fbpx
Föstudagur 26.nóvember 2021
Fréttir

Foreldrar og starfsfólk vöknuðu upp við vondan draum – Drengur sem varð fyrir einelti fær stuðning úr öllum áttum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 12. október 2021 14:30

Frá Akureyri. Mynd: Auðunn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum eiginlega bara að verða of vandræðaleg í allri þessari athygli,“ segir Jónheiður Pálmey Halldórsdóttir – Jóna Palla – móðir 8 ára drengs sem hefur orðið fyrir ofbeldi og einelti á Akureyri undanfarið, fyrst og fremst í frístundaheimili skólans sem hann sækir.

Algjör viðsnúningur hefur orðið í málinu eftir að Jóna birti FB-færslu um það fyrir helgi og frétt DV um málið á mánudagsmorgun vakti ennfremur mikla athygli. Í fréttinni sagði:

„Því miður hefur það verið algengt að jafnaldrar hans skrifi ljót skilaboð af þessu tagi á blöð og færi honum. Á þetta athæfi sér aðallega stað á frístundaheimili í skólanum eftir að kennslu lýkur. Móðirin vakti athygli á ástandinu á Facebook rétt fyrir helgi, skrif hennar hafa vakið mikla athygli og svo jákvæð viðbrögð að hún vonar að ástandið batni. Margir hafi vaknað upp við vondan draum þegar þeim var gert ljóst hvað væri í gangi. Ofbeldið gegn drengnum er ekki bara í formi þessara ljótu skilaboða heldur er hann líka beittur líkamlegu ofbeldi af jafnöldrum sínum. Í færslunni segir Jóna Palla meðal annars:

„Eftir að hafa leitað upplýsinga þá er þetta blað eitt af ótalmörgum sem honum er afhent á skólatíma af bekkjarfélögum.

Eftir að hafa grafist meira fyrir þá kemur í ljós að honum er ekki bara strítt eða hann kallaður allskyns uppnefni heldur er hann líka tuskaður til.

Ástæða þess að þetta ratar til mín fyrst núna er að barn í bekknum hans gat ekki lengur horft á ofbeldið og tók miðann af honum og fór með hann til mömmu sinnar sem hafði samband við mig.“

Jóna Palla segir að drengurinn hafi ekki áttað sig á afleiðingum og alvarleika gjörða sinna fyrr en eftir að hún hafði hringt í foreldra hans og þau rætt við hann. Hún er afar þakklát barninu sem fór með miðann ljóta heim til móður sinnar, sem síðan hringdi til Jónu Pöllu. Hún skrifar jafnframt á Facebook:

„Það að 8 ára barn hafi þennan dag fengið nóg og farið og sagt mömmu sinni frá fær mig til að hugsa um hvar allt fullorðna fólkið var í allan þennan tíma?““

Þá segir enn fremur frá því að sonur Jónu tali sérkennilegt mál og sé um margt einstakur í háttum, en það geri hann að skotmarki:

„Sonur Jónu Pöllu á króatískan föður sem deilir forræði með henni. Drengurinn talar þrjú tungumál, íslensku, króatísku og ensku, það síðastnefnda vegna þess að faðir hans talar ensku í samskiptum sínum við aðra en þá sem eru Króatar. Íslenska drengsins er sérstæð, sem auk fullorðinslegrar framkomu gerir hann óvenjulegan í háttum og þar með að skotmarki:

„Hann gengur oft með hendur fyrir aftan bak og segir stundum „látum okkur nú sjá“ þegar hann er spurður að einhverju. Hann segir „mannfólk“ en ekki fólk og er bara með sérstakan og krúttlegan orðaforða, svolítið eins og gamall karl, krakkarnir skynja að hann er spes og þar með verður hann að skotmarki,“ segir Jóna Palla í samtali við DV.“

Gjafir, stuðningsyfirlýsingar og vinátta

Þegar DV ræddi við Jónu um málið á sunnudagskvöld hafði þegar átt sér stað jákvæð þróun sem gaf henni vonir um að ofbeldinu myndi linna. Þær vonir virðast hafa ræst í gær. Starfsfólk skólans hefur tekið við sér, foreldrar hafa blandað sér í málið og stuðningsyfirlýsingum og gjöfum rignir yfir son Jónu. Hún fór yfir málið í FB-færslu í gær og segir því lokið af sinni hálfu. Þar kemur fram að skólinn sé að taka á málinu og börn og foreldrar hafi sýnt kærleika:

„Alveg ótrúlegt

Í fyrradag bárust Leon bíómiðar. Þá komu hér yndisleg hjón sem vildu gleðja hann..

Honum hafa borist ótal kveðjur, talskilaboð, símtöl og æðislega falleg teikning frá skólasystur, allskonar gjafir, dót og boð í leikjasal og út að borða og ekki síst öll hvatningin í þessu öllu!

Skólinn er að vinna með málið og hefur kennarinn hans verið í sambandi nokkrum sinnum nú síðan á fimmtudag

Nýir krakkar allt í kring sem sýna honum áhuga

Mig langar að þakka fyrir þetta allt en finnst ég verða að koma á framfæri að Leon er nú með fullt fang gjafa og varla getur tekið á móti fleiru

Við erum eiginlega bara að verða of vandræðaleg í allri þessari athygli

Þetta verður síðasta færslan mín um þetta mál. Markmið eru að nást og þessu gleymum við aldrei og erum full þakklætis

Hann er svo sannarlega ekki einn“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrum borgarstjóri hjólar í Dag borgarstjóra – „Millj­arðasóun, spill­ing og skemmd­ar­verk Dags“

Fyrrum borgarstjóri hjólar í Dag borgarstjóra – „Millj­arðasóun, spill­ing og skemmd­ar­verk Dags“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán lýsir skelfingarástandi á Hrafnistu – Forstjórinn segir það versta að baki – „Þvílík handarbakavinnubrögð“

Stefán lýsir skelfingarástandi á Hrafnistu – Forstjórinn segir það versta að baki – „Þvílík handarbakavinnubrögð“