Skiptum er lokið í þrotabúi loðdýrabúsins Mön ehf. en tilkynning þess efnis var birt í Lögbirtingablaðinu í morgun. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í september 2019 og því tók uppgjörið rúm tvö ár.
Loðdýrabúið, sem var stofnað árið 1997, var staðsett á jörðinni Ásum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og var í eigu hjónanna Kristínar Sigurðardóttir og Stefáns Guðmundssonar. Alls hýsti búið um 5.000 læður en gróft áætlað framleiddi fyrirtækið um 25 þúsund minkaskinn árlega. Þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækisins mikla áherslu á að taka á móti gestum og kynna starfsemina.
Um tíma árið 2012-2013 höfðu eigendurnir í hyggju að tvöfalda stærð búsins. Af því varð ekki en frá árinu 2014 hófst erfitt rekstrartímabil í loðdýrarækt sem varði í mörg ár. Það tímabil lifði loðdýrabúið Mön ehf. ekki af.
Samkvæmt tilkynningunni í Lögbirtingablaðinu voru lýstar kröfur rúmar 166 milljónir króna en kröfuhafar fengu rúmar 32 milljónir króna í sinn hlut.