Friðrik Sigurðsson, formaður Viðreisnar í Kópavogi, skrifaði opið bréf til Höllu Bergþóru, lögreglustjóra á Höfuðborgarsvæðinu, en bréf hans birtist á Vísi.
Í bréfi sínu lýsir Friðrik áhyggjum sínum yfir ungum ökumönnum á skellinöðrum og rafmagnsvespum í efri byggðum Kópavogs. Hann segir að þessir ungu ökumenn ofmeti gjarnan eigin getu sem skapi hættu.
Fyrr í sumar greindi DV frá því að íbúar Kópavogs væru skelkaðir vegna ofsaakstri ungmenna í bænum.
Friðrik biður Höllu um fá einhverja lögreglumenn í verkið, til að leiðbeina krökkunum og vakta svæðið. Hann segir að það væri ánægjulegt fyrir bæjarbúa Kópavogs að hafa lögregluna á svæðinu, auk þess sem það orðið til þess að „rán og rupl“ myndi minnka.
Bréf Friðriks má lesa hér að neðan:
Sæl Halla Bergþóra, velkomin sértu til starfa sem lögreglustjóri hjá okkur á Höfuðborgarsvæðinu. Mig langaði til að senda þér smá línu, héðan úr efri byggðum Kópavogs, hvar búa og starfa hátt í 10 þúsund manns. Við sem hér búum höfum af því talsverðar áhyggjur hvernig umferðarmálum háttar, þá sérstaklega höfum við áhyggjur af umferð á skellinöðrum og rafmagnsvespum, sem stýrt er af nýjustu ökumönnunum í hverfinu. Í mörgum tilfellum virðast þeir ofmeta eigin reynslu og akstursgetu og vanmeta eigin hraða, bæði á götum og göngustígum. Ég velti því upp hvort þú gætir ekki sett nokkurn hóp af þínu fólki í það að leiðbeina þessum ágætu ungu ökumönnum hvernig best er að bera sig að við meðhöndlun á þessum tækjum. Jafnvel bara að vera meira sýnileg á svæðinu gæti hjálpað til. Mín reynsla er sú að þegar skólar hefjast í ágúst er mest um að vera og áhættan því meiri á þeim tíma.
Ég hef trú á því að ef þitt fólk væri enn sýnilegra í efri byggðum gæti það einnig haft áhrif á rán og rupl á svæðinu, fyrir utan hvað það væri ánægjulegt fyrir okkur íbúana að hafa ykkur í hverfinu.
Þú skoðar þetta nú endilega fyrir okkur. Vertu svo hjartanlega velkomin í efri byggðir Kópavogs við fyrsta tækifæri.