fbpx
Þriðjudagur 18.nóvember 2025
Fréttir

Kolbrún ósátt við græðgina og okrið: Verður þetta minnismerki um veruleikafirringu?

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. júní 2019 09:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Skilaboð sögunnar eru þau að til að gera erfiðu árin ögn bærilegri eigi að sýna ráðdeild á uppgangstímum og leggja til hliðar fyrir mögru árin,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, í leiðara dagsins í dag.

Þar skrifar Kolbrún meðal annars um stöðu efnahagsmála, en blikur eru á lofti vegna yfirvofandi samdráttar. Kolbrún segir að Íslendingar hefðu ef til vill mátt sýna meiri fyrirhyggju á undanförnum árum.

„Íslendingar voru undrafljótir að jafna sig á efnahagshruni og hafa undanfarin ár búið við mikið góðæri. Í óhóflegri bjartsýni hafa einhverjir þeirra lifað eins og góðærið myndi vara alla tíð og virðist brugðið þegar í ljós kemur að svo muni ekki verða. Samdráttur setur þá úr jafnvægi og fyrir bregður ólundarsvip við tilhugsunina um að gróðinn verði minni en áður,“ segir Kolbrún sem nefnir að þetta eigi sérstaklega við um ferðaþjónustuna.

„Þegar gróskan var þar hvað mest var veinað yfir hugmyndum um að ferðaþjónustan greiddi sitt til samfélagsins í formi skatta. Ferðaþjónustan var sögð ofurviðkvæm grein sem ætti að njóta alls kyns fríðinda. Á þessu var tekið mark og ferðaþjónustan hefur ekki verið skattlögð eins og ástæða er til. Hún hefur hvað eftir annað verið staðin að okri en rekur upp skaðræðisvein ef einhverjir gera athugasemdir við það. Græðgishugsun hefur verið í forgrunni en fyrirhyggju ekki gætt að sama skapi.“

Þó að Kolbrún nefni sérstaklega ferðaþjónustuna segir hún að þetta eigi einnig við um aðra. „Eins og til dæmis fjárfesta og aðra peningagutta sem vilja planta sem flestum lúxusíbúðum og lúxushótelum út um allar trissur, ekki síst í miðbæ Reykjavíkur, og gera sjálfkrafa ráð fyrir að anna ekki eftirspurn.“

Kolbrún segir að þar á bæ hafi menn gengið út frá því að góðu árin væru komin til að vera.

„Nú blasir samdráttur við og erfitt er að sjá fyrir sér að lúxushúsnæðið fyllist. Það mun standa á sínum stað, sem eins konar minnismerki um oflátungshátt og veruleikafirringu. Nokkuð sem íslenskur almenningur sá ótal dæmi um á árunum fyrir hrun og hélt að myndi ekki endurtaka sig í bráð.“

Þrátt fyrir samdrátt og niðursveiflu, segir Kolbrún að Íslendingar muni áfram búa við velsæld þótt hún verði ef til vill ekki jafn mikil og undanfarin ár. Segir hún að þeir einu sem hafa raunverulega ástæðu til að kvarta séu öryrkjar og launafólk á lægstu launum – fólkið sem nær ekki endum saman.

„Lítt er hugað að þessum hópi, stundum er eins og viðhorfið sé að hann hafi kallað þetta hlutskipti yfir sig og verði að vinna sig út úr því á eigin spýtur. Það er hægara sagt en gert í þjóðfélagi þar sem fólk á leigumarkaði er fast í vítahring. Megnið af tekjunum fer í svívirðilega háa húsaleigu og ekkert er afgangs til að leggja fyrir. Þetta fólk á ekki nein sérstaklega góð ár heldur endalausa röð af mögrum árum þar sem það reynir að skrimta. Það á að setja hag þessa fólks í forgang, ekki hag þeirra sem vilja græða sem mest.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Segir flugöryggi ógnað

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Trump hvetur til afhjúpunar á öllum Epstein-skjölum – Segist hafa ekkert að fela

Trump hvetur til afhjúpunar á öllum Epstein-skjölum – Segist hafa ekkert að fela
Fréttir
Í gær

Gagnrýna orðræðu Miðflokksins og benda á hvaðan innflytjendur á Íslandi koma – „Hef enga trú á að Íslendingar láti blekkja sig“

Gagnrýna orðræðu Miðflokksins og benda á hvaðan innflytjendur á Íslandi koma – „Hef enga trú á að Íslendingar láti blekkja sig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingar erlendis bíða sumir í ofvæni eftir rafrænum lyfjaávísunum milli landa

Íslendingar erlendis bíða sumir í ofvæni eftir rafrænum lyfjaávísunum milli landa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úttekt verður gerð á leikskólamálum í Reykjanesbæ – Segja líklegt að staðan sé enn verri en í Reykjavík

Úttekt verður gerð á leikskólamálum í Reykjanesbæ – Segja líklegt að staðan sé enn verri en í Reykjavík
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Viðar segir Nadine þurfa að beina reiðinni að eiginmanninum

Jón Viðar segir Nadine þurfa að beina reiðinni að eiginmanninum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Morgunblaðið talið hafa birt duldar auglýsingar þrátt fyrir að hafa ekki fengið greitt fyrir efnið

Morgunblaðið talið hafa birt duldar auglýsingar þrátt fyrir að hafa ekki fengið greitt fyrir efnið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Nadine sár út í sinn gamla vinnustað – Vísir neitar að taka niður myndina af syni hennar

Nadine sár út í sinn gamla vinnustað – Vísir neitar að taka niður myndina af syni hennar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Miðflokksins segir Vísi hafa birt stríðsyfirlýsingu – „Ekki láta ykkur bregða ef henni verður svarað“

Varaþingmaður Miðflokksins segir Vísi hafa birt stríðsyfirlýsingu – „Ekki láta ykkur bregða ef henni verður svarað“