fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Ríkið gæti tapað peningum vegna ferðalána

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 6. júlí 2020 08:00

Ferðamenn með töskur í eftirdragi eru algeng sjón í mörgum borgum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo gæti farið að ríkissjóður tapi peningum vegna svokallaðra ferðalána úr Ferðaábyrgðasjóði. Ferðaskrifstofur geta sótt um lán í hann til að endurgreiða viðskiptavinum sínum pakkaferðir sem féllu niður af óviðráðanlegum orsökum (vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar) á tímabilinu 12. mars til 31. júlí.

Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, ferðamálastjóra, að ekki hafi verið lagt mat á hversu stór hluti krafnanna kunni að tapast en búast megi við að einhverjir peningar tapist. Ferðamálastofa annast rekstur sjóðsins. Ef heimild hans verður nýtt til fulls er gert ráð fyrir að umfang lánanna verði um 4,5 milljarðar króna.

Morgunblaðið hefur eftir Skarphéðni að lögin nái til 15 til 20 þúsund ferða en engin veð liggja að baki lánunum. Ef ferðaskrifstofur, sem nýta sér úrræðið, verða gjaldþrota á Ferðaábyrgðasjóður kröfu í tryggingar fyrirtækjanna.

„Ferðaþjónustan stendur mjög illa þannig að það má búast við að eitthvað tapist. Það verður þó haft eftirlit með því að lánið skili sér til neytenda, til að tryggt sé að það verði ekki notað í eitthvað annað.“ Hefur Morgunblaðið eftir Skarphéðni sem sagði einnig að ferðaþjónustufyrirtækin verði að uppfylla lágmarksviðmið um ríkisstyrki til að geta fengið lán. Ekki liggi fyrir hversu mörg fyrirtæki uppfylli þau viðmið.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, sagði að ákveðin áhætta felist í lánunum eins og öðrum lánum sem veitt eru í því ástandi sem nú ríkir. Ferðaábyrgðasjóður eigi þó kröfu í tryggingafé viðkomandi ferðaskrifstofa.

„Ég myndi ekki segja að um víkjandi lán sé að ræða þótt þetta séu ekki veðlán. Í lögunum er kveðið á um að sjóðurinn öðlist kröfu í tryggingafé ferðaskrifstofu og í tilviki gjaldþrotaskipta kröfu samkvæmt 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Vissulega er þó einhver áhætta fólgin í þessum lánum eins og öllum lánum sem veitt eru núna í því ástandi sem hefur skapast vegna veirunnar.“
Er haft eftir henni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt