Héraðssaksóknari hefur ákært 28 ára gamlan karlmann fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar fyrir að hafa ráðist á karlmann við Laufvang í Hafnarfirði í byrjun árs í fyrra.
Mun hann hafa slegið til mannsins með hamri en brotaþoli náð að verjast högginu með því að bera fyrir sig vinstri hendi. Fórnarlamb árásarinnar hlaut þó stífleika og þreifieymsli á vinstri framhandleggsvöðva og má með sanni segja að hann hafi sloppið naumlega með skrekkinn.
Þrátt fyrir litla áverka miðað við alvarleika árásarinnar er, sem fyrr segir, ákært fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar, sem er alvarlegri af tveimur „tegundum“ líkamsárása í hegningarlögum, eða eftir 218. gr. laganna. Brot af þessum toga varðar við allt að 16 ára fangelsi.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til að greiða allan sakarkostnað sem af málinu hlýst.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. september næstkomandi.