Rúmfatalagerinn hefur engu svarað um mál fyrrverandi verslunarstjóra hjá fyrirtækinu sem var rekinn þremur vikum eftir að hann kom aftur til vinnu eftir að hafa jafnað sig eftir aðgerð vegna heilaæxlis. Marinó Magnús Guðmundsson starfaði í nokkur ár sem verslunarstjóri hjá Rúmfatalagernum. Hann var greindur með heilaæxli og náði nokkuð skjótum bata. Er hann kom aftur til starfa var honum sagt upp og ástæðan sögð vera skipulagsbreytingar.
Vefur Mannlífs fjallaði um málið í gær. Tinna fer yfir málið í Facebook-færslu sem lesa má með því að smella hér undir fréttinni. Í ummælum lesenda undir fréttum af málinu í gær má finna vitnisburði um góða frammistöðu Marinós í starfi og góða þjónustulund hans við viðskiptavini. Tinna fullyrðir að aldrei hafi verið kvartað undan störfum hans. Uppsögnin var fyrirvaralaus og mjög óvænt.
Fréttablaðið hafði samband við Björn Inga Vilhjálmsson framkvæmdastjóra Rúmfatalagersins vegna málsins í gær og vildi hann ekki tjá sig um það.
DV sendi Birni fyrirspurn í gær og gaf honum kost á að veita almennt svar um stefnu fyrirtækisins varðandi veikindi starfsmanna, sem og um skipulagsbreytingar í fyrirtækinu og ennfremur var spurt hvort verið væri að fækka starfsmönnum vegna samdráttar. Ekki hefur borist svar við fyrirspurninni.
DV hafði samband við Tinnu í morgun og segir hún að málið sé komið inn á borð stéttarfélags Marinós, VR. Aðspurð sagði hún að Marinó væri við nokkuð góða heilsu núna en uppsögnin hefði verið áfall. Að öðru leyti vísar hún til Facebook-færslunnar hér að neðan.
https://www.facebook.com/tinnalitla/posts/10157531841298372
Uppfært kl.20.49:
Fyrirsögn hefur verið breytt.
Þá hefur ennfremur verið leiðrétt í fréttinni sjálfri að manninum var ekki sagt upp um leið og hann sneri aftur til vinnu heldur þremur vikum síðar.