Í morgun var greint frá því að lögregla hafi skotið vopnaðan mann í götunni Dalseli á Egilsstöðum um ellefuleytið í gærkvöldi. Fram hefur komið að maðurinn sé á lífi og hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur, en ekki er vitað meira um líðan hans.
Maðurinn hafði sjálfur verið að skjóta að húsum í grenndinni áður en lögreglan skaut hann.
Myndband af vettvangi sem birtist á samfélagsmiðlinum TikTok varpar ákveðnu ljósi á ástandið í götunni. Myndbandið sjálft er nokkuð óljóst, en í því sjást björt ljós frá ljósastaurum og bílljósum.
Það er hins vegar hljóðrás myndbandsins sem dregur upp mynd af aðstæðum, en á henni heyrist hávær skothvellur, og öskur.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan: