fbpx
Fimmtudagur 09.maí 2024
Fréttir

Áfall á áföll ofan hjá fjölskyldu á Eyrarbakka: „Það er eitthvað að pabba!“

Auður Ösp
Laugardaginn 15. febrúar 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimm manna fjölskylda á Eyrarbakka hefur gengið í gegnum ótrúlega röð áfalla á innan við ári. Þau standa þó þétt saman í gegnum erfiðleikana og láta engan bilbug á sér finna.

Hneig niður í herbergi yngstu dótturinnar

Hlöðver Þorsteinsson og Þóra Ósk Guðjónsdóttir eiga þrjú börn, Birgittu, 16 ára, Þorstein Jón, 9 ára, og Heklu, 7 ára. „Það er dásamlegt að búa hérna á Eyrarbakka, hérna taka allir utan um okkur og allir vilja hjálpa til,“ segir Þóra. Eftir að Þóra eignaðist yngstu dóttur sína 24 ára gömul fór hún að finna fyrir einkennum arfgengs lömunarsjúkdóms. Einkennin síversnuðu með árunum og í dag notar Þóra göngugrind.

„Ég á sem sagt rosalega erfitt með að ganga og þarf að notast við göngugrind þar sem hækjur duga ekki. Svo er jafnvægið mjög lélegt og ég þarf að nota spelkur til að halda fætinum stöðugum og auk þess þarf ég að nota sérútbúinn bíl.“

Þóra hefur ekki getað unnið vegna sjúkdómsins og hefur því fengið örorkubætur. Hlöðver starfaði hjá vöruflutningafyrirtæki á Selfossi allt þar til hann fékk heilablóðfall í mars í fyrra. „Áður en Hlöðver veiktist í fyrra þá reiddi ég mig nánast algjörlega á hann.“

Fyrir heilablóðfallið var Hlöðver alheilbrigður og kenndi sér aldrei meins. Hann mætti í vinnuna alla daga og sinnti fjölskyldunni og áhugamálunum þess á milli, en hann er mikill áhugamaður um dúfnarækt og hefur komið upp dúfnakofa í garðinum.

Það var síðan í mars í fyrra að Hlöðveri var bókstaflega kippt út úr lífinu, eins og Þóra orðar það.

„Þetta var að kvöldi til. Við vorum að borða kvöldmat þegar síminn hringdi, það var þá félagi hans Hlöðvers úr dúfnaræktinni. Hlöðver fór út í dúfnakofa með símann og kom svo aftur inn, ennþá í símanum, og fór inn í herbergi hjá yngstu dóttur okkar. Þar horfði hún á pabba sinn leggja frá sér símann og detta niður. Hún kallaði fram til okkar: „Það er eitthvað að pabba!“

Þegar ég kom inn lá Hlöðver hreyfingarlaus á gólfinu og ekki hægt að ná neinu sambandi við hann. Hægri hlið hans var alveg máttlaus. Ég bað yngstu dóttur okkar að fara og ná í símann, sem hún gerði, sló inn 112 og rétti mér svo símann. Sjúkrabílinn kom stuttu seinna.“

Þóra segir dóttur sína hafa sýnt ótrúlega mikla ró og aðdáunarverðan kjark í þessum aðstæðum.

„Hún var bara algjör hetja. Á meðan við biðum eftir sjúkrabílnum var ég nánast að farast úr stressi. Á meðan sat hún á rúminu, horfði á mig og sagði: „Mamma, anda inn, anda út!““

Þekkti ekki börnin sín

Hlöðver var fluttur beinustu leið á gjörgæsludeild Landspítalans. Þar kom í ljós að hann hafði fengið stóran blóðtappa í innra heilahvel. Hann var settur á blóðþynnandi lyf og haldið sofandi í öndunarvél næstu daga, áður en hann var fluttur á almenna deild. En það virðist sem að þessi blóðþynningarlyf hafi náð að leysa upp tappann.

„Þegar hann vaknaði var eins og hann væri með autt blað í höfðinu, hann vissi ekkert hvað var í gangi. Það var ljóst að hann þurfti að læra allt upp á nýtt. Hann þekkti ekki börnin sín, en hann þekkti mig þó.“

Þóra segir mann sinn einfaldlega vera svo þrjóskan að hann neitaði að fá hjálp frá sjúkraþjálfurum við að stíga á fætur. Hann var harðákveðinn í að gera þetta sjálfur. „Hann fékk aftur hreyfigetu í hægri fótinn og hægri höndina en gat ekki hreyft fingurna. Hann missti líka málið og gat lengi vel ekki talað. Svo fór hann að geta sagt „já“ og „nei“. Eftir rúmlega viku á spítalanum var hann fluttur á Grensásdeild og hann náði fljótlega ótrúlega miklum framförum í málinu. Hann gat þó ekkert skrifað og átti sömuleiðis erfitt með að finna sum orð. En smám saman fékk hann orkuna aftur.“

Þóra segir Hlöðver hafa sýnt magnaða þrautseigju í gegnum þetta ferli. „Hann var alltaf að segja: „Þetta er að koma, þetta er að koma, þetta er alveg að koma“.“

Í hræðilegu ástandi

Hlöðver er nýbyrjaður í prógrammi hjá Virk og til stóð að hann færi að vinna aftur. Þá reið annað áfall yfir, þann 3. febrúar síðastliðinn.

„Hann var að taka jólaseríu af þakinu heima. Þennan dag fór ég að heiman um hálf þrjú leytið til að fara í sjúkraþjálfun. Hlöðver ætlaði að sinna dúfunum sínum og svo ætlaði að hann taka niður jólaseríuna.“

Ekki er vitað nákvæmlega hvað gerðist, en líklegast er að Hlöðver hafi dottið úr stiganum á meðan hann var að taka niður seríuna.

„Um sex leytið fékk ég símtal frá henni Thelmu, barnfóstrunni okkar, en þá höfðu hún og yngsta dóttir okkar komið að Hlöðveri inni á gangi í hræðilegu ástandi. Thelma hringdi síðan á sjúkrabíl. Þá hafði Hlöðver einhvern veginn náð að koma sér inn sjálfur, hríðskjálfandi, illa áttaður og mjög þjáður,“ segir Þóra, en hún segir líklegast að Hlöðver hafi dottið ofan á klakastykki og legið þar í roti í einhverjar klukkustundir áður en hann rankaði við sér og kom sér inn í hús.

„Hann hafði verið í kuldagalla og innanundir fötin voru rennandi blaut, líklega hefur þá líkamshitinn brætt ísinn sem hann lá ofan á.“

Hlöðver var fluttur beint á gjörgæslu. Rannsóknir leiddu í ljós að hann hafði fengið heilahristing, brotið rif og hlotið fleiri innvortis meiðsl. Þetta var, sem fyrr segir, þann 3. febrúar síðastliðinn. Þegar blaðamaður ræddi við Þóru var hún stödd við rúm Hlöðvers á Landspítalanum.

„Hann er eiginlega bara búinn að vera sofandi síðan þetta gerðist. Hann er núna fyrst að vakna og ranka við sér. Hann er mjög illa áttaður, en veit þó að hann er á spítala. Það virðist sem málstolið hafi versnað og það eru gloppur í minninu. Hann finnur ekki lykt eða bragð af mat og sjónin er heldur ekki eins og hún á að vera.“

Læknar hafa tjáð fjölskyldunni að tíminn þurfi að leiða í ljós hvernig Hlöðveri muni reiða af. Þóra segir þau taka einn dag í einu en næsta skref verður að koma Hlöðveri í endurhæfingu á Grensásdeild. „Við vitum ekkert hvernig þetta fer, þetta getur tekið vikur, jafnvel marga mánuði.“

Sýna æðruleysi

Fjölskyldan hefur takmarkað stuðningsnet. Foreldrar Hlöðvers eru látnir og móðir Þóru, sem glímir við sama lömunarsjúkdóm, er á hjúkrunarheimili. Hún er bundin við rafmagnshjólastól. Föðurfjölskylda Þóru hefur stutt við bakið á þeim, sem og litla samfélagið á Eyrarbakka. „Svo erum við ótrúlega heppin með hana Thelmu, sem er barnfóstran okkar, hún er engill í mannsmynd og er eins og ein af fjölskyldunni. Bekkurinn hjá stráknum okkar, foreldrar og kennarar ætla síðan að vera með kökubasar á næstunni og safna fyrir okkur. Það eru allir að hugsa til manns og það vilja okkur allir vel, það er yndislegt.“

Skiljanlega hefur þessi röð áfalla tekið sinn toll af fjölskyldunni, þá ekki síst fjárhagslega. Þóra þiggur örorkubætur og eftir heilablóðfallið í fyrra þurfti Hlöðver að reiða sig á sjúkradagpeninga og greiðslur frá VR. Til stóð að hann færi á endurhæfingarlífeyri, en það er ekki enn komið í gegn.

Auk alls þessa lenti fjölskyldan í gríðarlegu eignatjóni í janúar þegar gat kom á ofnalög undir fataskáp í húsinu.

„Þegar ég kom fram á gang heima 2. janúar þá steig ég í ökklahátt vatn sem var búið að leka út um allt. Parkettið var allt ónýtt og það þurfti að rífa það upp, og skipta um ofnalagnir. Um sama leyti og Hlöðver fékk heilahristinginn var hann í miðju kafi að koma húsinu aftur í stand.“

Þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið sýnir Þóra mikið æðruleysi og það sama gildir um alla í fjölskyldunni. „Jú, jú, við höfum aðeins fengið að finna fyrir lífinu núna seinasta árið. En ég held að við séum alveg búin að fá okkar skerf núna. Núna er þetta bara á uppleið hjá okkur.“

Föðurfjölskylda Hlöðvers hefur hrundið af stað söfnun til að styðja við bakið á fjölskyldunni í erfiðleikunum. Þeim sem vilja styðja fjölskylduna er bent á eftirfarandi reikningsnúmer. Margt smátt gerir eitt stórt.

0123-15-100291

kt. 131273-5419.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum
Eldgosinu er lokið

Mest lesið

Nýlegt