fbpx
Fimmtudagur 01.maí 2025
Fréttir

Segja að ríkisstjórnin hafi látið undan hótunum Kára – „Þetta byrjaði með því að Kári fór í fýlu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 29. ágúst 2020 14:43

Kári Stefánsson. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þunginn í gagnrýninni gegn hertum sóttvarnaaðgerðum yfirvalda hvað varðar ferðamenn fer sífellt vaxandi. Í leiðara Fréttablaðsins í gær er fullyrt að við þessa ákvörðun, að krefjast tveggja sýnataka og 5-6 daga sóttkvíar á milli þeirra, fyrir alla sem koma til landsins, hafi ríkisstjórnin láti undan hótunum Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Hann hafði uppi fullyrðingar um að ÍE myndi ekki taka frekari þátt í skimunum ef aðgerðir yrðu ekki hertar. Vitað er að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði fram nokkrar tillögur að mögulegum aðgerðum og það var síðan ríkisstjórnin sem valdi á milli tillagnanna.

„Ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem lét meðal annars undan hótunum forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, á eftir að reynast henni meiriháttar pólitískur og efnahagslegur afleikur,“ skrifar Hörður Ægisson í Fréttablaðið í gær, og segir jafnframt að ekki sé heil brú í nálgun stjórnvalda:

„Hertar aðgerðir við landamærin, þar sem Ísland sker sig úr í samanburði við önnur Evrópuríki, hafa gert slæmt efnahagsástand verra. Sú ákvörðun, sem var tekin án heildstæðs hagsmunamats og hefur skert athafna- og ferðafrelsi fólks, á eftir að valda samfélaginu í heild stórkostlegu tjóni. Búið er að brenna allar brýr að baki fyrir ferðaþjónustuna í vetur. Erlend flugfélög, sem ætluðu að halda úti áætlunarflugi til Íslands, hafa hætt við þau áform – og þau verða ekki endurskoðuð – og þá er ljóst að áhrifin á Icelandair, sem freistar þess nú að afla sér 20 milljarða í hlutafjárútboði, eru umtalsverð til skemmri tíma. Fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs af því að veita félaginu ríkisábyrgð á 16,5 milljarða lánalínu, samhliða því að landinu er lokað fyrir ferðamönnum, hefur því að sama skapi aukist til muna. Ekki er að sjá að heil brú sé þar í nálgun stjórnvalda.“

Segir veiruna hafa komið með austur-evrópsku starfsfólki

„Mér finnst það líklegt og um leið finnst mér það mjög sorglegt,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, við þeirri spurningu hvort hann telji að Kári Stefánsson hafi haft mikil áhrif á ákvörðun stjórnvalda um hertari aðgerðir á landamærum. „En Kári rekur einkafyrirtæki og honum er heimilt að gera það sem hann vill, hafa sína skoðun og neita samvinnu.“

Í augum Þóris eru þessar ákvarðanir mistök einfaldlega vegna þess að ferðamenn smiti ekki frá sér. „Flestir vita hvernig þetta byrjaði en fæstir viðurkenna það. Þetta byrjaði með því að Kári fór í fýlu. Þá fór fólk að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að skilgreina örugg lönd. En öruggt land er eitt og farþegar sem komu frá landinu er annað. Kaupmannahöfn er mjög þekktur tengiflugvöllur og það sem virðist hafa gerst er það að fólk frá Austur-Evrópu sem vinnur hérlendis kom hingað frá Kaupmannahöfn og bar veiruna inn í landið í þessari annarri bylgju,“ segir Þórir en hann telur að ferðamenn smiti almennt ekki.

