Í lok mars árið 2009 lenti kona í umferðarslysi er bíll hennar rásaði í hálku og skafrenningi þannig að hún missti stjórn á honum, bíllinn fór yfir á öfugan vegarhelming og lenti á vegriði. Konan hlaut ýmsa áverka og glímdi við langvarandi verki eftir slysið.
Hún samþykkti bótauppgjör við Vátryggingafélag Íslands seint í september sama ár og slysið varð með fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum slyssins. Mörgum árum síðar greinir hana og tryggingafélagið á um rétt hennar til að fá matið endurskoðað og fá frekari bætur greiddar og var dómur kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Næstu árin eftir slysið leitaði konan hvað eftir annað á heilsugæslustöð vegna heilsufarsvanda og stríddi meðal annars við verki í hnakka, herðum og brjóstvöðvum. Hætti hún að vinna árið 2016 og gat ekki stundað þá atvinnu sem hún hafði menntað sig til, snyrtifræði.
Í dómnum, sem má lesa hér, er farið vandlega yfir heilsufarssögu konunnar vegna slyssins en árið 2018 voru kallaðir til dómskvaddir matsmenn sem gáfu út matsgerð þá um sumarið. Um þá matsgerð segir í dómnum:
„Þeir komust að þeirri niðurstöðu að þau einkenni sem stefnandi byggi við væri að rekja til slyssins enda ættu ekki aðrir atburðir eða fyrri veikindi þar hlut að máli. Þau einkenni sem um væri að ræða væru einkenni hnykkáverka sem stefnandi hefði hlotið í slysinu og síðari þróun vöðva- og liðverkja, auk fylgieinkenna, sem fullnægðu skilyrðum til greiningar á vefjagigt. Heilsufar stefnanda töldu þeir hafa verið orðið stöðugt þannig að ekki hefði verið frekari bata að vænta sex mánuðum eftir slysið, 30. september 2009. Varanlegan miska töldu matsmenn nema 20 stigum að teknu tilliti til útbreiddra stoðkerfiseinkenna, stirðleika, þreytu, úthaldsleysis og eymsla, auk annarra einkenna vefjagigtar og vissrar geðdeyfðar. Varanlega örorku mátu þeir 20% með tilliti til þeirra takmarka sem heilsufarsvandamál hennar settu starfsvali hennar og samkeppnishæfni á vinnumarkaði. Fram kom í framburði læknisins fyrir dómi að undirmatsmenn hefðu ekki haft eintak af sjúkraskrá stefnanda frá heilsugæslunni sem stefnandi leitaði til í Ö, frá 1. október 2009 til 19. febrúar 2016. Þeir hefðu haft vottorð íslenskra heilsugæslulækna frá árinu 2009 og svo afrit bókana […] gigtarsérfræðingsins, svokallaðar útskriftarskýrslur í íslenskri þýðingu, frá árinu 2015.“
Tryggingafélagið tilkynnti að það myndi ekki una þessari niðurstöðu og höfðaði konan því mál í mars 2019. Dómur er loks fallinn núna. Undir rekstri málsins voru kvaddir til matsmenn sem gáfu út matsgerð síðla árs 2020. „Í umfjöllun um það hvort orsakatengsl væru milli slyssins og einkenna stefnanda komust yfirmatsmenn að þeirri niðurstöðu að þar sem hún hefði fyrst verið greind með vefjagigt á árinu 2015 og stoðkerfiseinkenna væri ekki getið í sjúkraskrá hennar í Ö fyrr en haustið 2014 væri ekki hægt að rekja vefjagigtareinkenni stefnanda sannanlega til slyssins. Í þeim efnum var meðal annars horft til þess að stefnandi hefði glímt við ýmiss konar heilsufarsvanda annan sem rakinn var í matsgerðinni og fram kom í sjúkraskrá,“ segir um þetta í dómnum.
Konan rak mál sitt á grundvelli 11. greinar skaðabótalaga þar sem segir:
„Að kröfu tjónþola er heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Ef mál er endurupptekið er heimilt að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar, sbr. 10. gr.“
Konuna og tryggingafélagið greindi á um hvort þessi skilyrði væru uppfyllt. Það stóð konunni fyrir þrifum að fyrirvari hennar í samkomulaginu um bótauppgjörið árið 2009 var ekki nákvæmlega útfærður. Fyrirvari um varanlegar afleiðingar af slysinu var nefndur en ekki útfærður frekar. Þetta var ein helsta ástæða þess að ekki var gengið að kröfum konunnar um frekari greiðslur vegna slyssins upp á rúmlega 7,6 milljónir króna.
Var kröfum konunnar hafnað en málskostnaður fellur niður og er málskostnaður konunnar greiddur úr ríkissjóði.