Síðdegis í gær stöðvuðu lögreglumenn bíl á Sæbraut í Reykjavík. Ökumaðurinn er grunaður um akstur umdir áhrifum fíkniefna, einnig vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Í bílnum voru tveir farþegar sem grunaðir eru um það sama. Allir voru handteknir vegna rannsóknar málsins og færðir á lögreglustöð þar sem tekin var af þeim skýrsla og þeir síðan látnir lausir.
Þegar lögreglumenn höfðu stöðvað bílinn og voru að vinna í málinu kom þar að annar bíll sem ók á kyrrstæða bílinn og síðan á brott. Upptökur eru af því broti og er það mál í rannsókn. Bíllinn sem keyrt var á var fluttur af vettvangi með Króki.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá reiðhjólaslysi sem tilkynnt var um áttaleytið í gærkvöld. Hjólreiðamaðurinn datt fram fyrir sig og fékk áverka í andliti. Brotin tönn varð eftir á götunni. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar.
Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um ungan mann í annarlegu ástandið í miðbænum. Er hann sagður hafa notað LSD og var hlaupandi um berfættur og ber að ofan. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Laust fyrir klukkan fimm í nótt vaknaði maður upp í miðbænum við að innbrotsþjófur var í íbúð hans. Náði þjófurinn að hlaupa út með tölvu og fleira. Málið er í rannsókn.
Um hálffimmleytið í nótt var tilkynnt um eld í fjölbýlishúsi í Árbæ. Var brunalykt og reykskynjari í gangi. Reyndist þetta koma frá potti sem hafði gleymst á heitu helluborði.