Innflutningur kókaíns til Íslands fer ört vaxandi, efnið er sterkara en oft áður og tölur gefa til kynna að neysla þess fari vaxandi. Þá hefur greiningum kókaínfíknar fjölgað hratt hjá íslenskum meðferðaraðilum. Talið er að erlendir glæpamenn séu stórtækir á íslenskum kókaínmarkaði.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi árið 2019.
„Að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra hafa breytingar á hinum alþjóðlega kókaínmarkaði komið fram á Íslandi. Sökum minni eftirspurnar í Bandaríkjunum, aukinnar framleiðslu í SuðurAmeríku og minnkandi hagnaðar leggja alþjóðlegir glæpahópar nú áherslu á að auka framboð á kókaíni í Evrópu,“ segir í skýrslunni og því bætt við að meðaltalsstyrkur kókaíns sé meiri en nokkru sinni á síðustu tíu árum.
„Upplýsingar frá því í janúar 2019 gefa til kynna að neysla kókaíns fari vaxandi á Íslandi. Verð á efninu lækkaði árið 2018, um allt að fjórðung frá árum þar á undan. Kann það af einhverju leyti að skýrast af auknu framboði á heimsvísu og lækkandi verði. Greiningum kókaínfíknar fjölgar hratt hjá íslenskum meðferðaraðilum.“
Að mati lögreglu er aukning í innflutningi á kókaíni vísbending um aukin umsvif skipulagðra brotahópa á Íslandi og alþjóðlegar tengingar þeirra.
„Vitað er að hópur erlendra afbrotamanna er stórtækur á sviði kókaínsölu á Íslandi og að efnið sem hann selur er sérlega hreint og þar með öflugt. Aukinn hreinleiki efna á markaði felur í sér hættu þar eð neytendur fá þá sterkari efni en þeir eru vanir og taka því inn of mikið magn. Samkvæmt upplýsingum greiningardeildar ríkislögreglustjóra látast tugir manna árlega af völdum fíkniefna hér á landi og sérfræðingar segja að „lífshættulegur kókaínfaraldur“ hafa riðið yfir á undanliðnum misserum.“
Í skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram að fyrrnefndur hópur afbrotamanna komi að flestum birtingarmyndum skipulagðrar brotastarfsemi.
„Hann smyglar sterkum fíkniefnum inn í landið og rekur öflugt net sölumanna, stundar skipulögð vinnumarkaðsbrot, kemur að innflutningi á erlendum vændiskonum til landsins, fremur skattsvik og peningaþvætti. Í hóp þessum er undirsátum foringjanna „skipt út“ reglulega og upplýsingar eru fyrir hendi um að í einhverjum tilvikum séu „fótgönguliðar“ þessir ofurseldir vilja þeirra sem stjórna. „Fótgönguliðar“ stunda margvíslega „svarta“ atvinnustarfsemi og virðist hluti ágóðans, hið minnsta, renna til foringjanna.“
Í skýrslunni kemur fram að ljóst sé að mikill fjöldi fólks komi að þeirri skipulögðu brotastarfsemi sem hópur þessi heldur uppi á Íslandi.
„Hlutverkin eru að sönnu misjöfn og einhverjir kunna í raun að vera fórnarlömb. Samkvæmt upplýsingum greiningardeildar ríkislögreglustjóra hafa rúmlega 100 manns tengst þessum glæpahópi. Vísbendingar eru um að hann eflist. Að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra stendur hópur þessi fyrir þaulskipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og telst hann vaxandi ógn við einstaklinga og samfélag.“