„Það sem ég hefði viljað sjá gert hefði verið að Íslendingar og aðrir íbúar sem hingað koma til lengri tíma hefðu farið sýnatöku og síðan heimkomusóttkví, síðan aðra sýnatöku. En ferðamenn færu bara í eina sýnatöku nema rökstudd ástæða væri fyrir öðru. Almennir ferðamenn passa sig og jafnvel þó að þeir séu smitaðir þá eru mjög litlar líkur á því að þeir smiti aðra. Við vitum það sjálf að við erum varkárari þegar við ferðumst og förum út úr þægindarammanum. Maður verður miklu passasamari og ferðamennirnir passa upp á sig til að verða ekki fyrir smiti sjálfir.“

Þórir hefur kallað aðgerðir yfirvalda skemmdarverk: „Þarna var hreinlega verið að skemma fyrir okkur, við þessa ákvörðun slokknar á vélinni, söluaðilar erlendis taka Ísland úr sölu og við fengum tilkynningar um það. Söluaðilar hafa ekki áhuga á því að selja til Íslands og þurfa síðan að endurgreiða af því það er búið að loka landinu. Það er tvöföld vinna og engar tekjur. Rútufyrirtækin og fyrirtæki sem eru með afþreyingarferðir utan Reykjavíkur fengu engar tekjur af auknum ferðalögum landans í sumar en það leit ágætlega út með bókanir í haust, sérstaklega eftir að norðurljósavertíðin byrjar um næstu mánaðamót, en þetta hvarf allt á einu augabragði.“

Læknaprófessor gagnrýnir stjórnvöld

Nýtt innlegg í gagnrýnina á hertar aðgerðir er grein eftir Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Boston, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Jón segist ekki vilja gera lítið úr farsóttinni en bendir á mjög lágt dánarhlutfall og segir að of langt hafi verið seilst með síðustu aðgerðum. Vafasamt sé að þrengja að frelsi borgaranna til lengri tíma og hann minnir á að sóttkví virki ekki nema fólk fari eftir reglunum:

„Þarna er að mínu mati seilst of langt. Vissulega er réttur fólks til eins eðlilegs lífs innanlands og hægt er mikilvægur en það er vandmeðfarið að þrengja að frelsi borgaranna með þessum hætti og sérstaklega ef það á að vara til langs tíma. Það er jafnframt töluverð hætta á að ef of langt er gengið, þá hætti sumir að fara eftir reglum. Þetta hefur sýnt sig bæði hérlendis og erlendis þar sem brot á sóttkví hafa leitt til hópsmita. Sóttkví virkar nefnilega ekki nema fólk fari eftir reglunum, því það er í raun ómögulegt að hafa viðunandi eftirlit með fólki sem kemur til landsins. Skynsamlegra hefði verið að lágmarka skaðann á báða bóga með því að setja alla í tvöfalda skimun en jafnframt að halda áfram með heimkomusmitgát á milli sýna, sem var að mínu mati vel ígrunduð leið til að lágmarka hættu á smiti eftir að lá fyrir að fyrra sýni var neikvætt. Þetta hefði í för með sér mun minni röskun á komum ferðamanna til landsins og myndi minnka þann gífurlega skaða sem ferðaþjónustan og aðrir aðilar eru nú að verða fyrir. Jafnframt ættu ferðamenn að greiða að fullu skimunarkostnað enda er ríkið nú að safna skuldum upp á einn milljarð á dag og er það sennilega meira en nóg. Það myndi minnka örlítið ferðavilja og þar með minnka líkur á að skimunargeta mettist. Auðvitað má svo slaka á eftirliti eins og við á.“

Jón segir að það sé óraunhæf útópía að lifa í veirufríu landi og það sé ekki hægt að loka veiruna úti til lengdar eins og nýleg dæmi frá Færeyjum og Nýja-Sjálandi sanni. Hann hvetur stjórnvöld til að „gæta meðalhófs og vernda lýðheilsu, og þá sérstaklega vernda viðkvæma hópa, en jafnframt að hlúa að frelsi einstaklinga og finna leiðir til að lágmarka skaðann fyrir alla.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harma að mötuneyti fyrir eldra fólk í Hafnarfirði hafi verið lokað mánuðum saman – „Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð“

Harma að mötuneyti fyrir eldra fólk í Hafnarfirði hafi verið lokað mánuðum saman – „Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Frosti fordæmir frétt um hópnauðgun – „Hættuleg sorpblaðamennska“ – Segir að Frettin.is komi óorði á smærri fjölmiðla

Frosti fordæmir frétt um hópnauðgun – „Hættuleg sorpblaðamennska“ – Segir að Frettin.is komi óorði á smærri fjölmiðla