Margir foreldrar barna á leikskólanum Austurborg í Reykjavík eru uggandi eftir að þeir komust að því að starfsmaður í sérkennslu hefði áður verið rekinn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti eftir að hafa farið yfir velsæmismörk í samskiptum við nemendur.
Minnst eitt barn hefur þegar hefur skipt um leikskóla vegna málsins og foreldrar nokkurra annarra barna íhuga flutning.
Kvörtun frá nemanda
Greint var frá því í fjölmiðlum vorið 2016 að félagsmálafulltrúa í FB hafi verið vikið frá störfum eftir að í ljós kom að hann hafi „farið yfir strikið“ í samskiptum við nemendur. Maðurinn var sagður hafa farið yfir velsæmismörk í samskiptum nemenda og kennara, og var málið tekið til skoðunar eftir kvörtun frá nemenda. Ekki kom fram hvað maðurinn gerði eða hvernig samskiptum hans við nemendur var háttað.
Í Fréttatímanum var greint frá því að skólayfirvöld í FB hafi brugðist fljótt við þegar málið kom inn á þeirra borð og það endað með brottrekstri. Einnig kom fram að skólinn myndi ekki hafa forgöngu um að kæra málið en „ef viðkomandi einstaklingar hefðu ákveðið að leggja fram kæru væri hugsanlega um refsivert athæfi að ræða.“
Börn eigi að njóta vafans
Sami einstaklingur var ráðinn í sérkennslu á leikskólann Austurborg árið 2018 en það var ekki fyrr en í sumar að upplýsingar um fortíð hans fóru að kvisast út meðal foreldra barna í leikskólanum.
Margir þeirra fóru þá að upplifa óöryggi í garð leikskólans og leikskólastjórnanda, og finnst eins og verið sé að halda frá þeim upplýsingum. Þeim finnst mikilvægt að börnin fái alltaf að njóta vafans.
Enginn efast um fagmennskuna
Hrafnhildur Konný Hákonardóttir, leikskólastjóri Austurborgar, segist í samtali við DV vera bundin trúnaði gagnvart starfsfólki sínu. Hún segir þó að starfsmaðurinn hafi farið í gegn um hefðbundið ráðningarferli á sínum tíma og hann hafi verið með hreint sakavottorð. Hrafnhildur kannast við að einhverjir foreldrar hafi viðrað áhyggjur sínar við hana og hún svarað þeim eftir bestu getu.
„Það var metið þannig að ástæða fyrir starfslokum á fyrri vinnustað ætti ekki að hafa áhrif á ráðninguna eða fagmennsku við störf á leikskóla. Viðkomandi starfsmaður hefur staðið sig vel í starfi, engar kvartanir hafa borist og aldrei komið fram efasemdir um fagmennsku hans.“
Upplýsingar fjarlægðar
Upplýsingar um allt starfsfólk á Austurborg voru fyrr í dag aðgengilegar á heimasíðu leikskólans en nú stendur einungis þetta þar sem áður var farið yfir hverjir starfa við sérkennsluna.
Félagsmálafulltrúi FB rekinn: Sagður hafa farið yfir velsæmismörk í samskiptum við nemendur