Afleiðingar yfirtöku Talibana á höfuðborg Afganistans héldu í dag áfram að vekja óhug en í dag birtist myndskeið af mæðrum varpa börnum sínum í fang breskra hermanna, yfir gaddavírsgirðingu sem reist hefur verið í kringum flugvöllinn í Kabul.
Flugvöllurinn er enn undir stjórn herja NATO ríkjanna, en Bandaríkin, Bretar, Þjóðverjar og fleiri ríki hafa nú sent þúsundir hermanna á síðustu dögum til þess að halda yfirráðum yfir flugvellinum og koma þar á röð og reglu til þess að hægt sé að flytja íbúa ríkjanna burt auk þeirra Afgana sem störfuðu fyrir NATO ríkin í stríðinu.
Í vikunni birtust myndbönd af fólki hangandi utan á flugvélum Bandaríkjahers er þær hófu sig til lofts á flugvellinum. Þá kom seinna í ljós að líkamsleifar fundust í hjólastelli þeirrar sömu flugvélar. Allri starfsemi á flugvellinum var síðar lokað á meðan hermenn komu á reglu á ný.
Hluti af aðgerð hermannanna var að reisa í kringum flugvöllinn stærðarinnar gaddavírsgirðingu sem á að hindra að óviðkomandi einstaklingar komist inn á flugvallarsvæðið. Þar fyrir utan hafa Talibanar reist hindranir sem eiga að koma í veg fyrir að Afgönum takist að flýja landið, en flugvöllurinn er eina leiðin burt úr borginni í dag.
Þúsundir eru nú fastir á milli hersveita Talibana og gaddavírsgirðinga NATO ríkjanna. Hefur þar myndast gríðarleg óreiða, líkt og sjá má hér að neðan.
People are so desperate to escape the #Taliban that they’re passing babies and kids forward to the gate at #Kabul airport. #kabulairport #AfghanEvac pic.twitter.com/6NSlIffrD1
— Matt Zeller (@mattczeller) August 18, 2021
Á myndbandinu sést þegar börnum er lyft upp yfir mannhafið og þeim svo varpað í átt að hermönnunum hinum megin við gaddavírsgirðinguna. Segir New York Post frá því að fjölmörg dæmi hafi verið um einmitt þetta í gær og í dag. Hefur NYP eftir breskum hermanni sem er staddur á flugvellinum í Kabul að konurnar hafi öskrað „bjargið börnunum“ og kastað svo ungabarni í fang hermannanna. „Sum börnin féllu á gaddavírinn.“
„Þetta var hræðilegt, það sem gerðist. Undir lok kvölds var ekki einn maður á meðal okkar sem ekki var grátandi,“ bætti hermaðurinn við.
Þúsundir bíða nú flutnings frá Afganistan. Samkvæmt yfirlýsingu Hvíta hússins í gær gerir flugherinn ráð fyrir því að flytja um tvö þúsund manns á sólarhring frá landinu. Það er langt frá fyrri áætlun flughersins sem gerði ráð fyrir að flytja á milli fimm og níu þúsund á dag.