Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, var sakaður um kvenfyrirlitningu fyrir rúmu ári síðan. Málið var dregið upp af Mannlífi í gær en Benedikt birti í kjölfarið færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann útskýrði málið.
Í færslunni segir Benedikt fyrirsögn og innhald fréttarinnar sem Mannlíf birti ekki draga rétta mynd af málinu. „Ég sé mig tilneyddan til að fara yfir það hér þar sem blaðamaðurinn orðar fréttina þannig að það er auðvelt að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur,“ segir hann.
Benedikt útskýrir þá hvernig málið hófst. „Fyrir ekki svo löngu síðan byrjaði ég á Instagram. Þar hef ég sett inn myndir eins og gengur og gerist og svo er hægt að setja inn allskonar í svokallað story. Þegar Covid skall á af hörku og maður var innilokaður heima að drepast úr leiðindum fór ég að sjá myndir sem kallast memes og eru svona hálfgerðir brandarar. Miðaldra ég vissi fyrst ekkert hvað þetta var en fór að sjá þetta á hinum ýmsu miðlum og fá svona sent.“
Þjálfarinn segir að þetta hafi létt honum lundina og því hafi hann ákveðið að áframsenda efnið á ákveðinn hóp af fólki. „Síðan Covid skall á hef ég sent ca 300 memes. Flest voru tengd Covid, einhver voru skot á sjálfan mig, einhver skot á karlmenn, einhver skot á konur og önnur skot á hitt og þetta. Ekkert af þeim átti að vera móðgandi né sýndi hold á hvorki karl- eða kvenmanni. Markmiðið var bara að áframsenda húmor og létta fólki lundina,“ segir hann.
Benedikt fékk á einum tímapunkti skilaboð frá fyrirliða kvennalandsliðsins en skilaboðin innihéldu meðal annars 7-8 myndir sem Benedikt hafði sett á samfélagsmiðilinn sinn. „Hún hafði fengið þetta sent sjálf og þá var búið að sjóða þessi 7-8 memes saman. Þegar búið var að sjóða þau öll saman var skiljanlegt að fyrirliðinn hefði áhyggjur, meðal annars af því hvort ég væri haldinn kvenfyrirlitningu og stundaði það að skjóta á konur í frítíma mínum,“ segir hann.
„Það sem var verst var að 1-2 voru á gráu svæði að mínu mati en ég hafði aldrei séð þau áður. Samt var eins og ég hefði sent þau frá mér. Það var hrikaleg upplifun að sjá eitthvað, sem ég vissi að ég myndi aldrei senda frá mér en samt eins og ég hefði sent það. Ég var farinn að efast um sjálfan mig og farinn að velta fyrir mér hvort ég væri búinn að tapa glórunni.“
Benedikt ákvað í kjölfarið að fara með málið til lögreglunnar. „Sem betur fer stóð ég með sjálfum mér, efaðist ekki um sjálfan mig og leitaði til lögreglunar. Það kom síðan í ljós einhver hafði lagt það á sig að falsa í mínu nafni. Ég get ekki lýst því hversu mikil vonbrigði það voru að komast að því. Að einhver leggi slíkt á sig til að koma höggi á mann brýtur mann niður,“ segir hann í færslunni.
„Eftir mörg ár í mínum bransa hefur maður þurft að taka marga slagi og verið umdeildur að sama skapi. En þarna upplifði ég eins og einhver vildi mér mjög illt. Ég lagði inn kæru til lögreglunar í Reykjavík og fékk fund nokkrum dögum seinna. Áður en kom að þeim fundi fékk ég hringingu frá manneskjunni sem hafði tekið saman þessi memes og sent á fyrirliða liðsins. Ég ætla ekki að gefa upp hver sá aðili er og dró ég kæruna til baka eftir að viðkomandi baðst afsökunar á þessu. Ég fyrirgaf viðkomandi og við áttum gott spjall og kvöddum í góðu.“
Þegar samkomutakmarkanir gáfu grænt ljós á að fólk kæmi saman hitti Benedikt alla þá leikmenn sem hann hafði valið í 30 manna æfingahóp. „Þar fór ég yfir þetta með þeim öllum frá A til Ö ásamt forsvarsmönnum KKÍ. Þar var mér tjáð að málinu væri lokið og fyrirliði liðsins lætur mig vita að leikmenn séu sáttir og við tókum góða æfingahelgi. Síðan þá erum við búin að æfa mörgum sinnum saman og spila marga landsleiki,“ segir Benedikt en um 14 mánuðir eru liðnir síðan málinu lauk.
Benedikt segist ekki hafa skrifað færsluna með því markmiði að fría sig af allri ábyrgð. „Ég er ekki að skrifa þetta hér til þess að reyna að fría sjálfan mig og spila mig sem fullkominn einstakling sem gerir aldrei neitt rangt. Ég hef gert mörg mistök á ævinni og þegar ég horfi til baka þá sé ég eftir ansi mörgu á langri ævi. Ég er maður hinna ýmsu galla og veit af þeim mörgum en ég tel mig ekki haldinn kvenfyrirlitningu,“ segir hann.
Í lokin gagnrýnir hann Mannlíf fyrir að hafa ekki haft samband við sig til að leyfa honum að verja sig og segja sína hlið á málinu. „Maður á samt ekki að meta sjálfan sig og best að aðrir dæmi hvernig maður ég er. Ég er búinn að vera að skrifa þetta skjálfandi, í sjokki og miður mín yfir þessari frétt. Enginn frá mannlif.is hafði samband við mig og leyfði mér að verja mig og koma með mína hlið,“ segir hann.
„Á morgun ætla ég að leggja öll spilin á borðið og birta hvert og eitt einasta meme sem ég hef látið frá mér og hver og einn getur þá dæmt fyrir sig. Kannski er ég ekki eins vandaður og ég tel mig vera en ég vil að þið metið það þá eftir að hafa allar forsendur fyrir framan ykkur en ekki eingöngu út frá fréttinni sem birtist í kvöld.“