Norska ríkisúvarpið hefur birt viðtal við kærustu Gísla Þórs Þórarinssonar sem lét lífið með voveiflegum hætti fyrir hendi hálfbróður síns laugardagsmorguninn 27. apríl. Þar kemur fram að lögreglan á staðnum vissi um hótanir Gunnars, sem grunaður er um verknaðinn, í garð bróður síns, vissi um nálgunarbannið sem Gísli hafði fengið á Gunnar og vissi að Gunnar hafði orðið sér úti um byssu. Fréttablaðið greindi frá þessu.
Í viðtalinu lýsir kærasta Gísla yfir mikilli óánægju með störf lögreglunnar í málinu.
Í frétt Fréttablaðsins segir:
„Hún segir að þau Gísli hafi grunað að Gunnar kynni að hafa orðið sér úti um skotvopn og ætlaði sér að láta að verða af hótunum sínum. Fulltrúi lögreglunnar segir í samtali við NRK að rökstuddur grunur þurfi að liggja að baki því að hún framkvæmi húsleit til að komast að því hvort viðkomandi sé með vopn. Lögreglan telur að Gunnar hafi orðið sér úti um vopnið sama dag og Gísli var myrtur.“
Saksóknarinn Anja M. Indbjør hafnar ásökunum um að lögreglan hafi ekki staðið sig í stykkinu.
Sjá einnig viðtal DV við systur bræðranna, Heiðu, sem reyndi að fá Gunnar ofan af áformum sínum