Skömmu eftir miðnætti varð umferðarslys á Fjallkonuvegi í Grafarvogi. Léttu bifhjóli var ekið á bifreið. Ökumaður og farþegi bifhjólsins voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar en ekki er vitað um alvarleika meiðsla þeirra. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi, að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fleiri brot. Ökumaðurinn var með hjálm en farþeginn ekki. Ökumaður og farþegi eru fæddir 2005 og komu forráðamenn þeirra og Barnavernd því að vinnslu málsins með lögreglunni.
Í miðborginni var tillitslaus hávaðaseggur á ferð en lögreglumenn höfðu ítrekuð afskipti af honum. Hann hjólaði þar um og var með stórt hátalarabox sem mikill tónlistarhávaði glumdi úr. Maðurinn verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Tveir ökumenn voru handteknir grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra reyndist ekki vera með gild ökuréttindi og hinn reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum.