fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Morðmálið sem blés lífi í Ku Klux Klan – Undarlegar orðsendingar fundust nálægt líkinu

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 14. júlí 2019 22:00

Mary Phagan var aðeins þrettán ára þegar hún var myrt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestar verslanir og fyrirtæki í Georgíu í Bandaríkjunum voru lokuð þann 26. apríl árið 1913, enda dagurinn almennur frídagur til að minnast hermanna Suðurríkjasambandsins sem féllu í herþjónustu. Skrifstofur fyrirtækisins National Pencil Company í Atlanta voru hins vegar opnar þennan dag því yfirstjórnandinn, hinn ungi Leo Frank, þurfti að klára fjárhagsáætlanir og greiða út laun til starfsmanna. Einn af starfsmönnum hans, hin þrettán ára Mary Phagan, mætti á skrifstofuna til að sækja launin sín en það sem gerðist í kjölfarið hafði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir samfélagið í Suðurríkjum Bandaríkjanna, í raun Bandaríkin öll.

Gyðingar og barnaþrælkun

Mary vann í verksmiðjunni og fékk aðeins tíu sent greidd á tímann. Þetta var ekki óalgengt í Suðurríkjunum á þessum tíma því vinnuaðstæður verkafólks voru til skammar og var sérstaklega slæmt ástand í Atlanta þegar kom að því að ráða ung börn í vinnu, allt niður í tíu ára gömul. Popúlistar kenndu viðskiptajöfrum af gyðingaættum um slæman aðbúnað barna og barnaþrælkun á vinnustöðum, þótt þeir sem hafi rekið fyrirtæki á þessum tíma í Atlanta hafi aðhyllst ýmis trúarbrögð. Fyrrnefndur Leo Frank var hins vegar gyðingur og hann réð ung börn í vinnu fyrir lág laun, sem börnin létu svo foreldra sína hafa svo fjölskyldan gæti lifað af.

Er hann saklaus? Leo Frank, vinnuveitandi Mary.

Hrottalegt morð

Mary fannst látin í kjallaranum í National Pencil Company daginn eftir að hún sótti launin sín. Það var blökkumaðurinn Newt Lee sem fann líkið en hann vann í verksmiðjunni. Mary hafði verið kyrkt og lamin í höfuðið. Þá hafði henni einnig verið nauðgað. Morðið var afar hrottalegt og var bandspotti djúpt grafinn í hálsi hennar. Þá gat Newt Lee ómögulega séð hvort stúlkan væri svört eða hvít þar sem hún var blóðug og líkið útatað í mold. Undarlegar orðsendingar fundust nálægt líkinu. Erfitt reyndist að lesa skriftina á miðunum en á einum þeirra var hripað eitthvað um „hávaxinn, svartan negra.“

Það kemur því líklega ekki á óvart að Newt Lee var grunaður um morðið í fyrstu. Síðar var annar blökkumaður, sem vann í verksmiðjunni sem sópari, Jim Conley, grunaður um verknaðinn. Hann hafði verið í verksmiðjunni daginn sem Mary hvarf en neitaði sök. Hann benti hins vegar á vinnuveitandann, Leo Frank. Sá neitaði einnig sök og sagði að Mary hefði tekið launin sín og farið. Síðan hefði hann klárað vinnu sína og farið heim. Kviðdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöður að Leo hefði banað Mary og var hann dæmdur til dauða. Leo skyldi verða hengdur. Það skal tekið fram að í kviðdómnum sátu aðeins hvítir einstaklingar og sætti það tíðindum að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu á þessum tíma en ekki sakfellt blökkumanninn, Jim Conley. Það féll þó fljótt í skuggann á því sem gerðist eftir að Leo var sakfelldur.

Hugsanlegur morðingi Jim Conley.

Rænt úr fangelsi og hengdur

Það er vægt til orða tekið að segja að málið hafi vakið gríðarlega mikla athygli vestanhafs og skiptist fólk í tvær fylkingar. Annar hópurinn hélt fram sakleysi Leos og hinn hópurinn kynti undir andúð í garð gyðinga. Flestir Georgíubúar töldu að réttlætinu yrði fullnægt þegar að Leo yrði hengdur á meðan íbúar í norðurhluta Bandaríkjanna töldu hann blóraböggul stjórnvalda því ekki hefði tekist að finna réttan morðingja Mary. Lögfræðingar Leos áfrýjuðu niðurstöðunni og loks var refsingin milduð í lífstíðardóm í fangelsi. Þá varð uppi fótur og fit og fljótlega lagði hópur, sem kallaði sig Knights of Mary Phagan, á ráðin um að ræna Leo og hengja hann sjálfir.

Leo var rænt úr fangelsi þann 16. ágúst árið 1915 og var hann hengdur næsta morgun. Áður en hann fór yfir móðuna miklu bað hann um að giftingarhringur hans yrði gefinn konu hans. Nokkrum mánuðum síðar voru samtökin Ku Klux Klan stofnuð, en þeirra einkenni er hatur á blökkufólki og trú á yfirburði hvíta kynstofnsins. Samtökin höfðu verið lögð af árið 1871 en árið 1915 fengu þau byr undir báða vængi vegna morðsins á Mary Phagan. Að sögn ýmissa sagnfræðinga varð þetta morðmál þess valdandi að gyðingahatur óx mikið í Bandaríkjunum, en sama ár og Mary var myrt voru samtökin Anti-Defamation League stofnuð, en þau berjast gegn gyðingahatri. Þetta mál vekur því upp mjög sterkar tilfinningar og hefur í rúma öld orðið að deilumáli á milli hvítra og svartra, gyðinga og kristinna, dreifbýlisfólks og borgarbarna.

Samtökin hófu störf á ný eftir að mál Mary Phagan kom upp.

Málið tekið upp enn á ný

Nú á hins vegar að taka þráðinn upp aftur og var það tilkynnt í maí á þessu ári að málið yrði opnað aftur. Nýstofnuð deild innan réttarkerfisins vestanhafs, sem sérhæfir sig í gömlum, óleystum málum, mun hafa yfirumsjón með rannsókninni. Roy Barnes, fyrrverandi ríkisstjóri, verður ráðgjafi nefndarinnar og hann stendur í þeirri trú að Leo hafi verið saklaus en ýmislegt hefur bent til þess að Jim Conley hafi í raun verið morðinginn. Það kemur meðal annars fram í bókinni And the Dead Shall Rise frá árinu 2003.

Margoft áður hefur verið reynt að hreinsa nafn Leos. Fyrsta tilraunin var gerð af hollenska blaðamanninum Pierre Van Paassen árið 1922. Hann fékk málið á heilann og fór í gegnum öll gögn. Loks fann hann misræmi á milli bitfara á líkinu og myndum af tönnum Leos. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Leo hefði ekki getað verið morðinginn vegna þessa. Pierre vann hjá blaðinu Atlanta Constitution sem neitaði að birta uppgötvanir hans í málinu vegna hræðslu við að ýfa upp enn meiri andúð í garð gyðinga. Pierre birti því ekki þessar upplýsingar fyrr en árið 1964, í endurminningum sínum, To Number Our Days. Þessar upplýsingar breyttu hins vegar engu.

Alonzo Mann.

Lögfræðingurinn Arthur Powell í Atlanta fullyrti að hann væri með upplýsingar sem myndu hreinsa nafn Leos, í bókinni I Can Go Home Again frá árinu 1943. Samkvæmt upplýsingum Arthurs var morðinginn Jim Conley. Gyðingasamfélagið í Atlanta lagðist gegn því að þessar upplýsingar yrðu birtar og þrýsti annar lögfræðingur, Max Goldstein, á dómara í Atlanta að hunsa þessar sannanir Arthurs.

Lögfræðingarnir Charles Wittenstein og Dale Schwartz reyndu árið 1982 að fá Leo náðaðan, en sú bón var byggð á framburði Alonzos Mann, þá 83 ára. Hann hafði unnið á skrifstofunni hjá Leo á þessum tíma. Hann var fjórtán ára og að hans sögn kom hann inn í anddyri verksmiðjunnar daginn sem Mary lést og sá Jim Conley bera lík Mary. Alonzo sagðist ekki hafa sagt frá þessu fyrr því Jim Conley hefði hótað að drepa hann ef hann leysti frá skjóðunni. Frásögn Alonzos var dramatísk en leiddi í ljós lygi í framburði Jims Conley frá þessum tíma. Jim hélt því fram að Leo hefði myrt Mary á annarri hæð hússins, eftir að hún vildi ekki stunda með honum kynlíf. Jim sagði að Leo hefði fengið hann til að fela líkið fyrir sig með því að fara með það í lyftunni niður í kjallarann. Að sögn Jims fór hann aldrei í anddyri verksmiðjunnar, en Alonzo staðhæfði að það hefði hann gert. Leo var hins vegar ekki náðaður þar sem náðunarnefndin gat ekki sannað sakleysi Leos og taldi vel líklegt að Jim hefði logið um hvernig líkið hefði verið fært í kjallarann. Lögfræðingarnir komu aftur fyrir nefndina árið 1986, þá til að fá afsökunarbeiðni frá Georgíufylki fyrir að vernda ekki Leo fyrir hópnum sem rændi honum og hengdi. Sú beiðni var samþykkt en Leo er enn talinn sekur.

Svarið liggur hjá Roy Barnes

Það er því eðlilegt að spyrja sig hvað sé breytt núna? Af hverju er verið að taka þetta aldargamla mál upp aftur? Svarið liggur í hlutdeild Roys Barnes. Hann er fæddur og uppalinn í bænum þar sem Leo var hengdur, Marietta, og eiginkona hans er afabarn eins mannsins sem tók þátt í hengingunni. Roy hefur djúpan skilning á því hvaða áhrif þetta mál hafði á samfélagið í Georgíufylki og vill fátt meira en að sannleikurinn líti dagsins ljós. Hvort það tekst á svo eftir að koma í ljós.

Umfjöllun um mál Mary Phagan var í fjölmiðlum um gjörvöll Bandaríkin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu