki í botnplötu sem rekja mátti til lekra skolplagna. Þá virtist vera kominn mygla í þaki bílskúrs.

Kaupendurnir buðu seljandanum þá sátt, að hún félli frá málinu og gerði við þá galla sem höfðu fundist gegn því að kaupendurnir myndu ekki leita frekari greiðslna frá henni. Þessari sáttaumleitun var hafnað.

Undir rekstri málsins var matsmaður dómkvaddur og fyrir hann lagt 17 spurningar. Í svörum matsmannsins kom fram að frárennsli hússins væri áfátt og að skólp ætti leið inn í fyllingu undir botnplötu. Taldi hann að brjóta þyrfti upp botnplötuna í eldhúsi, þvottahúsi, forstofu, anddyri og gestabaðherbergi til þess að komast í sýktan hluta fyllingarinnar undir botnplötu og laga ónýtar frárennslislagnir.

Þá kom fram í mati matsmannsins að saurmaurar, taðflugur og önnur meindýr vegna skolplekans í húsgrunninum væri að finna í húsinu og mat kostnaðinn við eitrun vera rúmar tvö hundruð þúsund krónur.

Matsmaðurinn tók ekki undir mat fyrri húsasmíðameistara sem kom að málinu um að myglu væri að finna í húsinu, en engu að síður voru miklir gallar á frágangi á þaki og raki þar tekinn að myndast. Þá var víðar ryð að finna á þakjárni en meðfram þakboltum, gólfhalli reyndist vera í eldhúsi hússins og mældist mesti munur 2,8 cm.

Að lokum mat matsmaður það óforsvaranlegt að búið væri í húsinu á meðan viðgerðir færu fram. Í heild var viðgerðarkostnaðurinn metinn á rétt tæpar 7,7 milljónir króna.

Í ljósi gríðarlegu galla í málinu stefndu kaupendurnir konunni og kröfðust að hún greiddi þeim umrædda upphæð í bætur vegna leyndra galla á fasteigninni. Seljandinn þvertók fyrir það að hafa orðið þess áskynja að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera í húsinu. Hún sagðist aldrei hafa orðið vör við saurmaura eða taðflugur í húsinu og mótmælti því að hún hafi leynt með saknæmum hætti göllum á húsinu.

Dómari komst að lokum að þeirri niðurstöðu að seljandi skyldi bera kostnað af viðgerðum er vörðuðu tjón vegna gallaðrar skolplagnar, eitrunar vegna saurmaura og taðflugna, lélegs frágangs á einangrun þaks, hás rakastigs í botnplötu vegna skolplekans auk annarra smærri atriða.

Seljandinn þarf því að greiða kaupendunum 4.847.871 króna auk vaxta frá 2018. Til frádráttar kemur svo milljónin sem kaupendurnir héldu eftir. Að auki þarf seljandinn að greiða fjórar milljónir í málskostnað.

Reikningur seljandans vegna dómsmálsins hljóðar þannig upp á um átta milljónir, og munar svo sannarlega um minna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Greiningargeta á kórónuveirusýnum nálgast þolmörk

Greiningargeta á kórónuveirusýnum nálgast þolmörk
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Aukning á atvinnuþátttöku gæti orðið hröð í sumar

Aukning á atvinnuþátttöku gæti orðið hröð í sumar
Fréttir
Í gær

Vantar betri búnað til að takast á við gróðurelda og þörf á aukinni menntun slökkviliðsmanna

Vantar betri búnað til að takast á við gróðurelda og þörf á aukinni menntun slökkviliðsmanna
Fréttir
Í gær

Mjög þurrt í höfuðborginni það sem af er ári

Mjög þurrt í höfuðborginni það sem af er ári